Monday, December 26, 2011

Árlegt fjölskyldukaffi



Það hefur orðið að venju að við mætum með eitthvað meðlæti til Binnu og Magga um hver jól og hittum þar alla stórfjölskylduna. Að þessu sinni bjó ég til tvær heitar brauðrúllur sem kláruðust (mér til ánægju) en nóg var af tertum og öðru góðgæti til að velja úr. Verst að allir eru orðnir saddir eftir tveggja daga ofát. En það er alltaf gaman að hittast um stund og spjalla saman. Engan vantaði nema Boga Þór og fjölskyldu og fjarstadda afkomendur okkar Rúnars...

Aðfangadagur 2011




Aðfangadagur var óvenju rólegur hjá okkur að þessu sinni, enda engin börn hér eins og undanfarin ár, sem við höfum eytt með öllum okkar börnum og barnabörnum. Siggi Birkir fékk að ráða því hver aðalrétturinn var, að þessu sinni og hafði góða lyst :) Eftirrétturinn er hinsvegar alltaf hefðbundinn og smakkast alltaf jafn vel.
En rétt fyrir miðnættið skall á hvassviðri sem reif upp aðra hurðina á garðskúrnum okkar og þeytti henni í heilu lagi yfir í næsta garð. Að vísu mölbrotnaði glerið í henni en að öðru leyti slapp hún nokkuð heil og mér tókst að ná henni og koma henni inn í kofann áður en Rúnar kom heim úr togara-eftirlitsferð sem hann fór að vanda, en tafðist vegna 3ja tómra fiskikara sem komin voru að því að fjúka í sjóinn og hann náði að bjarga og binda niður. Þetta fór því allt vel að lokum, því Rúnar kom hurðinni á sinn stað með plasti í stað glers í bili :)

Friday, December 23, 2011

Gallerí Garðars !


Garðar Eymundsson listmálari (og fyrrum trésmiður) hefur lengi verið að dunda sér á efri árum við að mála fallegar landslagsmyndir. Hann er ansi lipur við það og við eigum tvær fallegar myndir eftir hann og gáfum dóttur okkar í afmælisgjöf eitt málverk frá honum.
En hann hefur nokkuð oft þurft að flytja sig um set með vinnustofuna sína, en er nú vonandi kominn á stað sem hann fær að hafa það sem eftir er. Það skemmtilega er að Karólína kona hans átti þetta húsnæði fyrir nokkrum áratugum og rak þar tískuverslun. Hann bauð því Seyðfirðingum og öðrum til opnunarteitis og við mættum ásamt fleirum til að óska honum til hamingju, enda höfum við oft verið honum innan handar með ýmislegt, þegar hann hefur vantað aðstoð og Siggi okkar kom líka með, enda vann hann við smíðar hjá Garðari fyrir nokkuð mörgum árum og þeim hefur verið vel til vina síðan.

Monday, December 19, 2011

Þrennir tónleikar !




Undanfarna viku lenti ég á þrenna tónleika og satt að segja er það mjög óvenjulegt. Fyrstir voru jólatónleikar Tónlistarskólans, en þar komu fram nemendur á ýmsum aldri sem stóðu sig allir vel miðað við aldur.
Svo mætti Regína Ósk með fjölskyldu sína og undirleikara og hélt Jólatónleika í bláu kirkjunni okkar. Gulla í Firði var búin að æfa barnakór með yfir 20 börnum og unglingum til að syngja undir með Regínu og það tóks mjög vel og á Gulla og krakkarnir heiður skilinn fyrir frammistöðuna, ekki síður en Regína og félagar.
Síðustu tónleikarnir voru í Herðubreið í gærkvöld og það stóð ekki til að fara á þá, en úr varð að ég skrapp aðeins (mætti of seint) og hlustaði á restina af lögum Mugisons, en fannst hávaðinn heldur mikill í lokin og gekk því fram í andyrið þar sem fleiri voru í sömu erindum, þ.e. að forðast mesta hávaðann. En rúsínan varð sú að Mugison skokkaði fram til okkar að loknu síðasta laginu og um leið og ég þakkaði honum fyrir okkur, þá gekk hann á röðina og tók í hendina á okkur sem var óvænt, því handtakið var bæði fast og vinaleg og mun betra en hávaðinn sem við vorum að forðast. Ég eins og fleiri er orðin afar viðkvæm fyrir miklum hávaða og geri eins og litlu börnin, þ.e. að grípa fyrir eyrun þegar þess gerist þörf :) Að síðustu vil ég taka fram að ég fékk lánaða myndina af Mugison hjá Ómari Boga, því ég var ekki með mína myndavél í þetta sinn, aldrei þessu vant :)

Wednesday, December 14, 2011

Þriðji jóladinnerinn á Öldunni í ár !


Í gærkvöld fór ég með Rúnari mínum á jólahlaðborð sem áhöfn Gullvers og makar mættu á. Eins og venjulega var maturinn afskaplega góður og eins og stundum vill henda mann, þá borðar maður aðeins of mikið, sem getur gerst þegar of margt gott er í boði. Ég var því óvenju södd þegar heim var komið um miðnætti, en það sjatnaði furðu fljótt. En Rúnar át hinsvegar yfir sig og var enn saddur í morgun, það er örugglega ekki notalegt ....(?)

Monday, December 12, 2011

Upplestur á Bókasafninu





Klukkan 17:15 í dag hófst upplestur 7. bekkinga Seyðisfjarðarskóla á Bókasafninu. Foreldrar og syskini mættu til að hlýða á sín börn/systkini og flest sæti því skipuð. Ég var búin að raða upp borðum og stólum, hita kaffi og kaupa piparkökur sem runnu út. Auk þess sem ég var búin að setja upp kertaljós og fleira jólaskraut til að lífga uppá umhverfið.
Þetta hefur verið árlegur viðburður í mörg ár og yfirleitt standa krakkarnir sig ágætlega og eru greinilega vel læs flestöll. Það er því eiginlega alveg synd hve flest þeirra virðast lítið fyrir að lesa allar þær góðu unglingabækur sem í boði eru. Ég hef talsvert velt fyrir mér hvaða ráð gæti dugað til að hvetja þau til meiri lesturs, en ekki ennþá dottið niður á neina einfalda lausn - því miður !

Aðventumessan 2011



Sunnudaginn 11. desember söng ég með kirkjukórnum Aðventumessu í bláu kirkjunni okkar. En áður en til þess kom, þá mættum við öll upp á sjúkrahús og sungum allt prógrammið fyrir vistfólk og starfsfólk HSA, það var góð upphitun.
Messan gekk ljómandi vel og mér finnst alltaf mjög jólalegt og hátíðlegt þegar við syngjum svona skemmtileg jólalög sem við erum búin að æfa mánuðum saman. Í lok messunnar kveikja allir á kertum sem viðstaddir fá við inngöngu í kirkjuna og það er hátíðleg friðarstund.
Eftir messuna röltum við yfir á veitingahúsið Ölduna, þar sem hátíða- kvöldverður beið okkar og sátum þar í rólegheitum og spjöllum og hlógum heil ósköp m.a. yfir smá mistökum sem urðu þegar einn kórmeðlimur greip vitlausa gosflösku og sá mistökin of seint.
Þetta er í annað sinn á þessari aðventu sem ég borða jóladinner á Öldunni, en allt er þegar þrennt er og ég mæti því með áhöfn Gullvers á jólahlaðborð Öldunnar annað kvöld.

Friday, December 09, 2011

Jólakvöld Sáló !




Í kvöld, föstudagskvöldið 9. des. var jólakvöld sáló haldið hátíðlegt í fundarsal Herðubreiðar og fjöldi manns mætti, meira að segja nokkrir Héraðsbúar sem drifu sig yfir heiðina, enda góð ókeypis skemmtun í boði með Þórhalli Guðmundssyni miðli. Hann sagði okkur nokkrar skemmtilegar sögur úr starfi sínu og var síðan með hlutskyggni og fleiri gamansamar lýsingar og leiðbeiningar til handa viðstöddum.
Síðan var boðið upp á veitingar, kaffi, gos, konfekt og piparkökur og ég persónulega borðaði nokkra góða Nóa konfektmola sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér :)

Monday, December 05, 2011

Jólaferð norður til mömmu !




Snemma að morgni 1. des.(afmælisdegi Rúnars) lagði ég af stað norður til mömmu í jólaheimsóknina, því ég sé ekki að ég komist aftur norður fyrir jól af ýmsum ástæðum. Veðrið var óvenju fallegt og sólroði m.a. á Jökuldals- heiðinni, þar sem ég sá sprettharðan mink á hlaupum við Gestreiðar- staðaána, rétt við veginn. Ég hef reyndar séð svona minka á hlaupum nokkuð oft, þó aldrei uppi á fjöllum fyrr en í þetta sinn.
Það var nýbúið að flytja blessaða mömmu úr Hvammi, heimili aldraðra yfir á öldrunardeild HÞ, þar sem hún deilir nú herbergi með Svövu frá Smjörhóli. Þeim kemur vel saman, en báðar voru þær ruglaðar yfir breytingunni og sögðust bara ekkert rata því allt væri orðið breytt.
En þær fá góða umönnun og eftirlit og vonandi venjast þær nýjum aðstæðum sem fyrst.
Það var ansi kuldalegt um að litast fyrir norðan og ég stoppaði þar ekki nema rúman sólarhring, en gat þó litið við hjá mínum góðu æskuvinkonum Sigrúnu og Villu og fleiri góðum vinum og ættingjum. Að lokum bar ég svo út öll jólakortin sem ég tók með mér til vina og vandamanna á Húsavík.
Vonandi verður þessi vetur bara góður þegar þessum kuldakafla lýkur, svo við getum skroppið sem oftast norður, sérstaklega mömmu vegna, á meðan hún þekkir okkur ennþá ! Heimferðin gekk líka vel þó veðrið væri að versna og þegar á Fjarðarheiðina kom var stórhríð og orðið illfært, svo að ég slapp með skrekkinn í þetta sinn síðasta spölinn...