Monday, November 13, 2006

Adam í heimsókn


Jóhanna og fjölskylda í heimsókn


Heil og sæl á ný !
Ég má til með að setja hér inn myndir ef ég mögulega get, af Adam ömmustráknum mínum sem var hér í heimsókn fyrir viku síðan ásamt foreldrum sínum. Listakokkurinn pabbi hans kom til að sjá um egypskt hlaðborð á Hótel Héraði og Josey magadanskennari mætti líka og sýndi listir sínar, þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi með 2 mánaða gamla dóttur sína meðferðis.
Við Rúnar, Jóhanna og Adam mættum á hlaðborðið ásamt Binnu og Magga og nutum kræsinganna og dansins, sem Adam kryddaði svolítið með óvenju miklum áhuga á dansmeynni og tilraun til að taka þátt í dansinum með henni, sem reyndar mistókst, þar sem sá stutti er ekki ennþá farinn að ganga einn og óstuddur ennþá. En hann vakti óskipta athygli m.a. fyrir fallegan þjóðbúning sem pabbi hans kom með nýlega frá Cairo og Jóhanna sömuleiðis var klædd fallegum egypskum kvenbúning sem átti vel við tilefnið. Ef svo illa vill til að ég kem ekki myndunum á bloggið, eins og oft hefur skeð hjá mér, þá set ég þær í Yahoo- vefmyndaalbúm Adams.
Annars er allt meinhægt í fréttum héðan frá hjara veraldar, vetur er genginn í garð með óttalega óskemmtilegri veðráttu í bili. Við megum þó þakka fyrir meðan ekki snjóar allt á kaf, þó vindur, regn og rok sé lítið skárra. Mig grunar reyndar að þessi vetur verði snjóléttur, a.m.k. framan af, því skv. draumaráðningum mínum ætti svo að verða. Sjáum bara hvað setur ???