Monday, March 18, 2024

Sr. Cecil Haraldsson kvaddur hinstu kveðju !

 Fimmtudaginn 14. mars s.l. var sr. Cecil Haraldsson fyrrum prestur hér, kvaddur hinstu kveðju frá Seyðisfjarðarkirkju og mun satt vera að hann sé fyrsti presturinn sem jarðsettur er hér í Kirkjugarðinum en allir prestar á undan honum hér, svo langt sem menn muna, hafa allir látist fjarri Seyðisfirði og verið grafnir á öðrum stöðum. Hafi hann þökk fyrir góða þjónustu og góð kynni hér gegnum árin !



Gráhegrinn er hér enn og þraukar vonandi veturinn !

 Aumingja gráhegrinn var orðinn ansi slappur í mesta kuldanum hér og hættur að forða sér þegar við tókum rúnt til að mynda hann og fylgjast með honum. En uppúr miðjum mars virtist hann hressast og tórir vonandi það sem eftir er til vors ! Aðrir flækingar virðast ætla að þrauka til vors, enda fá þeir daglega ýmislegt ætilegt sem heldur þeim á lífi. Svo komu nokkrir Tjaldar sem eru fyrstu vorboðarnir ár hvert og nýlega eru álftir farnar að streyma til landsins, þó ekki hafi þær birst hér í firðinum ennþá !




Aftur heim í kulda, snjó og hálku !

Siggi Birkir var búinn að klára að pússla 3000 kubba myndina sem hann gaf okkur um jólin við heimkomu okkar. En það var ansi kalt og vetrarlegt hér allan febrúarmánuð. Samt var fólk að baða sig í kuldanum, þótt ótrúlegt sé. Gamla raflínan út í Hánefsstaði var tekin niður og verið að safna saman staurum og vír út með firðinum. Síðast en ekki síst rek ég augun ansi oft í ólík andlit hér í firðinum og þessa síðasta var bara hér í garðinum hjá okkur... 😂