Sunday, November 29, 2009

Frænku-hittingur !



Ein helgi er fljót að líða og oft verður manni ekki mikið úr verki, en mér tókst að gera ótrúlega margt þessa tæpu 2 daga sem ég stoppaði fyrir sunnan.
Siggi minn er alltaf svo lipur að hjálpa manni þegar á þarf að halda. Hann fór með mér á laugardaginn í verslunarleiðangur, m.a. til að kaupa jólagjafir handa þeim bræðrum o.fl. Um kvöldið skelltum við Harpa okkur saman í bíó, á myndina 2012, sem satt að segja var ansi hrikaleg (að mínum dómi) og lá við að ég væri stíf af stressi hálfa myndina :)
Á sunnudagsmorgunn kom Didda systir og við fórum í fyrsta sinn í heimsókn til Lóu föðursystur okkar í Hraunbrún í Hafnarfirði. Það var mjög gaman að sjá hve vel þau voru búin að koma sér fyrir þar og hafa auk þess litla svo fallega íbúð til útleigu í plássinu undir bílskúrnum.
Um hádegi vorum við svo mættar ásamt Rebekku dóttur Diddu á Kaffi Loka, þar sem við hittum nokkrar frænkur úr föðurætt okkar og dætur þeirra. Þarna var hægt að fá alls konar þjóðlegan og góðan mat, m.a. skemmtilegan heimatilbúinn rúgbrauðsís, sem féll vel í kramið hjá þeim sem prófuðu hann.
Heimflugið gekk líka vel og sömuleiðis ferðin yfir Fjarðarheiði, þó hált væri, en við Binna Ara vorum samferða alla leiðina. Ég var með jeppann tilbúinn á vellinum og við gátum verslað í Bónus á heimleiðinni, alltaf gott að nota þar hvert tækifæri :)
Þó hver ferð sé oftast nær mjög ánægjuleg og tilhlökkun að komast í frí að heiman, þá verður samt að segjast að alltaf er best að koma HEIM !

Harpa mágkona 50 ára !




Ég ákvað það strax í ágúst að fara suður í fimmtugs afmæli Hörpu mágkonu og keypti mér strax flugmiða suður, enda var það eina leiðin til að fá flug á góðu verði.
Ég var svo lánsöm að veðurguðirnir voru mér hliðhollir, svo ég komst heilu og höldnu suður, strax að aflokinni vinnu s.l. föstudag 27.nóv. sem er afmælisdagur Hörpu og lenti því beint í matarveisluna sem var að hefjast. Siggi minn sótti mig á völlinn og næstum öll fjölskyldan sem býr á suðvesturhorninu var mætt, líka aldursforsetar ættarinnar á Selfossi að ógleymdri Önnu Þorsteins.
Tengdasonur okkar Mo, sá um matseldina, sem var 4 réttuð og féll vel í kramið.
Þegar líða tók á kvöldið sýndi Harpa þann stórhug að skemmta gestum á óvenjulegan hátt. Hún dreif sig út, á sparifötunum einum (en gestir voru allir kappklæddir í kuldanum) og dansaði einkadans utandyra við sinn nýja dansherra sem hlýddi henni í einu og öllu. Gerði þetta mikla lukku og enginn þorði að leika þetta eftir :)

Friday, November 20, 2009

JÓLA - HVAÐ ?




Hið árlega JÓLA-HVAÐ? var haldið í bíósal Herðubreiðar föstudagskvöldið 20. nóv. svo segja má að bæjarstarfsmenn hafi tekið forskot á Aðventugleðina með því að þjófstarta áður en sjálf Aðventan gengur í garð.
Að vanda urðu allir vinnustaðir bæjarins að mæta með eitt skemmtiatriði og byrjuðu starfsmenn áhaldahússins á því að koma fram íklæddir jólasveina búningum með fullar hjólbörur af El Grillo bjór (hvað annað?)og gáfu hverjum og einum viðstöddum einn frá Eyþóri :)
Síðan tóku við eitt eða tvö skemmtiatriði áður en hafist var handa við að borða jólamatinn, sem að vanda var hangikjöt og meðlæti, framreitt af Yfir eldhúsmellunni Röggu Gunnsa og hennar hjálparkokkum. Áfram var haldið með skemmtiatriðin að afloknu átinu og meira að segja heiðursgesturinn Þorvaldur fv. bæjarstjóri steig á stokk og sagði brandara af sjálfum sér og fékk alla til að syngja með sér nokkur jólalög.
Setið var síðan og spjallað við undirleik notalegrar jólatónlistar. En uppúr miðnætti fóru menn að týnast heim og yfirgáfum við Rúnar svæðið áður en húsið tæmdist.
Meðfylgjandi eru sýnishorn í formi mynda af nokkrum viðburðum kvöldsins :o)

Thursday, November 19, 2009

Frábærir tónleikar í bláu kirkjunni



Við Rúnar skelltum okkur á afskaplega góða tónleika í Seyðisfjarðarkirkju í kvöld. Það voru söngvararnir Friðrik Ómar og Jógvan hinn færeyski sem stóðu fyrir þeim, ásamt 5 manna hljómsveit sem stóð sig líka afbragðs vel. M.a. hef ég ekki séð fimari mann á orgel og píanó en þennan Vignir sem með þeim var. Hann spilaði gjarnan á flygilinn um leið og rafmagnsorgelið og þurfti að spila með hægri hendi það sem venjulega er spilað með vinstri og öfugt, vegna afstöðu hljóðfæranna. Það er magnað að geta þetta :)
Þeir félagar Friðrik og Jógvan eru mátulega gamansamir og hafa valið mjög svo notaleg lög á nýja diskinn sem þeir voru að selja og við keyptum eintak og fengum hann áritaðan. Það kemur líka skemmtilega út að blanda saman færeysku og íslensku. Verst að geta ekki sett hér inn hljóðdæmi til gamans, en ég var ekki með rétta myndavél og verð því að láta þessar hefðbundnar myndir duga sem hér fylgja...
Kirkjan var þétt setin, þó ekki væri hún troðfull og góður rómur gerður að tónlist þeirra félaga. Bestu þakkir fyrir góða kvöldstund :o)

Myrkragetraun Myrkravikunnar !



Síðasta vika var svokölluð Myrkravika hér austanlands. Er þetta orðinn árlegur viðburður með skemmtilegum uppákomum í anda myrkurs. Það hefur verið venja hjá okkur á Bókasafni Seyðisfjarðar að bjóða uppá Myrkragetraun bæði fyrir börn og fullorðna. Hefur getraunin falist í því að við setjum sælgæti í svartan plastpoka ofan í krús og lofum síðan gestunum að giska á hve mörg stykki séu í krúsinni.
Að þessu sinni var það Thelma Rós Kristjánsdóttir sem giskaði á réttustu töluna í barnagetrauninni og má hér sjá hana með litla bróður sínum Davíð Arnari að taka á móti sælgætinu sem var að sjálfsögðu í verðlaun. En hlutskörpust í flokki fullorðinna var Ragnheiður Gunnarsdóttir (Yfir-Eldhúsmella:) og sést hún hér skenkja Ingu samstarfskonu sinni fyrsta molann úr verðlaunakrúsinni.

Fall er fararheill...


Þessar rjúpur voru ástæða þess að Rúnar fékk eitt af sínum árlegu hjarta-óreglu-köstum sem endaði í allsherjar rannsókn í Reykjavík - Guði sé lof - liggur mér við að segja, því það kom í ljós hjá honum smá hjartagalli sem nú til dags er auðvelt að laga með smá aðgerð, til að koma í veg fyrir ótímabæran blóðtappa, sem hætta var á. Það var því sannarlega lán í óláni að svona fór. Nú framundan er smá biðtími á meðan hann er að venjast lyfjunum sem eiga að koma reglu á blóð-búskap hans, eftir að hann fékk smá "stuð" til að koma hjartanu aftur í réttan gír. Allt hefur gengið vel - so far - og ekki ástæða til að ætla annað en framhaldið verði jafn jákvætt. Það er líka mjög gott að hafa hann aðeins lengur heima, þar sem læknar banna honum að fara á sjó í bili :)
Við höfum því notað þessa rigningardaga til að lagfæra, bæta við og breyta bernskuminningabókunum okkar Rúnars sem ég hef verið með í smíðum í áratug og ætla nú að gefa afkomendum okkar og systkinum eintök á geisladiskum í jólagjöf ásamt gömlum fjölskyldumyndum sem ég hef skannað og vil að þau fái að njóta með okkur...

Monday, November 09, 2009

Sjaldan er ein báran stök...




Gömul orðtæki eins og "Sjaldan er ein báran stök" og "Enginn ræður sínum næturstað" eiga svo sannarlega við enn í dag, því óvænt atvik geta á augnabliki breytt öllum áformum, svo við fáum ekkert að gert og verðum að sætta okkur við það.
Við Rúnar fórum norður í heimsókn til mömmu s.l. föstudag 6.nóv. og áttum þar yndislega daga með ættingjum og vinum. Vorum m.a.boðin í veislu til Sigrúnar og Hauks á föstud.kvöldið og þau jafn hress og venjulega, þó skuggi veikinda vofi þar yfir.
Veður var ótrúlega gott, sérstaklega í gær, glaða sól og blíða og snjólaust eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, ef undan eru skilin Kinnarfjöllin.
Rúnar notaði því blíðuna og skrapp til rjúpna og náði í jólamatinn handa okkur tveimur, en það kostaði reyndar sitt, því hann hefur átt vanda til að fá hjartsláttaróreglu þegar hann erfiðar og svitnar mikið og það skeði einmitt í þetta sinn. Töflur sem hann var vanur að grípa til, passa ekki lengur við þessum ónotum, svo hann sá fram á að leita læknis er heim kæmi...
Síðdegis á sunnudag kvöddum við okkar fólk fyrir norðan og héldum heim á leið.
Á Möðrudalsöræfum ókum við fram á bíl sem runnið hafið útaf veginum og lá á hliðinni en eftir athugun komumst við að því að enginn hafði slasast alvarlega, sem betur fer og við vorum ekki þau einu sem mætt vorum á vettvang, svo við gátum haldið áfram ferð okkar og fórum rólega, þar sem hálkan var greinilega hættuleg.
Þegar við áttum eftir fáa kílómetra í Egilsstaði, tók bíllinn upp á því að "deyja" svo algjörlega, að ekkert var hægt að gera. Við urðum að ræsa út gamlan og góðan fv. nágranna sem býr þarna skammt frá og kom hann og dró bílinn á verkstæði á Egilsst. þar sem við fengum að skilja hann eftir til viðgerðar.
En við urðum að ræsa fleiri út, því Binna frænka Rúnars var drifin af stað frá Seyðisfirði til að sækja okkur yfir heiðina og gekk það fljótt og vel, þökk sé Binnu.
Við fengum að vita það snemma í morgun að tímakeðjan hefði farið í bílnum og óvíst hvort öll kurl séu þar með komin til grafar, en vonum það besta...
Síðan dreif Rúnar sig til læknis og var sendur með hraði á Norðfjörð í rannsókn... og ég sit hér eftir, bíllaus og veit ekki hvernig ég get sótt minn mann þegar honum verður sleppt út aftur, en ég geri ráð fyrir því láni að fá hann aftur heilan heim...
og reyni að taka þessu með ró, enda ekkert annað í stöðunni finnst mér !
Ég þakka bara fyrir að bíllinn okkar gafst ekki upp lengst uppi á fjöllum í gærkvöld, þá hefðum við verið illa sett. Ég lít bara á þetta sem lán í óláni og tek því sem koma skal, en vonin og bænin eru sterkustu vopnin sem við eigum og því um að gera að nota þau óspart jafnt fyrir okkur sjálf sem aðra :)