

Síðustu 3 helgar hef ég verið eins og Jó-Jó, á milli Seyðisfjarðar og Höfuðborgar- svæðisins. Fyrstu helgina mættum við Rúnar í Hafnarfjörðinn, því að Harpa mágkona sem hafði notað sumarfríið sitt til að mála húsið og gera fínt, ákvað að bjóða öllu föðurfólki sínu í heimsókn á n.k. ættarmót á Austurgötu 21.
Þrátt fyrir að veðrið hefði mátt vera betra, því það var heldur hvasst, þá var samt hlýtt og bjart og úrkomulaust, svo að hægt var að vera úti að mestu leyti og stór hluti ættingjanna mætti og gerði sér glaðan dag saman.
Næstu helgi var komið að skólasetningu hjá mér, annað árið af þremur að hefjast, þ.e.a.s. ef ég þrauka þá alla leið, því að satt best að segja vilja byrjunarerfiðleikarnir á hverri önn angra mann upp úr skónum, ef svo má segja. Ég sé enn ekki framúr þeim að þessu sinni, því að tæknilegt atriði sem átti ekki að vera neitt mál að leysa, þ.e. að tengja vídeócameruna við fartölvuna, hefur reynst hrein martröð, ekki bara fyrir mig, heldur hafa nokkrir tölvugúrúar reynt að leysa þetta vandamál, en ekki ennþá tekist það, hvernig sem því að lokum lyktar. En hvað sem því líður, þá var gaman að hitta stelpurnar aftur í skólanum og það væri bara gaman að glíma við ný verkefni, ef engin svona leiðinleg tæknivandamál væru að þvælast fyrir okkur, því ég er ekki ein um vandamálin.
Þriðju helgina fórum við Rúnar suður, því að Þröstur mágur lét verða af því að gifta sig. Þau Birna Hauks gengu í heilagt hjónaband hjá Hjálmari dómkirkjupresti. Athöfnin var látlaus og falleg og aðeins börn þeirra, systkini, makar og nánustu vinir viðstaddir. Að athöfn lokinni var glæsileg matarveisla á heimili þeirra við Grundarstíg 8 og þar var setið og borðað og spjallað fram á kvöld í góðra vina hópi.