Thursday, March 31, 2016

Ferming og páskar o.fl...

Sex ungmenni voru fermd hér á Skírdag og fór ljómandi vel fram að venju.
Gwen Le Pigeon frá Berlín sem unnið hefur hér á HSA í vetur hélt kveðjutónleika í kirkjunni, en hún er góður söngvari og gítarleikari og mjög yndæl í viðkynningu.
LungA hópurinn sem var hér eftir áramótin hélt sýningu uppi á gamla spítala hjá Þóru og tóku vel á móti gestum.  Páskarnir runnu sitt skeið að vanda, að mestu í rólegheitum, þó úrkoma væri talsverð og ófærð á fjallvegum, svo ekki gátum við skroppið norður eins og hugur stóð til.
Síðast en ekki síst notuðum við góða veðrið á föstudaginn langa til að tína saman plastrusl á Vestdalseyri og nágrenni, en nóg er af því hér í fjörunum, því miður og hefur versnað með árunum :(






Vorið á næsta leiti !

Það er greinilega stutt í vorið, því nú streyma farfuglarnir til landsins. 
Fyrstir komu Tjaldarnir og svo Straumendurnar á Fjarðarána.
Svo mætti einn ungur grænlenskur fálki um borð í Gullver og
síðast en ekki síst þá kom aftur blendingsönd sem var hér s.l. sumar ásamt Mandarínkarli. 
Þá var ég ekki mikið að spá í hvurs lags önd þetta væri, en sá núna að hún er örugglega blendingur af grænhöfðaönd og einhverri annarri önd. Fuglafræðingar sem fengið hafa myndina til skoðunar telja að hitt foreldrið hafi annað hvort verið Rauðhöfðaönd eða Mandarínönd.





Friday, March 18, 2016

Maski sem á að virka á hrukkur !

http://frettanetid.is/berdu-thetta-a-thig-einu-sinni-i-viku-og-hudin-verdur-10-arum-yngri-myndband/

Fornleifar !

http://www.visir.is/telur-vorduna-illthurrku-vera-hringgrof-ur-heidni/article/2016160318777

Slóð á svæðanudd !

http://frettanetid.is/hun-var-stressud-kvidin-og-alltaf-med-hofudverk-thangad-til-hun-gerdi-thetta/

Wednesday, March 16, 2016

Vorið á næsta leiti ?

Í blíðunni undanfarið hefur sólroðinn á himninum verið sérlega fallegur en bleytan hefur hinsvegar valdið nokkrum smá skriðum. Loksins var drifið í að skipta um þak á gamla bakaríinu sem komið var á síðasta snúning. Listaháskólanemar settu upp sýningu í Skaftfelli og skipin okkar, Gullver og Norræna mæta vikulega í bæinn eins og venjulega :) 







Allt lifnar við með hækkandi sól !

Nú er stutt í jafndægur og mikill munur á lengd dagsbirtunnar auk þess sem sólin er farin að skína þegar heiðskýrt er. Blómin lifnuðu auðvitað við og keppast við að blómstra og fræ sem ég setti niður voru komin upp eftir 2-3 sólarhringa. Síðast en ekki síst þá hefur hlýnað mjög í veðri og asahláka hefur eytt meirihlutanum af snjónum í bænum undanfarna viku. Það er mikill munur og laukar og brumhnappar eru komnir af stað. Vonandi sleppum við bara við vond vorhret eftir þetta.






Sunday, March 13, 2016

Fuglafréttir á nýbyrjuðu ári :)

Þó ekki sé mikið um flækinga hér á vetrum, þá líður þó aldrei sá vetur að ekki sjáist nokkrir slíkir og sumir halda til hér stóran hluta vetrar. T.d. Glóbrystingar sem eru árlegir gestir. Einn mætti hér í vetur og hefur haldið til á Múlaveginum hjá Heiðari Þorsteins. Fastagestir eru gráþrestir og svartþrestir sem mæta daglega í fóðrið sem við berum út daglega á meðan snjór hylur jörðu. Einnig bjargdúfur og snjótittlingar sem eru hér allt árið. Einn stari var hér um tíma í vetur, þeir eru flækingar hér, þó þeir séu algengir á suðvesturhorni landsins. Rjúpur mæta líka í bæinn þegar allt er á kafi í snjó.
Ísmáfur er hinsvegar sjaldséður gestur hér á landi, en einn slíkur kíkti í heimsókn og Rúnar náði nokkrum myndum af honum. Hér má sjá hann ásamt ungum ógreindum máf sem er heldur stærri og heldur til hér allt árið. Svo mætti hér lómur sem var vankaður, líklega eftir árekstur og rataði ekki til sjávar, svo við tókum að okkur að flytja hann á réttan stað. Einnig villtust nokkrir svartfuglar á land, kannski á flótta undan veiðimönnum ? Loks má nefna einn nágranna okkar sem farinn er að sjást nokkuð oft, þ.e. músarindill, sem aldrei er kyrr og stoppar stutt, svo erfitt er að ná myndum af honum. En það hefur samt tekist nokkrum sinnum í seinni tíð :)