Friday, February 14, 2014

Helgarferð norður !

Rúnar minn dvaldi 2 vikur við vinnu í Gullver í slippnum á Akureyri. Ég skrapp norður helgina sem hann var þar og kom við á Húsavík til að losa mig við dót (m.a. bækur) sem lofaðar voru til 3ja aðila. Tók svo Sigrúnu vinkonu mína með mér til Akureyrar, en hún var á leið suður með Sigga vini sínum. Ferðin gekk slysalaust, þó færðin og skyggið væri með því versta sem ég hef lent í á þessari leið. En dvölin á Akureyri var lífleg, við fórum í bíó, leikhús, Iðnaðarsafnið og heimsóknir o.fl. og skemmtum okkur vel með Jóhanni vélstjóra, Erlu og Antoníusi, m.a. við að spila Pictionary í gríð og erg :)
Á heimleiðinni var Fjarðarheiðin versti þröskuldurinn, eins og svo oft áður !!!




Viskubrunnur - árleg spurningakeppni skólans !

Hin árlega spurningakeppni VISKUBRUNNUR hjá elstu bekkingum í Seyðisfjarðarskóla stendur nú sem hæst. Keppnin er liður í fjáröflun krakkanna til að komast í ferðalag til Danmerkur áður en þau klára grunnskólann og hafa fyrirtæki, félög og stofnanir bæjarins keppt sín á milli og má segja að þetta sé ágæt tilbreyting í skammdeginu (áður en sólin nær að skína á okkur eftir 4 mánaða fjarveru á bak við fjöllin okkar háu) ....!



Tuesday, February 04, 2014

Þorrablótið 2014.

Hið árlega Þorrablót Seyðfirðinga var haldið hátíðlegt fyrsta laugardag í Þorra, eða 25. janúar. Þar var fjölmenni og góð skemmtan og fínn matur. Heiðursgestur kvöldsins var Þórdís Bergsdóttir og Tommi Tomm sonur hennar mætti með hljómsveitina til að spila undir á ballinu. Ég held ég að allir hafi skemmt sér vel, meira að segja norðmennirnir sem voru hér inni vegna brælu og aflaleysis, þeir virtust hinir ánægðustu :) Hér koma nokkrar myndir sem ég tók á blótinu :)





Flækingar á Seyðisfirði

Áður en við héldum að heiman í jóla og áramótafrí, þá vorum við búin að sjá nokkuð marga flækings fugla hér heima. Þegar við komum til baka á þrettándann, þá voru flestir þeirra hér ennþá og auk þess bættust allavega 2 nýir við. Þetta eru 2 Gráhegrar, 1 Akurgæs og norræn Teista sem við héldum að væri annaðhvort albinói eða teista í vetrarbúningi. Aðrir flækingar eins og svartþrestir, gráþrestir og hettusöngvarar sáust lítið og sama má segja um starana sem eru hér ennþá, sjaldséðir flækingar af suðurlandinu :) Myndina af teistunni tók Unnar I. Jósepsson og lánaði okkur :)




Ármót og afmæli í Noregi !

Vegna þess að við gátum ekki heimsótt Jóhönnu okkar og fjölskyldu til Noregs s.l. sumar eins og venjulega, þá var ákveðið að dvelja hjá þeim um áramótin og framyfir sextugsafmælið mitt. Þrátt fyrir rysjótta veðráttu, þá gengu öll okkar ferðalög vel og án teljandi tafa. Við fengum bæði rigningu og snjókomu þessa viku sem við dvöldum ytra og vorum bara dugleg að rölta um nágrennið og skoða okkur um. Dunduðum okkur líka við lestur, pússl og spil og héldum svo upp á afmælið mitt með því að fara út að borða saman á góðu veitingahúsi sem hægt er að mæla með, því bæði var maturinn góður og þjónustan fyrsta flokks.
Við kíktum líka á útsölur og kom ég heim með hálfa tösku af nýjum fötum, mest á sjálfa mig, en einnig gjafir handa yngsta ömmugullinu og afmælisgjafir.





Jól sunnan heiða !

Að þessu sinni var ákveðið að eyða jólunum sunnan heiða, með Bergþóri, Hildi og Nínu Björgu, auk systkina okkar Rúnars sem búa syðra. Siggi Birkir kom með okkur, að vísu fór hann akandi á jeppanum okkar degi á undan okkur, en við Rúnar flugum á Þorláksmessu og leigðum íbúð við Skúlagötu í eina viku og höfðum það náðugt.  Hér koma nokkrar minningamyndir sem sýna m.a. ættingja og vini sem komu saman og gerðu sér glaðan dag :)