Thursday, May 09, 2024

Vorverkin í garðinum langt komin !

 Eftir að veðrið hlýnaði og batnaði, þá hvarf snjórinn fljótt, enda hamaðist ég við að dreifa úr ruðningum og mestu sköflunum. Eftir það fóru laukar og blóm að gægjast uppúr moldinni og krókusar að springa út fyrstir af öllum. Ég dreif svo í að stinga upp beðin og setja niður kartöflur og grænmeti (undidr plast) áður en við förum í siglingu á Mosel og Rín með skólabræðrum Rúnars úr Vélskólanum í tilefni af 50 ára útskriftarafmæli þeirra.





Fyrstu fuglarnir farnir að verpa...

 

Fyrstu farfuglaeggin sem við sáum þetta árið voru Tjaldsegg, en síðan fundum við nokkur gæsahreiður meðfram Fjarðaránni þegar við vorum að tína rusl. Bæði Tjöldum og gæsum hefur fjölgað mikið hér.



Fleiri flækingsfuglar í heimsókn !

 Það var óvænt þegar Fjallafinku-par mætti til okkar einn daginn og hélt til hér hjá okkur nokkra daga, mest í fóðurbúrinu. Þau hafa trúlega verið nýkomin og mjög svöng, en síðan hurfu þau eins og aðrir...

Áður en Fjallafinkurnar mættu, þá kom hér stök Silkitoppa sem dvaldi hátt í viku hjá okkur og við sáum líka stærri flækinga eins og Brandendur, Rauðbrystinga, Helsingja og Margæsir sem stoppa hér aðeins við í firðinum á leiðinni til Grænlands...