Tuesday, September 23, 2008

Selur gerir sig heimakominn



Það er varla í frásögur færandi en Rúnar fór niður að smábátahöfn í kvöld í eftirlitsferð, því allur er varinn góður að fylgjast með nöfnu minni sem þar heldur til. Þá sá hann selinn á meðfylgjandi myndum, en hann var búinn að hertaka þar hálfsokkinn bát og hreyfði sig ekki þaðan, þó við kæmum mjög nærri honum með myndavélar og tækjum margar myndir með flassi. Hann leit vel út og virtist hinn rólegasti, sem er óvenjulegt þegar selir eiga í hlut, því oftar en ekki forða þeir sér ef maður nálgast þá....

Saturday, September 20, 2008

Adam, Jóhanna og Mo í heimsókn



Ósköp er nú gaman að eiga lítinn eða stóran ömmustrák og fá að njóta hans þegar færi gefst. Helsti gallinn er hve sjaldan það er í mínu tilviki, þar sem Adam, eina barnabarnið mitt býr á suðvesturhorninu, (í Keflavík), svo að við sjáumst þess vegna sjaldnar en ég hefði kosið. En ég má þó ekki kvarta, því undanfarna 2 vetur hef ég farið 6-7 ferðir suður á hvorum vetri og sé hann í flestum ferðum. Svo hittumst við auðvitað um hver jól og á hverju sumri, svo ég get bara verið sátt.
Þessi elsku litli ólátabelgur er á svo skemmtilegum aldri núna(3ja ára) og orðinn altalandi og algjör GRALLARASKPÓI eins og Rúnar afi hans kallar hann, en hann sættir sig ekki við þá nafngift, nema hann sé kallaður STÓRI grallaraspói...
Við fáum að hafa hann í "krakkaholunni" á milli okkar í hjónarúminu á næturnar, því hann var alveg til í að sofa hjá afa gamla og ömmu gömlu og gefa mömmu og pabba smá frí. Á daginn atast hann með okkur í öllum verkum og er eins og skugginn hans afa, enda er afi eiginlega nr. 1 þegar þeir hittast, þó aðrir fái líka sinn skerf.
Í samvinnu við nágranna okkar Önnu og Guðna, réðumst við í það í gær að láta fjarlægja alla gömlu ljótu runnuna sem skildu að lóðirnar hjá okkur og ætlum að planta þar trjám og rifsrunnum í staðinn. Siggi Hauks reif þá upp og setti þá reyndar niður á nýjum stað, þar sem þeir vonandi koma að gagni sem skjól eins og til stendur hjá honum.
Vonandi verður garðurinn okkar huggulegri með nýja laginu, en það sem fyrir var. En mikið er tómlegt að sjá garðinn núna, svona "beran" þ.e. runnalausan.
Já, svo fer að fjölga nágrönnunum...hehe... því 3-4 hænur eru að fara að flytja í nýmálaðan og parketlagðan hænsnakofa sem Guðni og Anna eru að standsetja fyrir þessa nýju fjölskyldumeðlimi þeirra, kannski koma myndir af þeim næst ;-)

Monday, September 15, 2008

Kartöfluuppskeran 2008



Jæja, þá erum við Rúnar búin að fara enn eina ferð norður til Húsavíkur að heimsækja mömmu og komum ýmsu fleiru í verk. Didda systir kom líka norður og við þrjú tókum upp allar kartöflurnar sem ég potaði niður í vor og uppskeran var alveg ÓTRÚLEG... ég held ég hafi aldrei á ævi minni séð jafn stórar kartöflur, þær eru einfaldlega OF STÓRAR ! Meðfylgjandi mynd sýnir alls ekki rétt stærðarhlutföll en gefur þó hugmynd.
Mér líst nú ekkert á svona "stórgripi" af þessari tegund, en einhvern veginn verðum við samt að nota þessa "risa" og vonandi smakkast þeir bara vel.
Við systur fórum líka í berjamó og það virðist alls staðar vera nóg af berjum, því við mokuðum upp í 3 fötur á stuttum tíma. Berjabrekkurnar eru hreinlega "teppalagðar" með berjum.
Mamma skrapp meira að segja með okkur út í mó og tíndi svolítið uppí sig og hefur vonandi haft gott af því.
Við systur skruppum líka á glernámskeið hjá Sigrúnu vinkonu á Þórðarstöðum. Það var mjög gaman og við hlökkum til að sjá hvernig gripirnir okkar líta út þegar við mætum næst norður, því þá verður búið að brenna þá.
Veðrið var yndislegt alla helgina og fínn þurrkur til að þurrka kartöflurnar, svo á betra varð ekki kosið og ég er sannarlega þakklát fyrir þessa einstöku veðurblíðu, eftir eitt lengsta þokusumar sem ég man eftir hér austanlands...
Ég hef verið að kveðast á við eina skólasystur frá Húsavík og eftirfarandi fyrripart sendi ég henni nú síðast og fékk viðeigandi botn neðanvið frá henni...
Verði ykkur að góðu;

Berjabláar þúfur breiða sig um brekkur,
blundar í mér löngun, þangað fara hlýt.
Haustar senn og lyngið í bólið sitt nú sekkur.
er snjórinn dembist ofan og jörðin verður hvít.

Thursday, September 04, 2008

Grillhátíð í Sandgerði




Í Sandgerði stóð yfir grillhátíð sem minnti um margt á Mærudagana á Húsavík, því bæjarhverfin voru skreytt hvert í sínum lit. Þessar myndir gefa aðeins örlitla hugmynd um hve skrautleg sum húsin og garðarnir voru hjá fólki. Það er ótrúlegt hugmyndaflug hjá sumum og dugnaður við að taka þátt í þessum skemmtilegu bæjarhátíðum. Athugið að hægt er að skoða myndirnar í stærri útgáfum með því að smella á þær...!

Með Adam í berjamó...




Helgina sem ég var fyrir sunnan í skólanum, skrapp ég líka í heimsókn til Jóhönnu Bjargar og Adams í Keflavík og skrapp með þeim í berjamó. Veðrið var yndislegt og við fundum heilmikið af bláberjum. Einnig skruppum við um kvöldið smá rúnt til Sandgerðis og skoðuðum þar handverksmarkað sem var býsna myndarlegur í þessum litla bæ. Sýnishorn af myndunum sem ég tók fylgja hér með og ég ætla að bæta fleirum við...

Skólinn byrjaður á ný



Jæja, þá er skólinn byrjaður þennan 3ja og síðasta vetur minn í Bókasafns og Upplýsingatækni náminu. Við erum bara 5 stelpurnar sem erum eftir af 9 stelpna hóp sem byrjaði saman fyrir 2 árum síðan. Ég held í vonina að þessi vetur verði sá léttasti, því að þessi fög sem við verðum með í vetur eru meira og minna tengd vinnu minni á Bókasafninu og ættu því að vera mér auðveldari en margt af því sem við höfum verið að læra s.l. 2 vetur. En þetta kemur væntanlega fljótt í ljós.
Í hvert sinn sem ég er í skólaferðum fyrir sunnan, þá gisti ég hjá sonum mínum í Hafnarfirði. Þeir eru ekki alltaf búnir að taka til hjá sér þegar ég birtist og nú síðast var öll íbúðin "á hvolfi" svo að mér næstum féllust hendur. Drengirnir höfðu verið með partý helgina á undan og voru ekki farnir að laga neitt til, þó liðin væri hálf vika. Ég byrjaði á að tína saman fullan ruslapoka af tómum gosdósum, flöskum og slíku og henti rusli, en fór síðan að vaska upp, því næstum allt leirtauið þeirra var óhreint og því orðið tímabært að byrja á uppvaskinu. Síðan tóku við þrif og þvottar sem eru fastir liðir þegar ég kem suður, því heimilisstörf eru ekki í uppáhaldi hjá drengjunum og reyndar mér ekki heldur, en ég hef bara lært að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt og heimilisstörf eru eitt af því... spurning hvenær sumir átta sig á þessari óhjákvæmilegur staðreynd...hehe...!