Sunday, June 22, 2008

Sumarsólstöður




Við sumarsólstöður ár hvert er gott tilefni til að njóta íslenskrar náttúru og vera eins mikið úti og veður og tími manns leyfir.
Í gær 21.júní var ágætt veður til útiveru þó sólin léti bíða eftir sér fram yfir hádegi. Mild hafgola var það eina sem bærði hár á höfði það sem eftir lifði dags.

Þær systur Elín Hrefna og Sigrún Klara Hannesdætur eru staddar hér í bænum þriðja sumarið í röð en Sigrún er núna að safna efni um Seyðfirskar konur og hef ég reynt að vera henni til aðstoðar við öflun gagna eftir því sem kostur er.
Við fórum út í Skálanes í fyrrasumar og í gær var ákveðið að fara þangað aftur og núna í sólstöðukaffi og líta á þær breytingar sem orðnar eru frá því í fyrra, en búið er að byggja stórfínan veitinga-sólskála við húsið og lagfæra það á ýmsan hátt, m.a. er komið stórfínt svefnloft á háaloftið og svalir og neyðarútgangur af efri hæðinni. Margt fólk var þar við vinnu og mikið um að vera, en okkur var tekið vel og fengum við kakó og kökur og máttum skoða okkur um að vild. Við gengum síðan út í bjargið og Sigrún hitti að lokum erlenda konu sem hún vissi að var stödd þarna og hafði áhuga á að hitta, en þær eru báðar menntaðar á sama sviði. Ferðin fram og til baka gekk vel, þó ég sé frekar rög að aka yfir vatnsmiklar ár og brölta eftir illfærum vegi sem reyndar er verið að lagfæra og vonandi verður hann betri næsta sumar, því auðvitað förum við þangað "á sama tíma að ári" eins og við ræddum um.
Við höfum skipst á að skreppa í mat hver til annarrar og það er mikið búið að spjalla og hlæja í góðum félagsskap með vinkonum þeirra og fleirum.

Annars er það orðin árleg venja hér á Seyðisfirði að gönguklúbburinn stendur fyrir sólstöðugöngu hér í firðinum. Að þessu sinni var ákveðið að ganga upp með sunnanverðri Fjarðará alveg upp að minnismerki Þorbjörns Arnoddssonar og skoða í leiðinni alla fallegu fossana sem munu vera tæplega 20 á þeirri leið.
Veður var gott, s.s. logn, þó sólin væri auðvitað sest hér niðri í dalnum, enda ekki lagt af stað fyrr en kl. 20:00
Um 30 manns þrömmuðu saman þessa fallegu leið og gekk það vel, þrátt fyrir að síðasta spölin væru sumir orðnir þreyttir, því klifra þurfti upp smá klettabelti sem reyndist býsna strembið. Síðan tók við rútuferð niður að golfvelli, en þaðan var gengið upp á "Skaga" í fylgd Jóa Sveinbjörns sem bættist þar í hópinn ásamt nokkrum fleiri Seyðifirðingum sem ekki gengu upp heiðina. Jói sagði auðvitað stríðsárasögur og sýndi okkur hvar helstu braggahverfin voru, varðstöðvar o.fl.
Þeir sem óskuðu gátu síðan farið beint í miðnæturverð (kjötsúpu) í Skaftfell, en ég hafði ekki lyst á því undir svefninn og kaus frekar að komast heim og fara í heitt bað um miðnættið og teygði vel til að fá ekki strengi....

Sunday, June 08, 2008

Fjallganga og 100 ára minning



Í dag 8. júní 2008 eru nákvæmlega 100 ár síðan að Sigurveig amma mín fæddist. Ég heiti raunar að hluta til eftir henni, en hún lést af barnsförum aðeins 38 ára gömul, frá 6 börnum sem æ síðan hafa saknað hennar og farið mikils á mis.
Til stendur að afkomendur hennar komi saman af þessu tilefni, heima í Arnanesi, þar sem afi og amma bjuggu og áttu öll sín börn. Ég og bróðir minn erum síðustu afkomendur þeirra sem fæddumst þar og að sjálfsögðu ætla ég að mæta þangað, helgina 27.-29. júní, en sú helgi hentaði öllum best þegar að var gáð.

Í tilefni dagsins hugsaði ég mikið um ömmu og þessi tímamót en annars fór ég í margra klukkustunda fjallgöngu með mínum manni og var orðin býsna þreytt þegar við komum heim síðdegis. Við lögðum af stað um hádegi og gengum upp í skógræktina innst við sunnanverða Fjarðará. Skoðuðum vaxtar-framfarir trjánna og sáum ljótar skemmdir af völdum hreindýra á nokkrum trjám. Gengum svo upp alla hlíðina og þaðan eftir vegslóða sem liggur skáhallt upp í Fjarðarbotna. Þar fundum við nokkur hreiður, m.a. eitt Kjóahreiður sem kom okkur á óvart í meira en 200 m. hæð. Einnig varð hreindýrshorn á vegi okkar og fékk það að fljóta með okkur heim.
Við gengum út alla Botna, út fyrir SR-bræðsluna en þar klifruðum við niður ansi brattar brekkur og röltum síðan heim í gegnum bæinn.
Þetta eru býsna margir kílómetrar og þó nokkuð strembin ganga sem við höfðum auðvitað gott af.
Ég eldaði svo ágætan kjúklingarétt í kvöld og á eftir fengum við okkur vatnsdeigsbollur fylltar með rjóma og húðaðar með suðusúkklaði--- nammi-namm !

Saturday, June 07, 2008

Kvennahlaup og geitungar



Í morgun, laugardaginn 7. júní stundvíslega kl. 11, lögðu rúmlega 70 konur af stað í kvennahlaupið hér á Seyðisfirði. Veður var ágætt, að vísu sólarlaust, en aðeins hæg gola og um 14 stiga hiti. Það er nú ekkert til að kvarta yfir.
Ekki er ég viss um aldur elstu og yngstu þátttakenda, en ég veit að ein sú yngsta er að halda uppá 2ja ára afmælið sitt og ein sú elsta er 79 ára. Og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þá skörtuðum við allar fallega fjólubláum bolum, hvort sem við notum þá nú aftur eður ei. Nú þegar á ég orðið nokkuð litskrúðugt safn af kvennahlaupsbolum og líklega verða allir "verðlauna- eða- minningapeningar" kvennahlaupsins orðnir að safni áður en mörg ár líða.
Sjálfsagt tek ég mig til einn daginn og sendi alla bolina til Rauða Krossins í von um að einhver hafi þörf fyrir allar þessar ónotuðu flíkur. Sjálfsagt hafa margir fatalitlir einstaklingar fengið slíkar flíkur frá Íslendingum, a.m.k. hef ég séð myndir af fólki af erlendu þjóðerni í slíkum bolum, þeir virðast rata víða, því ég hef séð fólk í Asíu m.a. Nepal, Afríku, S-Ameríku og víðar í slíkum bolum og hafði gaman af.

Já, svo er það garðurinn...
Eins og gefur að skilja á þessum árstíma, eru störfin í garðinum býsna mörg. Ég hef því verið meira og minna að "moldvarpast" undanfarið í mínum garði og langar að gera svo margt þar til lagfæringar. En það eru oft svo mikil stórmál sem mig langar að framkvæma að lítið verður úr aðgerðum. M.a. núna langar mig að láta grafa upp alla víðirunnanna á lóðamörkunum og setja þar niður rifs í staðinn. Sem betur fer eru nágrannarnir Anna og Guðni, þessu sammála, svo að vonandi komum við þessu í verk í sumar og helst fyrr en síðar.
Eitt af því sem hefur verið að þvælast fyrir mér í garðinum s.l. vikur eru stórir og pattaralegir geitungar, sem hljóta að eiga sér bústað hér á svæðinu. Mér líst ekki vel á það, því undanfarin ár hafa þeir verið iðnir við að byggja sér bú hér á lóðinni og oft erfitt að finna þau og eyða þeim. Sjá meðf. mynd frá sumrinu 2006 sem þeir gerðu undir garðskúrnum okkar.
Ég veit ekki hvort er verra að hafa þessar flugur eða fjallakóngulærnar í kringum sig, svei mér þá. Sem betur fer hefur lítið borið á kóngulónum, enda er ég alveg miskunnarlaus við þær ef ég sé þær á húsinu, en geitungana þori ég ekki að reita til reiði, þó ég sé alltaf að reyna að finna heimili þeirra, sem enn hefur ekki tekist, því miður. En þegar það tekst þá reikna ég með að minn maður taki að sér að fjarlægja "hús og íbúa" svo fljótt sem auðið verður...ehem...þar með er það afgreitt...og engin miskunn...!