Tuesday, February 17, 2009

Úrslit ráðin í Viskubrunni





Í kvöld, þriðjudagskvöldið 17. febrúar fóru fram úrslit í Viskubrunni, árlegri spurningakeppni grunnskólans. Í fyrsta sæti varð lið frá bænum, í öðru sæti varð lið á vegum skólans og í þriðja sæti urðu sigurvegarnir frá því í fyrra, Gullversmenn.
Það skal tekið fram að í öllum liðum voru nýjir keppendur í lokaúrslitunum, þar sem forföll höfðu orðið í öllum liðum.
Keppnin var spennandi og skemmtileg og létt yfir viðstöddum.
Í hléi var tíminn m.a. notaður til að tilkynna íþróttamann ársins á Seyðisfirði.
Að þessu sinni varð Friðjón Gunnlaugsson fyrir valinu, enda hógvær og hæfileikaríkur strákur sem örugglega á heiðurinn skilinn.
Kaffi og tertur voru í boði fyrir þá sem vildu og sá ég ekki betur en að flestir styddu krakkana með því að kaupa af þeim þessar kræsingar.

Thursday, February 05, 2009

Fundahöld og spurningakeppni




Sumir virðast halda að það sé daufleg vist í litlu "krumma skuðunum" víða í dreifbýli landsins. En mín reynsla er sú að hér á Seyðisfirði og annars staðar þar sem ég þekki til, er svo mikið um að vera, allan ársins hring, að fólk almennt er meira og minna að taka þátt í bæjarmálum eða áhugamálum og hafa flestir meira en nóg að gera á þeim vettvangi. Ég leyfi mér að efast um að fólk í stærri bæjum landsins séu jafn virkir í félagslífinu og fólk hér í dreifbýlinu.
Þorrablótið er nýafstaðið og nefndin sem sá um það hafði í nógu að snúast í vetur. Margir eru duglegir að nota íþróttahúsið og sundlaugina og svo eru allir þeir sem eru í hinum og þessum félögum, nefndum og ráðum að viðbættum kórum og öðrum sjálfboðaliðastörfum.
Nýlega var haldinn borgarafundur sem samþykkti tillögu til Póststjórnar landsins til að mótmæla lokun pósthússins hér. Við vonum að það beri einhvern árangur. Og síðast liðinn þriðjudag var haldinn annar fjölmennur borgarafundur áhugafólks um bættar samgöngur við Seyðisfjörð (með stjórn gönguklúbbsins í forsæti) þar sem ákveðið var að ganga reglulega yfir Fjarðarheiði á öllum árstímum til að minna á að við búum við hæsta og versta fjallveg sem nokkrir íbúar landsins þurfa að fara um til að komast til annarra byggðalaga. Þessar göngur eiga að þrýsta á stjórnvöld að taka ákvarðanir í sambandi við jarðgöng sem eru okkur algjör nauðsyn, ef mannlíf á að geta þrifist hér áfram, því samgöngur vegna ferjunnar Norrænu til bæjarins og allra þeirra ferðamanna sem með henni koma árlega, verða hreinlega að batna til muna, því það er ekki vegagerðinni eða stjórnvöldum að þakka að ekki hafa orðið meiri og verri slys á heiðinni en raun ber vitni. Hún er svo hættulega glæfraleg að jafnvel mörgum heimamönnum þykir erfitt að aka hana að vetrarlagi og er ég í þeim hópi, því hálka í brekkunum er það sem mér er verst við af öllu í umferðinni.
Sagðar voru ófagrar sögur af óhöppum sjúkraflutningamanna og annarra sem um heiðina hafa farið og vantaði þó flutningabílstjóra í hópinn sem margir hverjir hafa ófagrar sögur að segja af ferðum þeirra hér yfir.
Ég hef hugsað mér að ganga með hópnum yfir heiðina í vor eða sumar, jafnvel þó það kosti mig nokkurra daga harðsperrur.
Svo er árleg spurningakeppni grunnskólanna hafin og fyrstu 2 kvöldin afstaðin.
Rúnar minn keppti með Gullbergsliðinu í gærkvöld og þeir báru sigur úr bítum gegn mótherjunum. En eftir eru úrslitakeppnirnar næstu 2 vikur og óvíst hvernig fer, þó Gullversmenn hafi oftar en ekki hrósað happi og orðið nr. 1.
En hvort að Rúnar kemur til með að keppa áfram með liðinu er óvíst, því hann hljóp í skarðið fyrir veikan keppanda, því það eru svo margir vel lesnir og klárir náungar um borð að þeir gætu hæglega verið með 2 topplið í keppninni (að mínum dómi).
Það skiptir auðvitað engu máli hver vinnur, aðalatriðið er að hafa gaman af þessu og að 9. bekkur sem sér um keppnina ár hvert fái farareyrir í útskrifarferðina sem þeir eru að safna fyrir.
Að lokum er það svo sólin sem farin er að skríða niður undir bæ og styttist óðum í að hún uppljómi allan bæinn eins og á meðfylgjandi mynd. Þá verður nú glatt á hjalla og allir drekka sólarkaffi með pönnukökum, sem er árviss viðburður hér í bæ.
Segið svo að það gerist aldrei neitt á "krummaskuðinu" Seyðisfirði...!

Monday, February 02, 2009

Húsavík og Seyðisfjörður




Mikið skiptir það nú máli að fólk hafi vinnu, ekki bara til að fá laun til að hafa í sig og á, heldur ekki síður að hafa eitthvað fyrir stafni, því að verklausum manni hlýtur að leiðast til lengdar. Ég er t.d. hrædd um að hann Kalli vinur minn Svavarsson sem unnið hefur hátt í 40 ár hjá Póstinum, verði að finna sér tímafrekt áhugamál, ef svo illa fer að pósthúsinu verður lokað hér á Seyðisfirði, þann 1. apríl nk. eins og fyrirhugað er. Vonandi hefur þó ályktun fundar sem haldin var um málið, ásamt athugasemdum bæjarstjórnar til stjórnvalda eitthvað jákvætt að segja.

Nú eru uppsagnir vegna kreppuástandsins farnar að færast nær manni á ýmsum stöðum, þó maður voni í lengstu lög að úr rætist og ný störf finnist í stað þeirra sem tapast, því annars verður framtíðin erfið hjá mörgum. Siggi sonur okkar er í þeim hópi sem missti vinnuna nú um mánaðarmótin. Hann tekur því rólega í bili, enda ekki með neinar skuldir á bakinu og enga fjölskyldu til að sjá um, svo við höfum ekki miklar áhyggjur af honum að svo stöddu.
Við Rúnar skruppum norður í heimsókn til mömmu s.l. helgi og fréttum þá óvænt af uppsögn eins nágranna okkar og vinar þar, sem var þó svo heppinn að sjá auglýst starf sem hann gat sótt um og fær vonandi. Í hans tilfelli skiptir máli að hann hafi vinnu, því þau eru nýbúin að gera upp húsið sitt fyrir fleiri milljónir og standa því höllum fæti ef björginni er kippt undan afkomu þeirra til langframa. Við vitum að margir eru verr settir og gerum okkur grein fyrir að þeim getur ekki liðið vel.
Eina vonin er að nýju ríkisstjórninni takist að stöðva þessa óheillaþróun, svo hægt verði að fara að vinna að atvinnu-uppbyggingu um allt land til bjargar því sem hægt er að bjarga.
Með þessum hugleiðingum læt ég fljóta 3 myndir sem ég tók á Húsavík um helgina. Við komum þangað í hríðarkófi og allt umhverfið var þakið dúnmjúkri mjöll á laugardagskvöldið. En á sunnudeginum var sól og blíða, en mjög kalt, t.d. 19 gráðu frost í Víðidal á Fjöllum þegar við vorum á leiðinni austur síðdegis þann dag.
En bæði Húsavík og Seyðisfjörður hafa sinn sjarma, sama hvort það er sumar eða vetur og mér þykir vænt um báða þessa staði, enda eytt mest allri ævinni á þessum tveim stöðum og óska þeim og öllum íbúum bæjanna alls hins besta í framtíðinni...