Saturday, November 30, 2013

Músagangur á Seyðisfirði

Síðustu vikur hefur verið umtalsverður músagangur hér á Seyðisfirði. Þessar litlu mýs virðast komast inn um rafmagnsrör sem eru loftgöt undir klæðningu hússins inn á háaloftið, en þar höfðu þær nógu hátt til að ég sendi Rúnar með gildru þangað upp og hingað til hafa veiðst 8 eða 9 mýs. En það eru víst nokkrir fleiri bæjarbúar sem geta sagt það sama, það veiðist vel og nágranni okkar sem fékk lánaða gildru hjá okkur, er líka búinn að veiða 5 eða 6 stk. :)

Monday, November 18, 2013

Fallegt veður á fjöllunum !

Þó ferðin austur hæfist í hríðarbyl, þá stytti fljótt upp og við fengum afar fallegt ferðaveður yfir fjöllin. Hér koma nokkrar myndir frá leiðinni....




Helgarferð til Húsavíkur

Við systur vorum búnar að ákveða að hittast fyrir norðan helgina 16. nóv. þegar hún ætti 55 ára afmæli, ef veður og færð leyfði. Og veðurguðirnir voru okkur hliðhollir, svo allt gekk vel og við áttum saman góða helgi á æskuslóðum og hittum nokkra ættingja og vini eins og venjulega. Rétt áður en við lögðum af stað heimleiðis, dróst dökkt ský yfir sólgylltan bæinn og við kvöddum því bæinn í hríðarbyl sem stóð víst ekki lengi, sem betur fer :)
Hér koma nokkrar myndir frá ferðalaginu, sem ættu að segja meira en mörg orð, allavega fyrir þá sem til þekkja :)




Sunday, November 10, 2013

Fjölskyldumessa og Köku-Bingó



Í dag, feðradaginn 10. nóv. var fjölskyldumessa í Seyðisfjarðarkirkju. Óvenju margir mættu og tók þátt í Köku-Bingói sem haldið var eftir messu til styrktar Landsspítalanum, til kaupa á nýjum línuhraðli. Kirkjukórinn bakaði tertur og kökur sem voru í verðlaun og allir gáfu vinnu sína. Mikil gleði ríkti og margir fóru heim klifjaðir tertum. Margt smátt gerir eitt stórt :)

Saturday, October 26, 2013

Veiðiferðin fyrir norðan gleymdist :)




Ég gleymdi að geta þess að við fórum haustferð norður til að gera ýmislegt, m.a. að fara með gamla hluti frá Gulla frænda í Bjarmaland og negla niður lausar þakplötur sem áttu bara eftir að fjúka á brott. Enduðum svo á að veiða nokkra silunga og fengum svo góðan afla, að við gátum látið reykja nokkur stykki og erum svo að njóta þess að borða silungana bæði nýja og reykja :)

Menningarferð til Hafnar :)






Starfsmannafélag Seyðisfjarðarkaupstaðar ákvað að fara í menningarferð til Hafnar aðra helgina í okt. Rúnar minn var á sjó, svo ég fór bara ein ásamt öðru starfsfólki bæjarins. Veðurblíðan var einstök og vel tekið á móti okkur á Höfn. Við skoðuðum bæinn í bak og fyrir og nutum góðrar söngskemmtunar og matar á Hótel Höfn. Góð ferð og dásamlegt veður :)

Fallegir haustlitir !





Þetta haustið hafa litir náttúrunnar verið með eindæmum fallegir og því óhjákvæmilegt að festa eitthvað af þeim á myndir. Hér má sjá nokkur sýnishorn sem ég tók hér á Seyðisfirði í október 2013.

Tenerife 2013





Í lok september fórum við í vikuferð ásamt áhöfn Gullvers til Tenerife. Þar var margt að sjá og gera og auk þess var notalegt að sóla sig og skoða nágrennið. En við skoðuðum meira t.d. fórum við í skemmtilega dagsferð um hálfa eyjuna ásamt 4 félögum okkar og fórum þá m.a. upp á toppinn á hæsta fjalli Spánar sem er El Teide, en þar er loftið orðið ansi þunnt og svalt.
Allur hópurinn fór líka í minigolfkeppni og skemmtum okkur vel þar. Ég var lukkuleg með að vera í sigurliðinu og hafa ekki skemmt neitt fyrir þeim. Svo fengum við okkur notalegt fótabað hjá fiskum og skelltum okkur í fallhlífarsvif meðfram ströndinni, sem var bara skemmtileg reynsla.
Margt fleira væri hægt að telja upp en læt þetta nægja að sinni :)

Uppskeran og afurðir náttúrunnar






Uppskerustörfin voru ekki mikið frábrugðin að þessu sinni, en þrátt fyrir sólríkt sumar, þá reyndist kartöfluuppskeran með minnsta móti, líklega vegna vætuskorts. En gulræturnar sem ég var dugleg að vökva urðu þær langstærstu sem komið hafa upp úr mínum garði. Berjaspretta var með mesta móti og við tíndum fullt af hindberjum sem við höfum aldrei gert áður. Sultan af þeim er líka mjög góð. Svo tíndi ég meira magn af rifsberjum, bláberjum og krækiberjum en áður og bjó til bæði saft og sultur. Loks voru það svo sveppirnir sem voru stórir og góðir hér uppi á klettum í trjálundunum, svo að óvenju mikið er til af vetrarforða hjá okkur að þessu sinni :)

Uppskeruhátíðin Haustroði 2013

Hin árlega uppskeruhátíð Haustroði var haldin hátíðleg í byrjun okt. og náttúran skartaði sínu fegursta um þær mundir. Ég mætti á alla viðburði og keypti eitthvað á flestum stöðum. Það var sérstaklega gaman að kíkja í heimsókn til Þóru á gamla spítalann sem hún er búin að láta breyta í farfuglaheimili, mjög smekklegt og hlýlegt. Ég fylgdist síðan með úrslitum í sultukeppninni (Sigga Stína bar sigur úr bítum). Ég var síðan svo heppin að hljóta verðlaun fyrir hugmynd að minjagrip fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, sem vonandi verður að veruleika fyrir næsta sumar. Við vorum þrjár sem fengum verðlaun fyrir góðar hugmyndir :)





Siggi Birkir í Noregi









Siggi Birkir var sendur af vinnuveitanda sínum, ásamt einum vinnufélaga, til Oslo, þar sem þeir unnu að ákveðnu verkefni í 3 mánuði. Þeir voru m.a. að leggja öryggiskerfi í penthouse-íbúð. Um helgar gátu þeir skroppið í heimsóknir og skoðunarferðir og fóru t.d. á heimsmeistaramót í torfæruakstri og höfðu gaman af. Þeir heimsóttu líka Holmenkollen og renndu sér á vír ofan við stökkpallinn, sjá mynd. Svo skrapp Siggi nokkar ferðir í heimsókn til Jóhönnu systur sinnar og hennar fjölskyldu. Þau fóru saman í Vigelandsparken, dýragarð og söfn og kíktu á skemmtileg veitingahús og fleira. Veðrið var gott ytra allan tímann og komu þeir sólbrúnir heim og reynslunni ríkari :)