Monday, March 30, 2009

Kolvitlaust vetrarveður





Klukkan hálf sex í morgun vaknaði ég við það að komið var kolvitlaust veður, svo að hálfopinn svefnherbergis glugginn skókst til með hávaða og látum.
Ekki varð manni svefnsamt, þó gott væri að kúra lengur meðan veðurhamurinn ólmaðist úti. En að lokum drifum við okkur framúr og Rúnar fór út með fuglafóður fyrir smáfuglana sem mættir voru að vanda til að fá sinn dagskammt af korni. Merkilegt hvað þeir þrauka þessi litlu grey í öllum veðrum.
Ekki sá maður á milli húsa í rokunum en aðeins grillir í næstu hús þegar dúrar á milli og tók ég meðfylgjandi 2 myndir út um dyrnar þegar nógu rólegt var til að kíkja út. Ansi háir skaflar hafa myndast hér í kringum okkur og ég sé fram á að þurfa að klofast í gegnum þá suma á leið minni til vinnu á Bókasafninu eftir smá stund. Ég reikna ekki með að margir mæti á safnið í dag, en ég hef nóg að dunda þar þó rólegt verði og ætla að fara að drífa mig af stað. Eigið góðan dag !

Thursday, March 26, 2009

Strætó á Seyðisfirði


Sá óvenjulegi atburður átti sér stað hér í bænum í gær, að gulur strætisvagn ók hér um götur, íbúum sem sáu hann til undrunar, því slík farartæki eru ekki dagleg sjón í okkar litla bæ.
Líklega hefur hann komið með ferjunni Norrænu sem lá við hafnargarðinn og væntanlega hefur hann verið að taka áfyllingu (sjá myndina sem hér fylgir með) fyrir ferðalag annaðhvort norður eða suður, hver veit ?
Þó ég væri hissa, þá var ég nokkuð snögg að grípa til myndavélarinnar sem ég geng með daglega í vasanum og tók nokkrar myndir af fyrirbærinu rétt eins og ég geri við sjaldséða flækingsfugla sem hingað koma og verða á vegi mínum...

Monday, March 23, 2009

Stóra upplestrarkeppnin


Ég fékk óvænta upphringingu fyrir nokkru. Það óvænta var að ég var beðin um að vera dómari í Stóru Upplestrar-keppninni sem fer fram á milli krakka úr 7. bekk víðast hvar af Austurlandi. Að þessu sinni fer hún fram í bláu kirkjunni á Seyðisfirði 1.apríl nk.
En fyrst fer fram undankeppni í hverjum skóla og valdir eru tveir nemendur úr hópi keppenda til að vera sem fulltrúar skólans.
Þessi undankeppni fór fram hér á Seyðisfirði í kvöld, 23. mars. Ég mætti auðvitað í Skaftfell til að hlusta og æfa mig að dæma og komst strax að nokkuð afgerandi niðurstöðu um hvaða nemendur væru bestir, en velja átti 2 til að keppa og 1 til vara.
Mér til ánægju voru dómarar kvöldsins sammála mér, þannig að ég mun væntanlega verða rólegri þegar að aðalkeppninni kemur, þar sem ég þykist vita að dómgreind mín á þessu sviði sé í nokkuð góðu lagi.
Meðfylgjandi er mynd af keppendum kvöldsins sem allir fengu páskaegg fyrir þátttökuna en sigurvegarar kvöldsins sem voru Ríkey Ásta Þorsteinsdóttir og Arnar Bogi Ómarsson fengu að auki bók hvort fyrir frammistöðuna. Agnes Berg Gunnarsdóttir verður síðan varamanneskjan sem hleypur í skarðið ef annað hvort hinna getur ekki tekið þátt í Stóru-keppninni...

Íslenskur vetur norðaustanlands...





Það virðist sama hvernig íslenski veturinn er, alltaf finnst manni hann vera of langur, kaldur, dimmur og óskemmtilegur. Líklega vegna þess hve óstöðugt veðurfarið er, maður veit aldrei á hverju er von frá degi til dags og er mjög vanmáttugur gagnvart höfuðskepnunum sem ráða hér ríkjum árið um kring. Ef við ættum það
víst að fá gott vor, sumar og haust, þá væri skárra að sætta sig við langan og oft erfiðan vetur, en því miður er ekkert samasemmerki þar á milli og allra veðra von á öllum tímum árs.
Vegna tíðra ferða minna norður til Húsavíkur þá skiptir miklu máli að veður og færð sé þolanlegt og oft þarf maður að sitja heima, vegna ófærðar og veðurs þegar það hefði hentað að nota helgina til norðurferðar. Oftar en ekki hef ég þó verið mjög heppin með veður og færð á þessum mánaðarlegu ferðum mínum.
Við Rúnar skruppum norður núna um helgina 21.-22. mars og fengum sól og blíðu í báðum ferðum. Þó að snjór liggi yfir jörðu á öllu norðausturlandi, þá var vegurinn auður og þurr eins og að sumri til.
Rjúpur hafa vappað hér um garða undanfarnar vikur á meðan jarðbönn voru til fjalla og þrátt fyrir sól og blíðu á Húsavík, þá voru þær enn niður við garðana þar og glöddu augu okkar með nærveru sinni.
Ég hef ekið þessa leið norður til Húsavíkur í 35 ár og aldrei tekið eftir kirkju á Jökuldal og hafði orð á því við Rúnar á leiðinni norður. Hann vissi betur en ég og ók með mig niður að Hofteigsstaðakirkju sem er staðsett á miðjum Jökuldal, neðan þjóðvegar og úr augsýn vegfarenda. Þetta sannar fyrir mér enn og aftur hvað maður er duglegur að aka beina leið frá A til B án þess að kanna málið og skoða það sem er markvert á leiðinni. Ég ætla að reyna að leggja mig fram um að gera betur framvegis...

Góð leiksýning og fleira



Nemendur Grunnskóla Seyðisfjarðar sýndu mjög svo skemmtilegan leikþátt sem nefnist Ísvélin í Herðubreið sunnudaginn 15. mars. Leikmynd var einföld en sniðug og fatnaður og förðun leikenda mjög eftirtektarverð og kom afar vel út.
Mér fannst þessi leikþáttur vera þeim öllum til sóma sem að honum komu og skora á þá sem ekki hafa séð hann að reyna að missa ekki af honum í apríllok þegar áhugaleikfélög á Austurlandi koma saman með fleiri slíka leikþætti og sýna þá hver sína útgáfuna sem vafalaust verður mjög skemmtilegt. Því miður verð ég stödd í Rvk þá helgi að útskrifast úr skólanum og hef því ekki tækifæri til að sjá fleiri hópa sýna sína þætti.
Íbúar bæjarins hér hafa varla komist hjá því að sjá seli spóka sig á ísnum á Lóninu hér undanfarnar vikur. Flesta höfum við séð þá 5 saman og má hér sjá þá kúra á ísskörinni. Þeir virtust furðu spakir og kipptu sér ekki upp við umferðina á brúnni eða forvitna vegfarendur.

Tuesday, March 10, 2009

Minning um mann...


Eitt af því sem maður veit frá því maður fær eitthvað vit er, að öll munum við "deyja" einhvern daginn. Eftir því sem maður eldist þá þekkir maður óhjákvæmilega sífellt fleiri og fleiri sem kveðja þessa jarðvist og ekkert við því að gera annað en að hugsa eða segja; "Bestu þakkir fyrir samfylgdina".
Sumir eru eftirminnilegri en aðrir og einn af þeim sem nú hefur kvatt okkur er Hákon Aðalsteinsson fv. skógarbóndi á Héraði, sem við könnumst við sem fastan starfsmann við tollgæslu Norrænu hér við höfnina á hverju sumri. Þess utan rakst maður á hann af og til á fundum eða samkomum og alltaf var hann jafn skemmtilegur.
Ég kynntist honum raunar aðeins á Húsavík eftir að hann flutti þangað fyrir margt löngu, gifti sig þar og starfaði í lögreglunni, að mig minnir með föður mínum í einhvern tíma. Móðir mín hélt líka uppá hann vegna þess hve góður hagyrðingur hann var og ekki þótti henni heldur verra að þau áttu sama afmælisdag (13. júlí).
Ég held ég hafi lesið allar hans bækur og flest ljóðin hans og alltaf haft jafn gaman af því sem hann sendi frá sér.
Ég vil hér að lokum þakka honum fyrir að krydda hjá okkur mannlífið á jafn skemmtilegan hátt og hann gerði og læt eitt af hans eftirminnilegu ljóðum fljóta hér með, mér finnst það lýsa honum nokkuð vel.

LÍFSHLAUP KARLMANNSINS:

Barnaskólaárin eru mörgum fersk í minni
því miklar verða breytingar á líkamsstarrfseminni.
Okkur fer þá fljótlega að leiðast lestrarstritið
þá læðist gjarnan út í kroppinn fyrsta hvolpavitið.

Svo í kringum fermingu þá fá menn bassaróminn
og finnst þeir vera tilbúnir að kanna leyndardóminn.
En þetta er oftast klúður og klaufalegir fundir
því kynlífið á líka sínar raunastundir.

Fram að tvítugsaldrinum er talsvert um að vera
taumleysið er algjört og mikið oft að gera.
Því nú er það fjöldinn sem mestu máli skiptir
og mörgu Grettistaki um næturnar þú lyftir.

Frá tvítugu til þrítugs blómstrar lífsins leikur
löngunin er stöðug og andi holdsins veikur.
Þú lætur eins og knapi á ljónfjörugum hesti
þig langar til að gera það á klukkutíma fresti.

Frá þrítugu til fertugs eru gjarnan góðar stundir
geysilegur vilji og margir ástarfundir.
Af talsvert meiri nákvæmni þú tilfinningar metur
þú treinir þetta lengur og gerir þetta betur.

Síðan næsta tímabil fram að fimmtugsaldri
finnst þér alveg sjálfsagt að beita nýjum galdri.
Kroppurinn er fullur af fiðringi og vonum
þú ferð að vilja sofa hjá miklu yngri konum.

Þessi löngun fylgir þér fram á sextugsaldur
þér finnst þú vera töffari og svakalega kaldur.
Um sextugt fer að hrella þig viðsjáll vöðvaslaki
þú verður oftar þreyttur og tollir illa á baki.

Um sjötugsaldur finnst þér aftur fjörið vera að lægja
þú ferð nú yfirleitt að láta gömlu brýnin nægja.
Því miðar hægt ef vindurinn stendur beint í stefnið
þú stundar þetta bara til að halda þér við efnið.

Um áttrætt virðist sjálfsagt að hafa hug á konum
í hjartanu er ylur og löngunin að vonum.
Þér finnst það skipta miklu hjá meyjunum að vera
en manst þá stundum ekki hvað þú ætlaðir að gera.

Eftir þennan tíma er löngun best að leyna
og láta ekki glepjast þótt konur vilji reyna.
Í átökunum getur sálin gengið öll úr lagi
þú gætir orðið bráðkvaddur úr ellireiðarslagi.