Monday, December 27, 2010

Fjölskylduveisla og jólaball



Binna frænka Rúnars hefur verið mjög dugleg að hafa jólakaffi fyrir stórfjölskylduna undanfarin jól. Allt sem við gerum er að mæta með eina köku eða annað meðlæti og njóta samvistanna. Það gerðum við einnig þessi jól eða á 2. í jólum. En þá vildi svo til að Lion var á sama tíma með sitt árlega jólaball og auðvitað urðum við líka að kíkja þangað með börnin. Það gekk allt saman vel og flestir virtust hafa gaman af, bæði undir og eldri :) Þessi jól eru nefnilega sannkölluð atvinnurekendajól, því aðeins er um 2 langar helgar að ræða en annars venjulegir vinnudagar þar á milli.

Aðfangadagur !



Ég held ég muni ekki eftir jafn jólalegum Aðfangadegi, veðurfarslega séð, eins og nú í ár. Það var samt flest hefðbundið hjá okkur þennan dag. Eftir jólabaðið var öðrum föstum liðum sinnt, eins og skipt á rúmum, hangikjöt soðið, eftirréttur tilreiddur og steikin gerð klár í ofninn. Ég var líka búin að leggja á borð og hafa allt tilbúið. En síðan mætti ég til söngs í jólamessuna kl. 17 og kom heim rétt fyrir kl. 19, þegar steikin var tilbúin og allt mitt heimafólk komið í sparifötin og biðu eftir að ég kláraði sósuna. Hehe :)
Adam varð mjög glaður þegar tveir jólasveinar mættu með gjafir handa honum og systur hans og komu inn í stofu á snjóugum stígvélum og fengu sér súkklaði með honum.
En gleðin var þó mest þegar pakkarnir voru opnaðir, því allir innihéldu þeir eitthvað sem hann vildi fá og var glaður með. Hann tók líka upp gjafirnar fyrir 4ra mánaða systur sína og bauð okkur hinum aðstoð við að opna okkar pakka, því honum fannst við ekki nógu snögg við það :)
Að sjálfsögðu var borðað meira en við höfum gott af, það er bara fastur liður sem trúlega breytist seint :)

Wednesday, December 15, 2010

Engin jól án LAUFABRAUÐS :)



Það var einlæg ósk Jóhönnu Bjargar að ég mundi geyma laufabrauðs- baksturinn þar til hún og bræður hennar væru komin heim. Og í dag 15. des. gátum við drifið í þessum árlega og ómissandi viðburði á okkar heimili. Börnin mín hjálpuðu mér við að skera í kökurnar en Adam ömmustrákur var yfir-pikkari og Sumaja Rós systir hans sat lengst af í stólnum sínum og hjalaði og horfði á.
Mér gekk svo býsna vel að steikja allar 50 kökurnar, þó þrjár þeirra yrðu aðeins dekkri en ég hefði kosið. En við helltum okkur bara yfir þær að verki loknu og átum þær með góðri lyst :)

Árlegt jólahlaðborð !



Það er orðin föst venja að áhöfn Gullvers og eigendur bjóða mökum á jólahlaðborð á Ölduna. Það var ekki af verri endanum fremur en fyrri daginn og erfitt að komast hjá því að éta á sig gat.
Í forrétt var afskaplega góð villibráðarsúpa og margir fleiri réttir eins og paté, grafinn og reyktur lax, grafið hreindýrakjöt og fleira.
Í aðalrétt var kalkúnn, hreindýrafile og skorpusteik (svína sem smakkaðist allt mjög vel með ljúffengri rjómasveppasósu.
Eftirréttirnir voru Ris a´la mande, búðingur með karamellusósu, heitt frauð með rjóma og einhver eplaréttur.
Með þessu drakk ég ágætis rauðvín, vatn og Egils appelsín sem aldrei klikkar :)
Ég þakka kærlega fyrir mig !

Aðventumessan 2010



Síðastliðinn sunnudag var Aðventumessa í Seyðisfjarðar- kirkju. Kirkjukórinn var búinn að æfa sérstök lög fyrir þessa messu í allt haust og því var ákveðið að halda upphitunar- tónleika uppi á spítala kl 15:30 og gekk það bara vel.
En kl 17:00 hófst messan í kirkjunni. Athöfnin var mjög létt að þessu sinni, fyrst sungu börn úr kirkjuskólanum og kveiktu á 3 jólakertum og við í kórnum tókum undir, en síðan tók við okkar söngprógram og heppnaðist bara vel að sögn Sigurbjargar organista. Það er alltaf hátíðlegt í þessum árlegu messum, þegar börnin taka þátt í helgileikjum og söng og í lok messunnar er kveikt á kertum sem allir viðstaddir fá í hendur og ljós kirkjunnar slökkt á sama tíma.
Ég náði því miður ekki góðum myndum í rökkrinu niðri í kirkjunni, en tók eina mynd af hluta kórsins með kertin í höndum :)

Sunday, December 12, 2010

Jólaferð til mömmu :)





Veðrið var einstaklega gott þegar við mæðgur ókum með börnin hennar Jóhönnu, norður til Húsavíkur til að heimsækja mömmu, síðustu ferð fyrir jól.
Til allrar hamingju var mamma með hressara móti og naut þess greinilega að fá börnin í heimsókn. Hún hafði sloppið við þá leiðinlegu niðurgangspest sem var að ganga á Húsavík en við vorum látin vita að vissara væri að heimsækja ekki þá sem höfðu nýlega fengið hana og við vonumst því til að sleppa við smit að þessu sinni.
Adam var duglegur og tók myndir af okkur fjórum "konum" í beinan kvenlegg:)
Margir vinir sem við færðum jólakort voru fjarstaddir, trúlega flestir á tónleikum Björgvins á Akureyri, svo við misstum af að sjá suma þá sem til stóð að hitta:) En það koma aftur tækifæri eftir áramótin og ferðin, þó stutt væri, var mjög góð og raunar forréttindi að fá svona dásamlegt veður báða dagana, ekki síst á þessum árstíma. Það var líka gaman að taka rúnt um bæinn og skoða jólaljósadýrðina, sem náði reyndar líka framm í sveitir, því ekkert virtist vanta á lýsinguna á sumum sveitabæjunum :)

Jólagleði Kirkjukórsins :)




Föstudagskvöldið 10. des. var haldin Jólagleði Kirkjukórs Seyðisfjarðar.
Ákveðið var að í þetta sinn sæjum við sjálf um allt, þ.e. sópraninn tók að sér að sjá um mat og undirbúning og Altinn sá um ágæt skemmtiatriði, auk þess sem allir tóku þátt og lögðu sitt af mörkum.
Maturinn samanstóð af heitum og köldum réttum og einum eftirrétt, auk þess sem kaffi og kaka voru í boði eftir matinn. Allir virtust saddir og sælir með kvöldið og var þetta virkilega hressilegt og skemmtilegt, ekki síst karlmennirnir sem sungu fyrir okkur þrælskemmtilegar útgáfur, semsagt alveg stórfínn kvartett :)
Undanfarin ár höfum við yfirleitt farið út og borðað á jólahlaðborðum eða annað í þeim dúr, en þetta var sannarlega fín tilbreyting og ekki síðra en annað...

Góð helgi fyrir sunnan !





Ég hef verið óvenju slök að setja hér inn myndir og fréttir undanfarnar vikur, enda nóg annað sem hefur tafið mig. En helgina 26.-28. nóv. s.l. vorum við Rúnar stödd fyrir sunnan með börnum okkar, barnabörnum og systkinum. Tilefnið var fyrst og fremst heimsókn Þrastar mágs og Eiríks Hrafns til landsins og var því haldið heilmikið fjölskylduteiti hjá Hörpu sem átti reyndar afmæli á kosningadaginn 27.nóv.
Þröstur var að selja húsið þeirra Birnu og tæma það, svo Eiríkur og Adam voru talsvert með okkur Rúnari og skemmtu sér vel þegar við fórum með þá í Smáralind og heimsóttum pottinn hennar Grýlu og fleira.
Við fórum líka mörg saman í sund og allir skemmtu sér vel. Síðast en ekki síst heimsóttum við Atla Örn og Herdísi í nýju íbúðina þeirra, en þau eiga von á sínu fyrsta barni í desember og Harpa verður þá amma, svo margir bíða spenntir :)

Sunday, November 14, 2010

Föndrað um helgina !


Ég hef verið mjög heppin undanfarna áratugi þegar kemur að veikindum eða lasleika og kann hreinlega ekki að vera veik heima. Mér brá því svolítið þegar vond hálsbólga, hósti og nefrennsli fór að angra mig á föstudaginn og var orðin svo óhress um kvöldmat að ég vafði mig í teppi og drakk heitt fjallagrasate í stað þess að rölta með bæjarbúum í árlegri myrkragöngu yfir í kirkjuna okkar á samverustund. Ekki var ég hressari morguninn eftir og úti var hundslappadrífa, svo ég komst í jólaskap og ákvað að búa til dálítið af jólakortum, því alltaf þarf ég að senda nokkra tugi til ættingja og vina, sum víða um heim. Ég þurfti reyndar að skutla Reyni bónda í flug og lentum við í hálfgerðri ófærð, en þá kom plógurinn og við eltum hann alla leið yfir heiðina.
En ég kveið heimferðinni þó það væri óþarfi, því plógurinn hafði hreinsað svo vel báðar hliðar vegarins að allt gekk vel og ég gat haldið áfram við kortagerðina.
Kláraði svo á sunnudaginn að prenta inní þau jólakveðjurnar, svo nú er bara eftir að skrifa á umslögin, þá eru þau tilbúin til brottfarar.
Það er gott að vera búin að einhverju, því nóg er eftir samt :)

Friday, November 12, 2010

Góð helgi norðan heiða :)





Snemma s.l. laugardags- morgunn 6. nóv. héldum við Rúnar norður til Húsavíkur í sól og fallegu vetrarveðri. Ég hef haft það fyrir sið að taka myndir af Herðubreið í flestum mínum ferðum yfir fjöllin og fengið alls konar útgáfur. Að þessu sinni var óvenju bjart, þó skýjahetta væri að vanda yfir fjallinu. Við áttum síðan góðar stundir fyrir norðan með mömmu og systkinum hennar og síðast en ekki síst gömlu skólasystrunum sem ákváðu að fara út saman og borða á Sölku og rifja upp gamlar minningar o.fl. Það var afskaplega ljúft og maturinn líka fínn.
Við héldum ekki heimleiðis fyrr en á mánudagsmorgunn 8. nóv. en þá var komin hríðarmugga og hélst þannig alla leið austur á Jökuldal, en þá loksins létti til og varð bjartara eftir því sem austar dró. Þrátt fyrir hálku á leiðinni og lélegt skyggni, þá gekk ferðin vel og ég er mjög fegin að hafa komist heil á húfi fram og til baka að venju, því ekki er sjálfgefið að alltaf gangi manni vel :)

Góður samstöðufundur bæjarbúa á Seyðisfirði




Föstudaginn 5. nóv. 2010 mættu Seyðfirðingar vel á samstöðufund sem haldinn var í Herðubreið til að standa saman um sjúkrahúsið okkar og leggja eitthvað af mörkum svo hægt væri að kaupa nýjar röntgengræjur sem bráðvantar núna.
Það verður að segjast eins og er, að viðbrögðin voru mjög góð og slysavarnadeildin Rán gaf 1 milljón, ég lagði inn 500 þús. fyrir hönd stjórnar RKI deildarinnar hér og við bæjarbúar gáfum eftir efnum og ástæðum. Einnig þykist ég vita að Lionshópurinn hér ætli að styrkja þetta framtak og vafalaust útgerðin og fleiri aðilar. Þannig að við sjáum fram á að tækin komi fljótlega, því Hollvinafélag HSA (sem ég er félagi í) leggur til 2 milljónir af þeim 6 sem tækið kostar. Það þýðir ekki annað en vera bjartsýn og berjast saman fyrir þeim góðu málum sem skipta okkur svo miklu máli....
Þess má að lokum geta að stórfín skemmtiatriði voru á milli ræðuhalda og að lokum voru flutt bráðskemmtileg söngatriði sem samin voru fyrir 70 ára afmæli Þorvaldar Jóhannsonar fyrr á árinu....

Monday, November 01, 2010

Leiðindaveðrið um helgina !!!




Það var ekki laust við að veðrið væri leiðinlegt á laugardaginn, rok og rigning og snjóaði til fjalla. Við Rúnar ætluðum norður til mömmu þessa helgi, en urðum að slá því á frest. Ég hafði reyndar nóg að gera alla helgina, söng við minningarathöfn síðdegis á föstudaginn og við jarðarför á laugardaginn. Fór síðan á safnaðarfund uppí Kirkjumiðstöðina við Eiða ásamt Grétari Einars og Cecil á sunnudaginn, þar sem rætt var um kosti þess og galla að sameina prófastsdæmin tvö hér á Austurlandi. Viðstaddir unnu í 4 hópum og komu með tillögur, sem að lokum vorum settar saman í ályktun sem fundurinn sendi frá sér til kirkjuþings.
Meðfylgjandi mynd af rjúkandi fossum tók Rúnar hinsvegar í rokinu á laugardaginn og sagði að stærri fossarnir hefðu verið tilkomumiklir en vegna veðurs komst hann ekki nógu nærri þeim til að taka góðar myndir....

Árlegur haustfundur austfirskra bókavarða...


S.l. föstudag fórum við Kári samstarfsmaður í ótryggu veðri yfir heiðina, en allt gekk vel og þó veðrið hefði versnað og heiðin væri orðin illfær á heimleiðinni, þá komst ég heil til baka og varð fegin þegar ég komst á leiðarenda, því fátt er mér verra við en hálkuna á heiðinni.
Frá því ég hóf störf sem bókavörður á Bókasafni Seyðisfjarðar, hef ég mætt á árlega haustfundi austfirskra bókavarða, sem haldnir hafa verið í Þekkingarneti Austurlands á Egilsstöðum. Á hverju ári bætast við nýir starfsmenn og aðrir hverfa af vettvangi eins og gerist og gengur. En alltaf er samt jafn gaman og fróðlegt að hittast og spjalla um okkar málefni. Þær stöllur Sigrún og Telma sem vinna við gagnagrunn Gegnis.is mæta alltaf og fræða okkur um nýjustu breytingar sem gerðar hafa verið á gagangrunninum.
Að þessu sinni var Nielsens kaffihúsið lokað, en þar höfum við snætt saman öll þessi ár, en núna fórum við á nýja veitingahúsið rétt hjá gamla sláturhúsinu á Egilsstöðum og fengum þar ljómandi góðan mat. Ég held að allir hafi verið vel saddir og sáttir :)

Friday, October 29, 2010

Sandra Marie kvödd !


Í dag, föstudaginn 29. okt. var Sandra Marie Reynisdóttir 17 ára tvíburi á Seyðisfirði kvödd hinstu kveðju í Seyðisfjarðar- kirkju, eftir langvarandi baráttu við ættgengan sjúkdóm sem hún og tvíburasystir hennar Janet hafa verið lengi með.
Tilfinning mín í kirkjunni var sú, að nánasta fjölskyldan væri búin að ná það mikilli sátt við þessa erfiðu lífslexíu, að ég fann lengi vel aðeins til friðar sem mér fannst umvefja alla viðstadda. Lokastundin var hinsvegar flestum viðstöddum erfið, enda ekki á hverjum degi sem fólk kveðjur unglinga í blóma lífsins.
Myndin sem fylgir hér með er af þeim tvíburasystrum Söndru og Janet og ég verð að viðurkenna að ég var aldrei viss um að þekkja þær í sundur, enda hafa þær ekki búið hér nógu mörg ár til þess að maður hefði tækifæri til að kynnast þeim nógu náið.
En ég held að það sé Sandra sem er í Rauðbleiku peysunni....
Blessuð sé minning hennar og GUÐ styrki systir hennar og fjölskyldu!

Friday, October 15, 2010

Barist gegn einelti !



Í dag föstudaginn 15. okt. er Dagur gegn einelti. Þá er æskilegt að allir sem vilja leggja málefninu lið, klæðist í einhver græn föt og virtist það bara nokkuð algengt hér í bænum í morgun. Ég skrapp til að fylgjast með skólabörnunum sem í tilefni dagsins mættu flest í einhverjum grænum flíkum og fóru m.a. í ratleik með kennurum og foreldrum sem mættu til leiks.
Eftir 5 daga eða 20. okt. verður hinsvegar fjólublár dagur, þá klæðast þeir fjólubláu sem styðja vilja við réttindabaráttu samkynhneigðra.
Það er bara gott mál að hin og þessi samtök tileinki sér ákveðna daga á ári hverju og minni á þau réttindi sem við öll eigum, en ekki eru alltaf virt, því miður !

Heimsóknir leikskólabarna á bókasafnið !


Það hefur verið fastur liður undanfarin ár að starfsfólk leikskólans Sólvalla mætir vikulega með hóp leikskólabarna á Bókasafnið. Þá er tekið fyrir eitthvað ákveðið þema hverju sinni, t.d. einhver dýr eða mannslíkaminn eða annað sem hægt er að skoða í bókum og spjalla um.
Ég ákvað að nota uppskeruna sem þema í síðustu samverum með börnunum og mætti með kartöflur, gulrætur, ber og síðast en ekki síst óvenju STÓRAN maðk sem ég fann í kartöflugarðinum þegar ég var að taka upp um daginn.
Ormurinn vakti mikla lukku og allir vildu fá hann í lófana og láta hann kitla sig og gerði þá lítið til þó mold væri að þvælast með honum á hendur allra :)
Börnunum fannst það líka skrítið að það væru einmitt maðkarnir sem búa til moldina fyrir okkur og því afskaplega nauðsynlegir í náttúrunni.

HAUSTLITIR



Núna um miðjan október keppast tré og annar gróður við að fella laufin og gular breiður af Alaskalaufum þekja víða garða, götur og sérstaklega heimkeyrslur. Flest laufin eru orðin rauð, gul eða brún en einstaka tré og runnar eru þó ennþá fagurgræn og virðast ekkert ætla að skipta um lit eins og grenitrén sem alltaf eru sígræn.
Þetta eru t.d. sum kvæmi af Alaskavíði sem fara seinna af stað á vorin en halda sér mikið lengur og betur á haustin. Sama virðist vera með Reyniviðinn, einstaka tré eru ennþá fagurgræn á meðan flest önnur sömu tegundar eru orðin rauð, gul og brún.
Ekki veit ég af hverju þetta stafar, en það er ekki hægt að komast hjá að taka eftir þessu, þegar náttúran skartar haustlitunum allt í kringum mann en stöku tré sker sig rækilega úr fjöldanum.

Saturday, October 09, 2010

Gömul minning !


Þegar ég var 17 ára fór ég til Kanaríeyja með bróður mínum. Þá smökkuðum við þær stærstu og bestu kókosmakkarónur sem við höfðum fengið á ævi okkar. Alla tíð síðan hef ég látið mig dreyma um að finna jafn stórar og góðar kökur öðru sinni og það tókst núna í Bodrum, mér til mikillar ánægju. Þær eru lófastórar, stökkar að utan, en mjúkar hið innra og mátulega sætar og einstaklega bragðgóðar....
Það er eins gott að ég hef ekki slíkar freistingar hér heima við hendina, þá gætu þær nú farið ansi illa með línurnar mínar :))

Margt hægt að skoða og gera...





Eitt gleymdi ég að nefna, en það var afar góður kvöldverður sem við nutum á einu fínasta veitingahúsi staðarins í boði áhafnarinnar, hátt uppi yfir bænum á palli utandyra. Það var reyndar orðið ansi svalt í norðan golunni svo síðla dags, svo þjónarnir komu með glóðvolg ullarsjöl og lögðu yfir herðar okkar, því greinilegt var að flestum var frekar kalt. En maturinn var eins og best er á kosið.
Við skoðuðum engin söfn að þessu sinni, nema það sem var innan veggja kastalans, en saga hans er býsna fróðleg, þó ég sleppi því að segja hana hér.
Þrátt fyrir að við Rúnar séum lítið fyrir búðarráp, þá höfðum við býsna gaman af að rölta um hafnarsvæðið og verslunargöturnar þar og skoða það sem í boði var. Eitt það áhugaverðasta í mínum augum var gríðarstór Ametiststeinn sem sjá má hér við hliðina á Rúnari. En það var líka ágætt inn á milli að tilla sér í sólina og lesa góða bók, enda ekki amalegt að fá smá lit á kroppinn fyrir veturinn sem nú styttist óðum í....
Sumir kusu að fara í golf og aðrir fóru í köfunarleiðangur og sigling var á dagskránni en eitthvað fór úr skorðum, svo ekkert varð af henni. Margt fleira var hægt að gera sér til afþreyingar, auk þess sem mér fannst gaman að rölta um íbúðabyggðina og sjá heimamenn við leik og störf. Flestir tóku því vel að vera ljósmyndaðir á förnum vegi, en einstaka kærði sig greinilega ekkert um það, enda töldu múslímar (og sumir gera það víst ennþá) að maður gæti rænt þá sálinni ef maður tæki af þeim ljósmynd.

Bodrum og nágrenni





Fyrsta ferðin sem við fórum var bæjarferð innan Bodrum og nágrennis, þar sem við skoðuðum Péturskastalann sem blasti við okkur frá hótelinu og vindmylluhæðina sem er svolítið fjær en kastalinn. Kastalinn var byggður að hluta til úr hinu fræga grafhúsi Mausolusar konungs frá 4. öld fyrir Krist, sem áður var talið eitt af sjö undrum veraldar.
Svo var ekið um ýmsa hluta bæjarins og Þóra fararstjóri rakti söguna langt aftur í aldir. Sagði m.a. frá bjargvætti Tyrklands sem setti lög sem komu konum til góða, t.d. að bannað væri að þær gengju í búrkum og fjölkvæni var bannað, svo eitthvað sé nefnt. Tyrkir eru yfir 90% múslímar og því moskur víða um borgina, en turnar þeirra blasa hvarvetna við og hátalarakerfi er notað til að minna menn á daglegar bænastundir, sem ómuðu oft á dag, ef vel var að gáð.
Við fórum upp á aðra hæð í borginni þar sem byggt var mikið virki og djúpur sýkisskurður í kring á dögum Alexanders mikla að mig minnir. Aðeins hliðarinngangurinn í virið stendur ennþá að hluta til og minnir á forna tíma. Við skruppum á ávaxtamarkaðinn og fengum þar nýtíndar fíkjur, fengum okkur að borða á veitingastað við bátahöfnina og enduðum ferðina í stóru og flottu verslunarhúsi sem selur skartgripi af dýrustu gerð. Ég veit ekki til að neinn úr okkar hópi hafi verslað þar, enda varla von miðað við verðið á ódýrustu hlutunum.
Margt fleira áttum við eftir að skoða á eigin spýtur sem verður kannski lokafrásögn þessarra ferðaminninga...

Fjallaferðin




Daginn fyrir heimförina fór meirihluti Gullversliðsins í Fjallaferð, þar sem við fengum að sjá heimafólk framleiða í höndunum falleg og vönduð gólfteppi úr ull, bómull og silki. Þau eru auðvitað misstór, misvönduð og misdýr, en allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nokkrir í hópnum keyptu teppi en aðrir létu sér nægja að skoða umhverfið, drekka tyrknest te og borða mat innfæddra, auk þess sem við gengum í mosku heimamanna og sýndum að sjálfsögðu þá kurteisi að setja upp slæður eins og tíðkast hjá þeim og taka af okkur skófatnaðinn.
Þetta var að mörgu leyti óvenju skemmtileg ferð og öðruvísi en fyrri ferðir.