Saturday, June 23, 2007

MIÐSUMARGANGA





Gönguklúbbur Seyðisfjarðar hefur verið mjög virkur á undanförnum árum og efnt til almennra gönguferða víða um nágrennið eftir að hafa stikað allar helstu gönguleiðir hér um kring.
Föstudagskvöldið 22. júní buðu félagsmenn öllum áhugasömum bæjarbúum að koma með í rútuferð upp að snjóflóðavarnargörðunum í Bjólfi. Það er skemmst frá að segja að líklega um 70 manns mætti niður að Herðubreið kl. 20 um kvöldið og settu Gunnar Sverrisson formann félagsins í dálitla klípu, því ekki komust allir í 40 manna rútuna. En hann er greinilega ýmsu vanur og sá til þess að allir kæmust upp á Bjólf. Þaðan var gengið í 2 hópum, annar fór um varnargarðasvæðið og hélt síðan til baka með rútunni í bæinn, en stærri hópurinn sem ég fylgdi, gekk austur yfir fjallsöxlina og niður í Vestdalinn. Þessi hópur sem taldi líklega 54 hressa göngugarpa, munaði ekki um að komast tímanlega niður að nýju brúarstæði yfir Vestdalsána, en félagar og velunnarar Gönguklúbbsins stóðu fyrir því að brú yrði sett yfir ána á mjög heppilegum stað, ofan við neðsta fossinn. Þar beið hópurinn góða stund eftir brúarsmiðunum og fleirum sem komu akandi upp í Vestdal.
Það var okkar ágæti Stefán Jóhannsson bátasmiður sem hannaði brúna og mætti hann nú ásamt fríðu föruneyti til vígsluathafnarinnar. Ég held að flest allir þeir fjölmörgu sem tóku þátt í smíði hennar og að koma henni á sinn stað, hafi líka verið mættir þarna um miðnættið til að taka þátt í athöfninni sem fór fram skv. hefðbundnum serimoníum. Meira að segja var Einar Bragi mættur með saxofóninn og spilaði á miðri brúnni af þessu tilefni.
Síðan hélt hópurinn neðar í dalinn þar sem Ásgeir “yfirkokkur”, Njörður og fleiri góðir hjálparkokkar voru tilbúnir með birkigrillað lambakjöt á grilli, sem smakkaðist alveg einstaklega vel. Auk þess gátu allir sem vildu borðað grillaðar SS pylsur að vild.
Þessi veislumatur var fljótur að hverfa, enda höfðu ansi margir lagt leið sína á svæðið úr bænum á síðustu stundu, jafnt heimamenn sem gestir og trúlega hefur verið hátt í 100 manns á staðnum sem skemmti sér vel þessa miðsumarnótt, því skemmtikraftar mættu líka á svæðið, m.a. Guðmundur Sigurbjörnsson með nikkuna, Snorri Emils með trommuna og Solla á skeiðunum.
Þrátt fyrir að veður væri með allra besta móti, logn og sól á meðan fjallgangan stóð yfir, þá setti hroll að mörgum sveittum göngumanni, þegar komið var fram yfir miðnættið. Þá héldu menn að lokum heim glaðir, misþreyttir og saddir eftir velheppnaða miðsumarveislu sem Göngukúbburinn á heiður að og á skilið mikið lof fyrir þetta frábæra framtak...!!!

No comments: