Sunday, June 30, 2019

Viðtöl úr Austurglugga + Skarpi !

Gamalt máltæki segir; Allt er þegar þrennt er !
Svo skrítilega vildi til að myndir af mér birtust í 3 blöðum með stuttu millibili, þar af ein nafnlaus í Mbl, sem ég birti hér fyrir stuttu. Hin skiptin voru viðtöl, annars vegar í sambandi við Safnarasýningu hér á Seyðisfirði og hinsvegar spurningaleikur fyrir brottflutta Þingeyinga (í þaula) og set ég hvorttveggja hér til geymslu 😊


Tuesday, June 25, 2019

Dýralíf með mesta móti í firðinum !

Það hefur verið áberandi undanfarin ár, hvað fuglalíf hér í firðinum hefur aukist. Minkurinn er nær horfinn og skiptir það máli hvað þetta varðar. Einnig er algengt að sjá hér seli í lóninu eða við fjörur fjarðarins, auk þess hreindýr á beit í hlíðunum og að sjálfsögðu nóg af kindum og hestum.
Það leit vel út með afkomu unganna hjá öndunum í upphafi, en meira veit ég ekki (?)
                   Hestar eru býsna margir hér í firðinum og virðast hafa nóg að bíta og brenna...
                               Hreindýrin hafa verið sjaldséð hér þetta árið, hvað okkur varðar...
Þessi selur hélt sig lengi við Vestdalseyrina og sýndi skemmtileg tilþrif er við mættum.
                                 Það var líf og fjör á meðal lambanna hér í firðinum þetta vorið...

Miðsumarganga út í Brimnes

Það hefur verið árlegur viðburður nokkuð mörg ár, að sólstöðu eða Jónsmessuganga væru gengnar hér í firðinum. Þar sem engin slík var í boði að þessu sinni, þá fórum við Rúnar og Siggi Birkir út fyrir Selstaði og gengum síðasta spottann út að Brimnesvita, tókum heilmikið af myndum af gömlum tóftum, til að merkja með aðstoð Halla Más, sem ekki treysti sér með okkur.
Við fengum allskonar veður á leiðinni, sól, regn, þoku og ýmist kalda hafgolu eða logn !
                              Veðrið var nokkuð gott við upphaf göngunnar út að Brimnesi :)
                      Hér má sjá rústirnar af undirstöðum gamla Brimnes bæjarins sem brann...
                                                Þessi "gjá" er rétt hjá Brimnesvitanum :)
                             Brimnesvitinn er ekki hár í loftinu, en gerir örugglega sitt gagn !

Friday, June 21, 2019

Skógardagurinn mikli 2019

Það hefur verið árlegur viðburður í nokkuð mörg sumur að haldinn er hátíðlegur Skógardagur á Hallormsstað, þar sem bændur vinna saman að því að kynna framleiðslu sína og fleira.
Gestum hefur fjölgað ár frá ári og þessi hátíð var sú fjölmennasta sem við höfum mætt á.
Í fyrra gerðist það að feitur nautsskrokkur brann til kaldra kola og kveikti í nærstöddu tré.  Því varð minna um mat í boði en var t.d. núna, þegar allt gekk skv. áætlun og meira að segja veðurguðirnir voru okkur hliðhollir.
Börnin nutu sín líka við ýmsa leiki sem boðið var uppá !
            Sjá má hér lítinn hluta gesta sem mættu á þessa árlegu sumarhátíð bænda á svæðinu...
               Nautsskrokkurinn sem grillaður var og uppétinn að þessu sinni virtist vel feitur (?)
Þetta mun vera tréð sem kviknaði í síðasta sumar og nú mjög vinsælt hjá börnunum...
                           Að grilla svona brauðdeig á trjágreinum virtist mjög vinsælt...
                                         Ýmsir leikir voru í boði fyrir börnin og biðraðir víða...
                             Ketilkaffið virðist alltaf vinsælt þó ég hafi aldrei smakkað á því :)
                           Lummurnar eru alltaf vinsælar og biðröð eftir að fá að smakka þær :)

Thursday, June 20, 2019

Góð norðurferð !

Fyrir viku síðan vorum við komin norður til Húsavíkur, m.a. til að slá garðinn við Hlíð og fara svo í Bjarmaland til að setja nýja útihurð á húsið. Við fengum mjög gott veður fyrstu 3 dagana og gekk verkið fljótt og vel fyrir sig. Við gistum því og nutum þess að vera þarna innan um aragrúa af fuglum og fallega náttúru. Heilsuðum líka upp á ættingja og vini  fyrir norðan og enduðum á að fara í nýju sjóböðin á höfðanum á Húsavík, en þau eru orðin mjög vinsæl, bæði hjá heimafólki og erlendum gestum.
Nýja hurðin komin á sinn stað á Bjarmalandi :)
Engillinn í Vígabjargi var fallegur eins og alltaf og veðrið gott, þó mývargurinn biti okkur.
Katlarnir í Jöklu gömlu eru hrikalegir, ekki síst séðir svona ofan af Vígabjarginu.
Þetta gamla tundurdufl var notað sem tromla á heimasmíðaða steypuhrærivél fyrir 60 árum.
               Mikið var af fuglum á leið okkar, þessi húsönd er t.d. sjaldséð nema við Mývatn.
Mikið er um Stelka um allt land og þeir eru oft fínustu fyrirsætur á staurum hér og þar.
            Óðinshanar eru líka algengir við ár, vötn og læki og oft óhræddir við mannfólkið !
        Þessi sjóböð á höfðanum við vitann á Húsavík eru orðin mjög vinsæl, enda notaleg !

Fréttamyndir sem fóru víða !

Það hefur nú ekki gerst fyrr að myndir af mér kæmu í mörgum blöðum á svipuðum tíma, en það gerðist samt nýlega. Bogi Arason blaðamaður hjá Mbl.is er góður ljósmyndari og frændi Rúnars. Hann kemur stundum austur og fer með okkur í fuglaleit, því fuglar eru í uppáhaldi hjá okkur öllum.
Meðfylgjandi myndir tók hann af mér, þegar ég vogaði mér að stíga út fyrir göngustíginn til að taka mynd af kríuhreiðri :) Fyrri myndin birtist því í Mbl. og ég fékk beiðnir um að hún yrði sett í fleiri blöð og það varð úr, þó myndir af mér hefðu þá nýlega birst þar af öðru tilefni :)
                    Það er ekki gott að vera húfulaus nálægt kríum, ég hef reynslu af því...

Monday, June 03, 2019

Sjómannadagurinn 2019

Loksins, eftir nokkurra ára hlé, var aftur byrjað að keppa í róðri um sjómannahelgina og reyna að lífga uppá atriðin sem áður voru árleg, eins og að heiðra sjómann í tilefni dagsins og fleira.
Þátttaka var nokkuð góð, þrátt fyrir kuldanæðing og ég tók nokkrar myndir, sem fá að fljóta hér með, en þær ásamt fleiri myndum enduðu hjá öðrum ljósmyndara sem vildi fá að nota þær !
Kappróður á Seyðisfirði, sem féll niður í fáein ár, en tókst ágætlega að þessu sinni.
Ungt fólk tók þátt í plankaslag yfir sjónum og kipptu sér ekki við að detta í kaldan sjóinn.
Gullver fór með hóp af farþegum í siglingu um fjörðinn á sjómannadaginn að vanda !

Frostnótt á kartöflugrösin !

Ég ákvað í lok apríl að stinga upp kartöflu og gulrótarbeðin og setja niður útsæði og fræ fyrir mánaðarmótin í von um að ekki kæmi vorhret í maí. Breiddi svo plast yfir kassana þar til grösin fóru að gægjast uppúr moldinni, setti þá akríldúk yfir og vonaði að það mundi duga.
En lengi er von á kulda, þó ekki kæmi mikill snjór eða frost, nóg samt til að frostbrenna efstu blöðin á grösunum. Hinsvegar sluppu bæði gulrætur og spínat, sem betur fer...
Þrátt fyrir góðan vilja og ýmsar varnir gegn kuldanum, þá mistókst gulrótasáningin...
Aðeins lítil uppskera virðist verða af gulrótum, en kartöfluupppskeran lofar góðu...

Bogi og Hanna í heimsókn !

Hjónakornin Hanna og Bogi Þór kíktu í heimsókn með ljósmyndagræjurnar og fóru með okkur Rúnari út í Skálanes og fleira til að skoða fuglalífið og taka myndir. Veðrið undanfarið hefur að vísu ekki verið sumarlegt vegna kulda, en það kemur vonandi ekki að sök til lengdar, því nóg er af sætukoppum á berjalynginu og fuglalíf óvenju mikið. Forvitinn selur lék líka listir sínar fyrir okkur, sennilega á veiðum og lítið um ferðafólk.
Á leið út að Skálanesbjargi þar sem mikið er af sjófugli, en æðarfugl og kríur á leiðinni...
Selurinn óhræddi sem lék listir sínar fyrir okkur við Vestdalseyrina í bæði skiptin sem við fórum þangað.
              Brot af kríunum sem voru óhressar með heimsókn okkar á hreiðursvæði þeirra.
Mikið er af Ritum og öðrum sjófuglum við Skálanesbjargið, sem gaman er að mynda !

Sunday, June 02, 2019

Vor-gestir !

Nokkrir utanbæjar gestir hafa kíkt við hjá okkur undanfarið, en nú er ég nánast hætt að taka myndir af þeim, enda ekki óhætt að birta myndir af fólki, nema með leyfi, þar sem nýju persónuverndarlögin eru orðin svo ströng. En þessi gamli kunningi að norðan er sjálfur ljósmyndari og ég veit að honum er sama þó ég birti þessa mynd af honum. En hann var viss örlagavaldur í mínu lífi, því hann dró út happdrættisvinning sem ég fékk þegar ég var 16 ára gömul og hefur hann því alltaf verið svolítið í uppáhaldi hjá mér síðan þá :)
Friðrik frændi Rúnars og Daniela kona hans komu líka og gistu hjá okkur á hringferð um landið og voru heppnari með veðrið, því þau voru nógu snemma á ferð !