Sunday, September 25, 2011

Humarveisla !



Humar er með því betra sem ég fæ og ég varð því harla glöð þegar Binna frænka Rúnars og Maggi buðu til humarveislu (m.a. í tilefni af afmæli Binnu þann 17. sept. s.l.)
Maggi sá um að grilla humarinn en Binna sá um restina og við Rúnar ásamt tveim öðrum gestum nutum góðs af veislumatnum. Svo var þetta toppað með dýrindis eftirrétti sem setti punktinn yfir Iið :)

Skrítnar gulrætur !




Síðastliðin fjögur sumur hef ég ræktað gulrætur með ágætis árangri. Ég þakka það fyrst og fremst góðum fræjum sem ég hef fengið frá góðri skólasystur sem er garðyrkjubóndi.
Í fyrsta sinn í vor sáði ég fyrir annarri tegund samhliða, með því að forrækta þær innan dyra vegna slæms veðurfars. Það tókst raunar vonum framar, en einhverra hluta vegna hef ég fengið nokkrar öðruvísi gulrætur að þessu sinni og velti fyrir mér hvort að bogna gulrótin hafi lent á steini og orðið að sveigja af leið ? Sama gildir um þær sem eru svona svakalega digrar og stuttar, hvað ætli hafi valdið því, enda virðast gulræturnar allt um kring vera af venjulegri stærð, bæði í lengd og breidd eins og sjá má.... :)
Ég ætla nú samt ekki að gefast upp við þessa ræktun, því alltaf má gera betur og það er þess virði, því mér finnst frábært að geta farið út í garð og náð mér í ferskar gulrætur beint úr moldinni og naga þær á morgnana. Það er líka hollara en flest annað held ég :))
Er ekki vísan góða eitthvað á þessa leið ;

En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og tómata.

Þá fá allir mettan maga,
menn þá verða alla daga
eins og lömbin ung í haga,
laus við slen og leti.
????????????????

Uppskeran 2011




Á síðasta sunnudag var óvenju gott veður, svo við notuðum tækifærið og tókum upp kartöflurnar hér heima í garðinum. Ég setti ekki mikið niður, enda plássið ekki mikið, en ég setti niður í byrjun maí og breyddi plast yfir, sem kom sér vel þegar vorhretin skullu á. En uppskeran er bara prýðileg miðað við veðrið sem verið hefur í sumar. Það hefur líka skipt máli að fjarlægðar voru 4 skuggsælar aspir sem skyggðu á garðinn meiripart dagsins.
Ég er hrifnust af íslenskum rauðum kartöflum, þó ég borði reyndar lítið af þeim, þar sem kartöflur valda mér slæmri líðan í öllum liðamótum. En einnig hef ég ræktað svolítið af fjólubláum kartöflum sem ég fékk hjá pabba og svo gullauga sem alltaf stendur fyrir sínu.

Monday, September 19, 2011

Haustgleði í Skálanesi





Starfsmannafélag Seyðisfjarðar kaupstaðar stóð fyrir haustgleði í Skálanesi s.l. laugardag. Því miður komumst við ekki strax með hópnum, þar sem Rúnar var staddur í Rvk og misstum fyrir vikið af ýmsu, m.a. heimsókn í býflugnabúið. En náðum því að sjá Sigga Ormar gefa svínunum bjór o.fl. o.fl... :)
En við mættum á svæðið um kaffileitið og fengum heimabakaðar kökur og kex + salöt.
Svo skemmtum við okkur vel í hressum hópi þeirra sem mættu, en það voru reyndar ekki nema 32 sem sáu sér fært að vera með. Við fórum m.a. í skemmtilegan látbragðsleik þar sem kennarar notuðu táknmál með tali, sem við hin kunnum ekki, en ég hef hugsað mér að ráða bót á því :)
Loks snæddum við grillað lambakjöt m.m. og nutum sólarlagsins sem var einstaklega fallegt að þessu sinni- eins og sjá má :))

Friday, September 16, 2011

Dagstund í Helsinki




Við komuna til Helsinki var orðið bjart en á leiðinni höfðum við ekið að mestu í myrkri, roki og rigningu, en nú stytti upp og sá til sólar okkur til ánægju.
Við ókum framhjá mörgum helstu byggingum borgarinnar, sendiráðum, óperu, þjóðminjasafni, tónlistarhöll, kirkjum og fleira má til nefna. En hér sýni ég aðeins Stóru kirkjuna eins og hún er nefnd. Hún stendur við borgartorgið og svo Klettakirkjuna frægu sem hefur einstakan hljómburð og er mjög vinsæl hjá kórum sem sækja hana gjarnan heim og syngja þar innan dyra.
Það var óvænt gaman að fá tækifæri til að skoða sig aðeins um þarna, þó stutt væri.

Brottfarardagur og það sem gleymdist !




Ég gleymdi að geta þess að við fórum í enn eina gullfallega kirkju sem nefnd er Ísakskirkja, þar sáum við ættartré allrar Romanof ættarinnar og myndir af flestum meðlimum hennar. Katrín mikla og Pétur mikli eru einna frægust þeirra. Þar fengum við að hlýða á lítinn hóp karlmanna syngja nokkur rússnesk lög og gerðu þeir það vel.
Allan tímann sem við dvöldum á hótel Moskvu stóðu límosínur utan dyra og settu svip á umhverfið.
Á siglingunni sáum við "ljótasta" húsið í borginni, en P.Ó. sagði okkur að þetta hús hefði áður verið í eigu Björgúlfsfeðga, á meðan þeir voru með starfsemi þarna í borginni.
Þennan morgun lögðum við af stað um kl. 5 að morgni að staðartíma en það er 4 tíma mismunur á milli Íslands og Pétursborgar og það reyndist hafa ýmsar aukaverkanir, eins og svefnleysi og fleira. Við ókum síðan sem leið lá aftur að landamærum Finnlands og Rússlands og vorum komin þangað á undan öðrum rútum, en það var markmið P.Ó. að lenda ekki í langri biðröð bíla á landamærunum, það hefði getað þýtt að við yrðum of sein í flugið í Helsinki. En fyrir vikið vorum við svo langt á undan áætlun að við gátum staldrað við í höfuðborg Finnlands og skoðað miðborgina þar ásamt fleiru og segir frá því í lokaþætti þessarar ferðar....

Síðasti dagurinn í Pétursborg









Engar skipulagðar ferðir voru þennan síðasta dag okkur í borginni og notuðum við hann til að rölta um miðborgina og fara í siglingu um sýkin sem eru um alla borgina, enda er hún sögð byggð á 42 eyjum í óshólmum árinnar og var því mjög erfitt byggingarsvæði.
Þetta var svalasti dagurinn í borginni og um kvöldið vorum við orðin nokkuð þreytt eftir margra kílómetra rölt allan daginn.
En það var margt og mikið sem vakti athygli okkar og aðeins hægt að stikla á stóru í frásögum af því. En íbúar borgarinnar virðast almennt vel klæddir, snyrtilegir og vel haldnir, auk þess sem alls staðar var mikið af fólki í verslunum og nóg af vörum af öllu tagi. Það virðist því vera upp runninn gósentími á þessum slóðum og aðeins fáir betlarar voru sýnilegir á almannafæri.
Allar götur voru líka mjög hreinar og fólk á ferðinni við að sópa upp smá rusli og ekki sáum við tyggigúmmí- klessur á gangstéttum og götum eins og hér heima, en í staðinn voru næstum allir með sígarettur í höndum og það er sannarlega ekki til fyrirmyndar....
Eitt var líka mjög áberandi, það var allt kvenfólkið sem gekk um á skelfilega háum hælum, ekki líkt því sem við erum vön hér heima. Ég fann eiginlega til með þeim að rembast við að ganga á þessum "stultum" og gat ekki stillt mig um að laumast til að taka myndir af fáeinum slíkum skóm á förnum vegi :)

900 daga umsátrið um Leningrad





Ég gleymdi að geta þess að áður en við yfirgáfum Pétursborg áleiðis til Petershof, þá fórum við og skoðuðum glæsilegt minnismerki um 900 daga umsátur Nasista um Leningrad (eins og borgin hét á þeim tíma) í síðari heimsstyrjöldinni. Þá gerði maður sé lauslega grein fyrir hve erfitt hefur verið fyrir borgarbúa að þrauka svo langan tíma við ómannúðlegar aðstæður. Jafnvel Íslendingar sem höfðu það skítt, voru þó betur settir. Það er áhrifamikið að sjá öll 900 ljósin sem sett hafa verið upp í byggingunni til minningar um þessar hörmungar og rússneska stafrófið flæktist dálítið fyrir okkur, þó hægt væri að skilja það sem stendur á þessum myndum, þ.e. 900 dagar og 900 nætur.
Sagan af tilurð rússneska stafrófsins er nokkuð skemmtileg. Sendimaður fór víst til Rómar til að ná í sýnishorn af nýja stafrófinu á sínum tíma, en á leiðinni heim missti hann kassann með stöfunum, sem allir hrundu í sundur, svo hann varð að pússla þeim aftur saman eftir minni og útkoman varð sú sem við sjáum í dag, skrítin blanda af okkar stafrófi, sem búið er að hvolfa og spegla á ýmsa vegu :)

Sumarhöllin Petershof og Pushkin





Á mánudagsmorgni er við vorum að leggja af stað frá hótelinu sáum við að búið var að skreyta umhverfið með borðum og blómum og fengum að vita að Margrét danadrottning væri væntanleg í heimsókn. Við misstum því miður af þeim viðburði, þar sem við eyddum deginum að mestu leyti í Petershof, einni af sumarhöllum keisaranna, skammt utan við Petersborg. Þar eru miklir og fallegir garðar í kringum höllina og gullfallegir gosbrunnar, auk þess sem höllin sjálf, kirkjan og aðrar viðbyggingar eru stórglæsilegar og vel upp gerðar. Þarna var markaður sem reyndist helmingi ódýrari en í borginni og því lét ég það eftir mér að kaupa nokkrar gjafir áður en haldið var aftur heim á leið. En á heimleiðinni fórum við til bæjarins Pushkin, þar sem við snæddum þjóðlegan kvöldverð og fengum ágætis rússneska skemmtun á meðan, söng og tónlist og áttum þarna yndæla stund saman við þetta fallega vatn sem ótal hallir liggja að. Á heimleiðinni ókum við eftir nýrri og glæsilegri hringbraut sem nýlega var byggð umhverfis Pétursborg og mun hafa kostað nokkra milljarða króna.

11. september 2011





Í dag fórum við í Vetrarhöllina sem er örugglega stærsta höll og safn sem við höfum komið í. Það er leikur einn að villast þar og þrátt fyrir góðan vilja, þá vorum við flest búin að fá nóg eftir 2-3 tíma göngu um ganga og sali hallarinnar sem er full af alls konar listaverkum frá flestum löndum heims. Meira að segja er til einn hlutur þar frá Íslandi, en hann er víst reyndar orðinn svo illa farinn að hann er ekki lengur hafður til sýnis. Hinsvegar eru þarna nokkrar gullfallegar styttur eftir danska Skagfirðinginn Thorvaldsen sem kemst næst því að vera Íslendingur af þeim sem þarna eiga verk til sýnis.
Pétur Óli hafði allann tímann með sér innfæddan leiðsögumann (Kötu) sem talar ensku og þau skiptu hópnum oft í tvennt til að auðvelda aðgengi að því sem var í boði og til að við heyrðum betur til þeirra. Eftir þessa skoðunarferð í höllina var ekið að markaðnum sem stendur rétt við hina gullfallegu blóðkirkju og þar fórum við úr bílnum. Við kíktum bæði á markaðinn og kirkjuna en gengum síðan áleiðis að hótelinu okkar með viðkomu í stóra nýja verslunarhúsinu Galleri sem er eins og margar Kringlur að stærð. Þar keyptum við eitthvað smávegis af gjöfum og fengum okkur að borða á Fridays en röltum loks heim þessa 3 kílómetra sem eftir voru af verslunargötunni...

Kvöldsýning og kirkjugarðar





Eftir að borgarferðinni lauk, þá röltum við yfir götuna við hótelið og skoðuðum þar 2 kirkjugarða, þar sem margir þekktir einstaklingar hvíla, m.a. heimsþekkt tónskáld. Til hægðarauka var víða hægt að rata á rétta legsteina, þar sem vegvísar á ensku vísuðu leið. En legsteinarnir voru margir mjög furðulegir og aðrir stórir og glæsilegir. Um kvöldið var farið á rússneska söng-dans og tónlistarsýningu í Nikulásarhöllinni. Þar komu fram hópar af fólki í litskrúðugum búningum og sýndu listir sínar. Að öllum ólöstuðum, þá var einn þeirra áhugaverðastur, en hann var klæddur í búning sem leit út eins og tveir litlir eskimóar í faðmlögum. Það var algjör snilld að sjá hve lipur hann var að standa til skiptis á höndum eða fótum. Í hléinu var boðið uppá kampavín og snittur og það verður að segjast eins og er, að aldrei hef ég séð mat hverfa jafn fljótt af borðum, það var engu líkara en að engisprettufaraldur hefði átt leið þarna um :)
Þegar myndir vilja ekki birtast eins og hér gerist, smellið þá bara á auða svæðið þar sem myndin á að vera og hún birtist - einnig er hægt að skoða allar myndirnar í stækkaðri útgátu með því að smella á hverja og eina :)

Borgin skoðuð !





Fyrsta daginn var lagt af stað í borgarferð, ekið um helstu götur miðborgarinnar þar sem glæsilegar byggingar blasa við allsstaðar. Mikið af þeim hafa verið endurbyggðar eða lagfærðar á síðustu árum og engin háhýsi eru í miðborginni, því reglugerð segir til um að engin hús þar megi vera hærri en Vetrahöllin. Auk þess má ekki rífa nein gömul eða illa farin hús og byggja nýtísku hús í stað þeirra, heldur verða menn að byggja alveg eins hús og það sem fyrir var, ef þeir ekki geta gert upp það gamla. Það má segja að vegna þessa haldi borgin ætíð fyrri glæsileika.
Síðan var farið út í eyju sem umgirt er rammgerðu virki utanum kirkju Péturs og Páls þar sem allt keisaraliðið af Romanoff-ættinni hvílir. Þessi kirkja er óvenju glæsileg innandyra og margt að skoða. Við hlið kirkjunnar má sjá afar sérstaka styttu af Pétri mikla sem var víst rúmir 2 metrar á hæð, langur og grannur og með óvenju lítið höfuð. Þessi stytta var lengi í ónáð, en hefur nú fengið uppreisn æru og er mjög ólík annarri opinberri styttu af sama manni sem sjá má hér til samanburðar. Margar fleiri byggingar eru þarna innan virkisveggjanna en við héldum áfram för eftir smá rölt um svæðið, þó töf yrði nokkur vegna kvennahlaups sem átti leið framhjá brúnni út í eyjuna sem stöðvaði alla umferð a.m.k. í hálftíma.
Þess má geta að sá þjóðlegi matur sem ég borðaði í þessum ferðum var bragðgóður og ekki sterkur. Ég hef smakkað bæði bragðlausa þjóðlega rétti og alltof sterka á ferðalögum erlendis og gef því Rússum plús enn einn plúsinn fyrir þessa frammistöðu.
Eina regnið sem kom þessa daga að degi til, helltist yfir á meðan við snæddum málsverð innandyra, svo að regnhlífar sem fylgdu okkar alla dagana voru aldrei opnaðar, sem betur fer. En áður en demban kom, þá voru þarna í skjóli við virkisvegginn fólk í sólbaði eins og meðfylgjandi mynd sýnir :)

Fróðleiksför til St. Pétursborgar




Síðastliðinn föstudag fórum við Rúnar ásamt 30 öðrum farþegum með Icelandair til Helsinki í Finnlandi og þaðan með rútu til St. Pétursborgar í Rússlandi. Það var Pétur Óli Pétursson fararstjóri sem tók á móti okkur og stjórnaði röggsamlega öllum okkar ferðum næstu dagana. Hann hefur greinilega mikla skipulagshæfileika sem koma sér vel gegn rússneska skrifræðinu. Hann er líka ótrúlega sögufróður og áhugasamur um menningu Rússlands og Finnlands og óspar á upplýsingar um land og þjóð. Við gistum á ágætu hóteli (Moscow)sem byggt var fyrir ólympíuleikana og er það vel staðsett, svo flestar helstu byggingar og verslanir borgarinnar eru í göngufæri þaðan. Flestir ferðalangarnir fóru í allar skoðunarferðir sem í boði voru svo að hópurinn hristist vel saman og allir skemmtu sér hið besta. Margt kom á óvart og erfitt að velja og hafna hvað sé mest í frásögur færandi, en líklega þó það, að Rússar eru örugglega núna betur settir fjárhagslega en þeir hafa verið áður og sést það best á fatnaði, bílaeign og öllum þeim miklu framkvæmdum sem eru í gangi hjá þeim, eins og viðgerðir gamalla bygginga, gríðarmiklar samgöngubætur og ótal margt fleira sem sjá má á förnum vegi. Ég er að hugsa um að setja hér inn nokkrar myndir úr ferðinni og skrifa viðeigandi texta með þeim. Þetta verða því trúlega nokkrar stakar færslur. Meðfylgjandi myndir eru í fyrsta lagi af okkur og 3 samferðakonum okkar sem við vorum mest með þessa dagana, svo er það Pétur Óli og spilaklúbburinn og síðast en ekki síst mestur hluti hópsins sem var meira og minna saman á ferðinni flesta dagana...

Sunday, September 04, 2011

Uppskerustörfin...




Haustið er sá árstími þar sem uppskerustörfin eru tímafrek. Mér finnst það tilheyra að tína ber, safta og sulta og rækta kartöflur og grænmeti og nýta gjafir náttúrunnar eins og kostur er. Þrátt fyrir sólarlítið og þokusamt sumar, þá er uppskeran orðin nokkuð góð. Ég er búin að safta í yfir 20 flöskur af krækiberjasaft, en nóg er af þeim hér, þó skortur sé hinsvegar á bláberjum í þetta sinn. Rifsberin hafa hinsvegar vaxið vel og eru orðin rauð og fín. Ég sultaði úr 2 kg. í gær og stefni á að fara með eina krús í sultukeppni Haustroða þegar þar að kemur. Ég er líka búin að þurrka og setja kryddjurtir í margar krúsir og safna sveppum auk þess sem ég rækta bæði kartöflur, gulrætur, graslauk, salöt/kál og jarðarber, auk kryddjurta o.fl. sem kemur sér vel að hafa við bæjardyrnar. Síðast en ekki síst þá er ég með tvær paprikuplöntur í eldhúsglugganum og vænti þess að fá nokkur stykki af þeim áður en vetur gengur í garð. :)

Jarðstraumamælingar


23. ágúst s.l. kom til okkar Bryndís Pétursdóttir jarðstrauma- könnuður, til að mæla nokkur hús í bænum, þar sem íbúar þeirra hafa verið að stríða við langvarandi kvef og pestir. Þau voru nokkuð viss um að slæm áhrif frá nærstaddri spennistöð gæti verið ástæðan.
Við ákváðum að láta mæla okkar hús, þó ekki hafi neinn krankleiki hrjáð okkur lengi og tókum að okkur að hýsa Bryndísi, því nóg er plássið hjá okkur.
Það vildi svo skemmtilega til að við Bryndís þekkjum marga sameiginlega, enda er hún búsett norðan heiða á meðal góðra vina minna. Auk þess eigum við nokkur sömu áhugamál og höfðum því nóg að spjalla.
Niðurstaðan hjá okkur var góð og engar slæmar jarðlínur að trufla okkur en það voru ekki allir jafn heppnir með sitt húsnæði og sumir þurfa að gera einhverjar breytingar.
Þess má geta að gerð var kvikmyndin "MÓTVÆGI" um þetta starf Bryndísar og verður hún sýnd í Rvk. á næstunni. Hér má sjá smá sýnishorn (trailer) úr myndinni; http://vimeo.com/28351577 OG http://vimeo.com/28348647
fyrir þá sem áhuga hafa...