Monday, September 26, 2022

Snælduvitlaust veður og 100 ára afmælishátíð frestað !

 Það er ekki ein báran stök þessa dagana, því til stóð að halda uppá 100 ára afmæli Seyðisfjarðarkirkju um helgina og kórinn var búinn að æfa og búið að undirbúa veislu í félagsheimilinu, sem síðan var frestað vegna mjög slæmrar veðurspár, sem sannarlega gekk eftir, því bæði norður og austurland urðu fyrir miklum skakkaföllum. Bæði urðu skemmdir á húsum, bílum, mikið af trjám sem rifnuðu upp með rótum og margt fleira sem gekk úr skorðum... En mesta tjónið hér var eyðilegging Angrós og tugir af fiskikörum sem fuku út á fjörð og aðeins hluti þeirra endaði hér í fjörunum við norðanverðan fjörðinn.






Óvænt árás ofstopamanns !

 Því miður gerist það í bestu bæjum að snarvitlausir menn ganga stundum lausir og hrella fólk án ástæðu. Einn slíkur gekk berserksgang hér í bænum um daginn og braut rúður í bílum og réðst á fólk o.fl....   Ég var ein af þeim óheppnu sem kom akandi á heimleið eftir kóræfingu að kvöldi dags og sé mann standa á miðri götunni og baða út höndum eins og til að stoppa bílinn, svo ég gerði það, því ég hélt að eitthvað hefði gerst þarna. En um leið og ég stansa þá stekkur hann uppá húddið og lemur með krepptum hnefa í framrúðuna, svo hún sprakk, en mér brá mikið og setti í bakkgír og forðaði mér frá honum, en hann elti og þegar ég loks ók af stað eins hratt og ég gat framhjá honum, þá stökk hann aftur á farþegabrettið og beyglaði það smávegis. En lögreglan kom stuttu seinna frá Egilsstöðum, enda var löngu búið að kalla á hana og tók manninn :( 




Monday, September 19, 2022

Haustverkin í garðinum !

 Birkikembu fiðrildi hafa nú lagt undir sig mest af birkitrjám hér á Seyðisfirði, eins og víða um landið. Við vorum óhress með að geta ekki eytt þessum eyðandi vágesti og ákváðum að farga birkitrjánum okkar sem voru hvorki mörg né stór, en samt synd að sjá hve illa þau voru farin :( 

Svo er ég byrjuð að taka upp bæði gulrætur og kartöflur og sæmilega sátt við uppskeruna, miðað við hve blautt, kalt og sólarlítið þetta sumar var. Einnig fékk ég góða uppskeru af alls konar berjum :) 








Miklar framkvæmdir við Garðarsveginn !

 Í allt sumar hafa verið miklar framkvæmdir hér við Garðarsveginn, því gamli íþróttavöllurinn var grafinn upp að miklu leyti og moldin flutt inn á Garðarstjarnar-svæðið með tilheyrandi rykmengun og mold á götunni okkar íbúanna hér. Síðan grjótflutningar í holurnar og nú er verið að klára undirstöður undir fyrstu húsin og búið að grafa líka flestar lagnir að svæðinu. Vonandi er það versta búið ?






Friday, September 02, 2022

Bjarmaland heimsótt !

 Á heimleiðinni frá Húsavík kíktum við í Bjarmaland og reyndum að veiða silung í soðið, en ekkert gekk í þetta sinn, því miður. En Siggi Birkir var með okkur fyrir norðan og hann eyddi laugardeginum einn við veiðina og náði loksins einni ætri bröndu. Það var sárabót, því við vitum að nógur fiskur er þarna til staðar ! Hinsvegar gladdi það okkur að á vatninu voru álftahjón með 5 stálpaða unga 💓




50 ára Húsó afmælishittingur !

 Þar sem að liðin voru 50 ár frá því að við vinkonurnar kláruðum samveruna í Húsó í Rvk, þá var ákveðið að hittast á ný og eyða saman einni helgi á Húsavík. Makar fylgdu með og við spjölluðum mikið, bæði á föstudagskvöldinu hjá hjá Önnu og Geira, en síðan í hádeginu hjá Önnu Mæju og Sigga og gengum svo um bæinn, enda heppin með veður og fórum svo í sund í sjóböðin á höfðanum. Að síðustu fórum við öll saman í mat á Hótelið og loks aftur í kvöldspjall hjá Önnu + Geira. 






2 Húsvíkingar mættir til Seyðisfjarðar

 Einn daginn birtust þeir Hörri Jónasar og Önni Arngríms og kíktu í kaffispjall hjá okkur !