Saturday, June 23, 2007

Vængjaðir vinir...



Á þessu góða vori hafa fjölmargir vængjaðir vinir tekið sér bólfestu hér allt um kring og fjölgað sér eftir bestu getu. Það er mér sönn ánægja að hafa þessa tvífættu vini svo nálægt, þeir syngja mann í svefn á kvöldin og maður vaknar við söng þeirra flesta morgna við undirleik árinnar og fossanna. Einn óhræddur Skógarþröstur bjó um sig í innkaupakörfunni á reiðhjóli nágranna míns og er nú búinn að koma þar upp a.m.k. 5 ungum sem vonandi hafa ekki lent í kattarklóm eða máfsgoggi. Hópur af kríum er á góðri leið að koma upp sínum ungum hér í næsta nágrenni innan við okkur og meira að segja grágæs hreiðraði um sig ótrúlega nálægt okkur, en eitthvað gengur hægt hjá henni að unga út, vonandi situr hún ekki bara á fúleggjum.
Það hefur vakið furðu mína og ánægju hve gæfir margir þessir fuglar eru og skal ég nefna síðasta dæmið sem henti mig í fyrradag er ég var að vökva kálgarðinn minn. Þá flaug niður á lóðina til mín í 2ja metra fjarlægð, Auðnutittlingskarl sem byrjaði að úða í sig fræjum úr fífilbotni sem orðið hafði eftir er ég sló lóðina skömmu áður. Hann stóð þarna og við horfðumst í augu í ca. 2-3 mínútur, sem er kraftaverk að mínum dómi. Ég hélt áfram að vökva garðinn í rólegheitum en hann hreyfði sig ekki úr stað, fylgdist bara greinilega með mér og nágrenninu, þar til hann hafði klárað fæðuna sem í boði var, þá færði hann sig aðeins fjær og hélt áfram. Ég endaði með því að sækja myndavél inn, en þá var hann auðvitað horfinn, svo ég verð víst bara að geyma þessa óvenjulegu stund í safni minninganna, eins og svo margt annað sem ekki er hægt að festa á filmu...(eða kubb...ehehe...!!!)

MIÐSUMARGANGA





Gönguklúbbur Seyðisfjarðar hefur verið mjög virkur á undanförnum árum og efnt til almennra gönguferða víða um nágrennið eftir að hafa stikað allar helstu gönguleiðir hér um kring.
Föstudagskvöldið 22. júní buðu félagsmenn öllum áhugasömum bæjarbúum að koma með í rútuferð upp að snjóflóðavarnargörðunum í Bjólfi. Það er skemmst frá að segja að líklega um 70 manns mætti niður að Herðubreið kl. 20 um kvöldið og settu Gunnar Sverrisson formann félagsins í dálitla klípu, því ekki komust allir í 40 manna rútuna. En hann er greinilega ýmsu vanur og sá til þess að allir kæmust upp á Bjólf. Þaðan var gengið í 2 hópum, annar fór um varnargarðasvæðið og hélt síðan til baka með rútunni í bæinn, en stærri hópurinn sem ég fylgdi, gekk austur yfir fjallsöxlina og niður í Vestdalinn. Þessi hópur sem taldi líklega 54 hressa göngugarpa, munaði ekki um að komast tímanlega niður að nýju brúarstæði yfir Vestdalsána, en félagar og velunnarar Gönguklúbbsins stóðu fyrir því að brú yrði sett yfir ána á mjög heppilegum stað, ofan við neðsta fossinn. Þar beið hópurinn góða stund eftir brúarsmiðunum og fleirum sem komu akandi upp í Vestdal.
Það var okkar ágæti Stefán Jóhannsson bátasmiður sem hannaði brúna og mætti hann nú ásamt fríðu föruneyti til vígsluathafnarinnar. Ég held að flest allir þeir fjölmörgu sem tóku þátt í smíði hennar og að koma henni á sinn stað, hafi líka verið mættir þarna um miðnættið til að taka þátt í athöfninni sem fór fram skv. hefðbundnum serimoníum. Meira að segja var Einar Bragi mættur með saxofóninn og spilaði á miðri brúnni af þessu tilefni.
Síðan hélt hópurinn neðar í dalinn þar sem Ásgeir “yfirkokkur”, Njörður og fleiri góðir hjálparkokkar voru tilbúnir með birkigrillað lambakjöt á grilli, sem smakkaðist alveg einstaklega vel. Auk þess gátu allir sem vildu borðað grillaðar SS pylsur að vild.
Þessi veislumatur var fljótur að hverfa, enda höfðu ansi margir lagt leið sína á svæðið úr bænum á síðustu stundu, jafnt heimamenn sem gestir og trúlega hefur verið hátt í 100 manns á staðnum sem skemmti sér vel þessa miðsumarnótt, því skemmtikraftar mættu líka á svæðið, m.a. Guðmundur Sigurbjörnsson með nikkuna, Snorri Emils með trommuna og Solla á skeiðunum.
Þrátt fyrir að veður væri með allra besta móti, logn og sól á meðan fjallgangan stóð yfir, þá setti hroll að mörgum sveittum göngumanni, þegar komið var fram yfir miðnættið. Þá héldu menn að lokum heim glaðir, misþreyttir og saddir eftir velheppnaða miðsumarveislu sem Göngukúbburinn á heiður að og á skilið mikið lof fyrir þetta frábæra framtak...!!!

Thursday, June 21, 2007

Skálanesganga...


Laugardaginn 9. júní s.l. fórum við Rúnar ásamt hópi fólks úr Gönguklúbbi Seyðisfjarðar í fuglaskoðunarferð út í Skálanes. Rúnar var beðinn um að vera n.k. “fuglafræðingur” hópsins.
Gengið var í blíðuveðri frá bílastæðinu í Austdal og haldið sem leið lá eftir merktum leiðum, m.a. niður í fjöru og út í bjarg til að sjá sem flestar tegundir fugla.
Ótrúlegur fjöldi af kríu heldur til á svæðinu í kringum Skálanesbæinn og æðarkollurnar eru ótrúlega spakar á hreiðrunum, við fengum jafnvel að klappa þeim, án þess að þær rótuðu sér af eggjunum.
Í bakaleiðinni kíktum við inn hjá húsráðendum og keyptum okkur kaffi, kakó og meðlæti, sem var vel þegið hjá flestum (held ég).
Heimferðin gekk fljótar fyrir sig, því nú var farin beinasta leið, en þrátt fyrir það vorum við víst eina 7 tíma í þessari ferð. Enda var yfirleitt rólega gengið, þar sem taka þurfti tillit til barns sem fór rólega yfir. Líklega þess vegna fann ég ekki votta fyrir strengjum næstu daga, eins og ég er vön eftir margra klukkustunda gönguferðir, því ég er því miður ekki í neinni æfingu. En svo drifum við Rúnar okkur núna eitt kvöldið, upp að klettum úti á strönd, til að skoða mjög sérstakan foss sem þar er, en hann lætur ekki mikið yfir sér, séður neðan af veginum. Þessi rösklega “fjallganga” reyndist strembin a.m.k. fyrir mig, því erfitt er að ganga upp skriðurnar því lausir steinar eru víða og jafnvel í felum undir mosanum.... En við sluppum með skrekkinn...og ég alveg laus við strengi... merkilegt nokk........!!!