Monday, June 07, 2010

Sólrík sjómannadagshelgi !




Það var sól og rjómablíða hér laugardaginn 5. júní 2010 þegar flestöll hátíðahöld sjómanna helgarinnar fóru fram hér á Seyðisfirði og það er sjaldgæft, því oftar en ekki hefur súld, þoka og hráslagi legið hér yfir þennan dag undanfarin ár.
Það var því líflegt um að litast í Gullver NS 12 á meðan að siglt var um fjörðin með fullt skip af fólki sem undi sér vel í sólinni og enn betra var að hnúfubakurinn sem verið hefur hér í firðinum undanfarnar vikur, var hér enn og sýndi sig, svo margir urðu glaðir, þó erfitt væri fyrir svona stórt skip að fylgja honum eftir :)
Ég var því miður upptekin eftir hádegið og gat ekki fylgst með hátíðahöldunum, sat yfir hjá Svandísi læknamiðli, hjúkrunarfr. og nuddara sem hér var að aðstoða fólk sem til hennar leitaði. Það var því ekki fyrr en um kvöldið sem ég var aftur frjáls og fór með Rúnari á matinn og ballið. Þar voru mættir nokkrir árgangar sem héldu upp á tímamót í lífinu og skemmtu sér vel. Heiðursgestur kvöldins og sá sem heiðraður var að þessu sinni var Páll Vilhjálmsson. Stína kona hans var auðvitað með honum og flest börn þeirra voru líka mætt. Er Palli vel að heiðrinum kominn.
Auk þess var öll áhöfn togarans með mökum mætt og talsverður hópur í viðbót. Við fengum auðvitað ljómandi góðan mat og hljómsveitin var líka ágæt. Verst var að ég þurfti að fara snemma heim, þar sem Adam ömmustrákur var hjá okkur og í pössun og ég var búin að lofa barnfóstrunni að vera ekki langt fram á nótt.
Allt gekk vel og ljómandi góð helgi er nú afstaðin

No comments: