Tuesday, November 04, 2008

Mannlíf og saga





Portugölsku eyjarnar Madeira og Poto Santo fundust í kringum 1419. Ég kann ekki að nefna alla þá sem þangað komu fyrst, en sá sem fyrstur er sagður hafa fundið og eignað Portúgal eyjuna Madeira hét Joe Zarco. Það var svo nokkru síðar, eftir að fólk hafði sest að á eyjunum, að Kristófer Kólumbus kom þangað og varð ástfanginn af dóttur landshöfðingjans á Porto Santo, giftist henni og átti með henni son sem fæddist þar. Hans er því getið í sögu eyjanna og stytta af honum blasir við vegfarendum um borgina, ásamt styttum af fyrstu landnemunum og fleirum sem ég kann ekki að nefna.
Eitt af því sem fyrstu íbúarnir gerðu, var að brenna hluta af skóginum sem var á milli fjalls og fjöru og torveldaði þeim að rækta jörðina og skyggði á bústaði þeirra. En askan sem eftir lá við bruna skóganna var ótrúlega góður jarðvegur sem allur gróður óx vel í og strax og fluttur hafði verið inn vínviður og sykurreyr, þá gekk þeim vel að rækta þessar nytjajurtir og lifðu á því næstu aldirnar.
Enn í dag lifa margir á ræktun sem og á fiskveiðum og í höfuðborginni er stór markaður, þar sem ræktendur og fiskimenn safnast saman með afurðir sínar og selja það gestum og gangandi eins og sjá má á meðf. myndum.
Aðeins tvisvar rákumst við á betlara, annar var gamall örvasa karl, en hinn var fótalaus unglingur sem notaði hjólabretti til að flytja sig á milli staða. Við sáum aumur á honum og létum hann hafa alla smámynt í fórum okkar, sem reyndar var ekki há upphæð á okkar mælikvarða, en hann virtist samt hálf hissa á þessu tiltæki okkar.
Smellið á myndirnar til að stækka þær, svo það sem á þeim er sjáist betur...

No comments: