Sunday, November 14, 2010

Föndrað um helgina !


Ég hef verið mjög heppin undanfarna áratugi þegar kemur að veikindum eða lasleika og kann hreinlega ekki að vera veik heima. Mér brá því svolítið þegar vond hálsbólga, hósti og nefrennsli fór að angra mig á föstudaginn og var orðin svo óhress um kvöldmat að ég vafði mig í teppi og drakk heitt fjallagrasate í stað þess að rölta með bæjarbúum í árlegri myrkragöngu yfir í kirkjuna okkar á samverustund. Ekki var ég hressari morguninn eftir og úti var hundslappadrífa, svo ég komst í jólaskap og ákvað að búa til dálítið af jólakortum, því alltaf þarf ég að senda nokkra tugi til ættingja og vina, sum víða um heim. Ég þurfti reyndar að skutla Reyni bónda í flug og lentum við í hálfgerðri ófærð, en þá kom plógurinn og við eltum hann alla leið yfir heiðina.
En ég kveið heimferðinni þó það væri óþarfi, því plógurinn hafði hreinsað svo vel báðar hliðar vegarins að allt gekk vel og ég gat haldið áfram við kortagerðina.
Kláraði svo á sunnudaginn að prenta inní þau jólakveðjurnar, svo nú er bara eftir að skrifa á umslögin, þá eru þau tilbúin til brottfarar.
Það er gott að vera búin að einhverju, því nóg er eftir samt :)

No comments: