Monday, August 03, 2009

Bóndastaðafjölskyldan hittist




Föðurfjölskylda Rúnars hefur haft það fyrir sið um árabil að hittast reglulega og ákveðið var s.l. vetur að næsta ættarmót skyldi haldið hér á Seyðisfirði helgina 17.-19. júlí. Það mættu um 40 manns hingað austur til okkar og við áttum góðar stundir saman. Veðrið hefði mátt vera betra, en það hefði líka getað verið mikið verra. Við gátum grillað og borðað utan dyra og Rúnar gat farið með alla sem óskuðu í smá siglingu um fjörðinn, en lítið veiddist af fiski þegar rennt var færi í sjó.
Aðalkvöldið komu allir inn að afloknum kvöldverði og sátu og spjölluðu frameftir kvöldi. Þá settist hluti ættingjanna niður í kjallara, þar sem húsgögn Lóu tengdamömmu eru til húsa og það köllum við Lóuhreiðrið. Sjá má hér sýnishorn frá þessari samkomu Bóndastaðafjölskyldunnar.
Hópurinn dreifðist víða um bæinn í gistingu, tvær fjölskyldur leigðu hús fyrir sig, hluti ættingjanna voru í Skógum og þær systur Ella og Harpa og þeirra fjölsk. nutu gestrisni móðurfólksins hér í bænum (Binnu og Kristrúnar) og ein fjölskylda var í fellihýsi. En þeir sem eftir voru gistu hjá okkur, m.a. tvær dömur sem notuðu húsbílinn okkar sem svefnstað og undu því bara vel. Segja má að sofið hafi verið í hverju horni, því einn gesturinn lét sér nægja að liggja á dýnu í eldhúsinu og kvartaði ekki:o)
Til stóð að hópurinn færi saman uppí Miðhúsasel í Fellum til að skoða nýuppgerðan gamla torfbæinn sem ættforeldrarnir Rúna, Eiríkur og Gunna voru fædd í, en þá stóð þar yfir ættarmót núverandi eigenda staðarins, svo við urðum að fresta þeirri heimsókn því miður !
Talað hefur verið um að halda næsta ættarmót í Danmörku, þar sem einn leggur ættarinnar býr, en vegna dýrtíðar og ástands íslenska þjóðarbúsins er óvíst að af því geti orðið, þó sjálfsagt sé að halda í vonina og kanna málið síðar :o)

No comments: