Sunday, August 28, 2011

Húsavík enn og aftur !




Ég dreif mig norður til mömmu s.l. föstudag og var ein á ferð. Ég sá fram á að ef ég færi ekki þessa helgi, þá yrði trúlega nokkuð langt á milli heimsókna minna til hennar, þar sem við erum fljótlega á förum til St. Pétursborgar.
Ég kom ýmsu í verk, tók upp svolítið af kartöflum og sló lóðina, auk þess að hitta marga ættingja og vini, en eyddi mestum tíma með minni góðu vinkonu Sigrúnu og snæddum við til skiptis hvor hjá annarri þessa daga og spjölluðum mikið. Ég fór hefðbundinn rúnt með mömmu og tók myndir af FJALLINU GRÆNA, sem við annars köllum Húsavíkurfjall, en lúpínan er að verða búin að þekja hana svo algjörlega að brátt verður fjallið alveg grænt. Ég fór meira að segja niður í Helguskúr með fullan poka af derhúfum í húfusafnið hans Helga og skrapp svo í berjamó, en þar sem lúpínan er að verða búin að eyðileggja allann berjamó á Húsavík, þá fann ég aðeins lítinn blett upp undir Botnsvatni, þar sem ennþá mátti finna svolítið af bláberjum og aðalbláberjum. Heimferðin gekk líka vel, enda veðrið ljómandi gott og ég tók upp puttaling við Grímsstaðabrúna, unga stúlku frá Cananda sem var á leið til Seyðisfjarðar, svo hún komst alla leið fyrr en hún þorði að vona :)

Wednesday, August 24, 2011

Grillhátíðin 2011






Okkar árlegu bæjar-grillhátíð var frestað um viku vegna leiðinda veðurs um þar síðustu helgi, en svo birti til og föstudaginn 19. ágúst tóku bæjarbúar höndum saman um að gera daginn sem bestan, skreyttu hús sín að vanda og hvert hverfi sá um að skreyta sitt grillsvæði. Síðan var gengið í skrúðgöngu á skemmtisvæðið á grunni skólans sem enn hefur ekki verið byggður, þó áratugir séu síðan byrjað var á honum.
Þar kepptu liðin í dansi og söng og var það bleika hverfið sem sigraði að þessu sinni.
Gunna Sigga Kristjánsd. fékk viðurkenningu fyrir fallegan og vel hirtan garð.
Síðan var kveikt upp í varðeldinum sem var fljótur að brenna að þessu sinni, enda óvenju lítill efniviður til að brenna. Fólk söng og spjallaði og dansaði síðan eins og hver og einn lysti fram eftir kvöldi, enda var veðrið gott, stafalogn og þurrt, þó það hefði mátt vera hlýrra, en við reynum að kvarta ekki mikið, þó sumarið hafi bæði verið sólarlítið og rakt...

Kraftajötnar 2011


Þann 12. ágúst s.l. fór fram árleg kraftakeppni sterkustu manna landsins hér á Seyðisfirði undir styrkri stjórn Magnúsar Vers Magnússonar fyrrum heimamanns hér.
Aldrei þessu vant þá var ég svo upptekin að ég komst ekki til að horfa á kappana keppa og þótti það miður, en ég hef hingað til alltaf getað mætt á svæðið einhverja stund.
Ég veit ekki betur en allt hafi farið vel fram að vanda og meðfylgjandi mynd er sú eina sem ég smellti af liðinu, út um gluggann á bókasafninu hjá mér :)

Saturday, August 13, 2011

Óvenjulegir gestir !




Síðastliðinn fimmtudag fékk ég óvænta upphringingu, var beðin að taka að mér 3 rússneskar konur frá Moskvu sem væru á leið til Seyðisfjarðar m.a. í þeim tilgangi að skoða Dvergasteininn í fjörunni neðan við samnefnt fyrrum prestssetur.
Þó ég sæi framm á að eyða talsverðum tíma með þeim og þyrfti að redda þeim gistingu, þá sagði ég auðvitað JÁ, enda erfitt að neita nema maður hafi löglega afsökun.
Þessar myndarlegu eldri konur eru í hópi þeirra sem halda því hiklaust fram að hér á landi hafi búið fólk meira og minna í margar aldir fyrir okkar svokallaða landnám.
Og að þessir dvalargestir sem komu hingað hafi flestir verið hér í ákveðnum tilgangi, því landið okkar sé sannkölluð orkuuppspretta og þeir hafi kunnað að búa til orkuhringi, eða svokallaða steinhringi eins og víða var gert í Englandi, Skandinavíu og víðar. Þetta er mjög líklegt að mínum dómi, þó ég viti að seint verði hægt að sanna það.
Þær voru svo heppnar að fá ágætis veður fyrri tvo dagana, en í dag á brottfarardeginum fannst þeim komið hálfgert vetrarveður á þeirra mælikvarða, enda var mjög heitt sumar í Moskvu að þeirra sögn. En þær höfðu skoðað það sem þeim þótti mest um vert og sneru ánægðar heim með fluginu síðdegis. Þær elduðu rússneskan rétt í gærkvöldi og buðu mér að borða með þeim og fræddu mig um ýmislegt sem þær eru að gera, m.a. ýmislegt í stjörnuspeki sem meikar sens :)
Að þeirra sögn er það enginn dans á rósum fyrir venjulegt fólk að lifa í Rússlandi og þær dásömuðu Ísland sem hreina og orkumikla paradís sem við ættum að meta meira en við gerum mörg hver. Það var vissulega fróðlegt og skemmtilegt að kynnast þessum áhugasömu og duglegu konum sem leggja mikið á sig til að ferðast um heiminn og skoða það sem þær telja merkilega staði og eru t.d. píramídarnir í Egyptalandi þar á meðal. Tungumálaerfiðleikar voru vissulega til smá travala, vegna takmarkaðrar kunnáttu okkar allra, en þó var mesta furða furða hve vel okkur gekk að spjalla um allt milli himins og jarðar. Og ég lærði meira að segja nokkur rússnesk orð sem vonandi koma sér vel í haust þegar ég ætla að bregða mér til St. Pétursborgar, en Moskva verður að bíða betri tíma :))

Monday, August 08, 2011

Kertafleyting á Lóninu...



Í fyrrakvöld, laugard.kvöldið 6. ágúst stóð friðarhreyfingin hér á Seyðisfirði fyrir kertafleytingu á Lóninu í blíðskaparveðri. Ég mætti með myndavél, að beiðni Gullu í Firði og tók slatta af myndum af viðstöddum, sem voru nokkuð margir og hlýddu á Godd flytja "friðarræðu" og Kára flytja frumsamið ljóð af þessu tilefni eftir Sigga Ingólfs kennara við ME. Síðan sungu allir viðstaddir nokkur lög og fleyttu svo logandi kertum af stað úr á lónið. Þetta var afskaplega hugljúf friðarstund...

Kveðjuveisla...



Í vikulokin var svo slegið upp smá afmælis-og kveðjuveislu hjá Ellu og Árna sem bjuggu til yndæla súpu sem var kláruð, enda mæting ættingjanna með besta móti.
Harpa bakaði konfekttertur og við lögðum til eina stóra afmælistertu, því bæði barnabörnin okkar eiga afmæli núna í ágúst, en verða farin til Noregs þegar þeir dagar renna. Þetta var því stórskemmtilegt fjölskyldu-samkvæmi og virtust allir saddir og sælir með daginn.
Ég varð síðan að kveðja mitt fólk og fljúga austur morguninn eftir án Rúnars sem ætlar að eyða restinni af fríinu sínu til að hjálpa Jóhönnu sem er bíllaus, þar sem gírkassinn gaf sig í hennar bíl.
Þetta var gott frí og skipti engu þó vikan syðra væri ansi vot, því það rigndi alla dagana meira eða minna...

Haldið til Keflavíkur...



Eftir helgina héldum við öll af stað heim á leið, við systur og makar tókum stefnuna á Siglufjörð og fórum í fyrsta sinn í gegnum bæði nýju göngin og skoðuðum öll síldarminjasöfnin í bænum og fleira markvert. Sólin fylgdi okkur áfram og við ákváðum að fara alla leið til Hafnarfjarðar í íbúðina okkar þar, sem stendur auð í bili, því Bergþór var að flytja með Hildi sinni í leiguíbúð rétt hjá Háskólanum, svo þau geti sparað tíma, bíl-og bensínkostnað og hjólað í skólann.
Við eyddum síðan heilli viku með Jóhönnu og barnabörnum okkar í Keflavík, vorum að pakka saman restinni af búslóð þeirra, flytja hluta hennar til Bergþórs og Hildar sem hafa ýmsa hluti að láni og keyptu sumt. Það var því í nógu að snúast, því börnin þurftu manninn með sér og ég reyndi að passa þau um leið og ég naut samvistanna, eldaði mat og þreif eftir þörfum...

Mærudagar 2011





Mærudaga á Húsavík er ekki hægt að láta framhjá sér fara. Við vorum mætt nógu snemma í þetta sinn til að taka þátt í árlegri skrúðgöngu okkar bæjarhluta sem er grænn. Við vorum líka býsna dugleg að mæta á þá viðburði sem voru í boði, fórum á allar sýningar og á ljóðakvöldið, varðeldinn, í vöfflukaffi til Adda og Stellu eins og undanfarin ár og horfðum á óvenjulega hrútasýningu, sem var óvænt gaman :)
Við áttum brúðkaupsafmæli þessa helgi og af því tilefni fórum við út og borðuðum ásamt Diddu systur, hennar manni og Binnu og Magga sem voru í tjaldvagni á lóðinni hjá okkur. Við röltum einn hring um skóginn fyrir ofan Hlíð og nutum góða veðursins þessa yndislegu daga, fórum á markaðinn og að sjálfsögðu í heimsóknir til mömmu í Hvamm, þar sem við hittum reyndar marga fleiri ættingja og vini, ekki síður en
á röltinu í bænum. Við kíktum líka yfir á heitu tjörnina utan við Kaldbak og sáum ótrúlegan fjölda fólks þar að vaða og busla við að veiða gullfiskana sem þar eru í þúsunda tali. Margir tóku veiðina með heim en aðrir skiluðu þeim aftur til síns heima...

Á leið norður...




Miðvikudaginn 20. júlí lögðum við Rúnar af stað á húsbílnum í frí, áleiðis norður til Húsavíkur. Við ákváðum að fara krókaleið að þessu sinni, ókum ofan af fjöllunum niður til Vopnafjarðar þar sem við hittum Hemma skólabróðir og fleira gott fólk og þaðan áfram til Þórshafnar. Það var rjómablíða fyrir norðan svo við notuðum kvöldið til að aka út allt Langanesið og að Skálum, þar sem forðum var lífleg byggð en nú eru þar rústir einar og eitt lítið björgunarskýli við bryggjuna. Við fórum líka upp á Heiðarfjall til að sjá eftirstöðvar hersins þar á fjallinu og gistum loks á tjaldstæðinu við Þórshöfn. Við vöknuðum við glaða sól og drifum okkur til Raufarhafnar, en þar átti ég heima sem barn, sumarið 1959 og fannst mér mikið hafa breyst frá þeim tíma, til batnaðar. Það var gaman að sjá hve myndarlega verið er að reisa Heimskautagerði á hæðinni fyrir ofan byggðina, sem vafalaust mun draga að marga gesti í framtíðinni. Það var líka sérstaklega ánægjulegt hve vegurinn var orðinn góður á þessum slóðum, breiðari og betri en víða annars staðar hér á landi.
Þegar við komum til Húsavíkur, þá var þar einstaklega gæf rjúpa á vappi við húsið okkar og ekkert að flýja þó við tækjum myndir af henni í návígi....