Monday, June 03, 2013

Tveir dagar í New York




Við komum til New York að morgni dags frá Lima og tókum leigubíl inn á Manhattan þar sem hótelið "okkar" er staðsett aðeins nokkra metra frá Empire State byggingunni. Þar var ákveðið að gista eina nótt og nota tímann vel áður en við færum heim. Veðrið var frábært og við ákváðum að fara í Sightseeingtour um borgina, til að geta séð sem mest á stuttum tíma. Við hoppuðum úr á miðri leið til að skoða hluta af Central Park og fórum úr hjá Dakota byggingunni þar sem John Lennon og Yoko Ono bjuggu (og hún býr þar reyndar enn) en eins og flestir vita þá var John myrtur einmitt fyrir utan þessa byggingu. Við gengum síðan inn í garðinn þar sem sjá má minningar um þennan tíma. Eftir rölt um garðinn héldum við áfram með næsta vagni heilan hring og fórum framhjá ótal þekktum byggingum eins og húsum Sameinuðu þjóðanna... Við höfðum samt ekki tíma til að fara síðari hringinn og ákváðum að geyma það til næsta dags...






Næsta morgunn vorum við mætt kl 8 í biðröðina við Empire State til að komast sem fyrst upp á topp til að sjá útsýnið yfir Manhattan og nágrenni. Við ákváðum svo að fara síðari hringinn og héldum áfram að sjá ótrúlegustu staði sem maður hefur heyrt um og séð í kvikmyndum. Mannlífið á götunum var líka mjög skrautlegt og mikil viðbrigði að vera komin á þennan erilsama stað eftir að hafa verið innan um rólega mannlífið í Perú. Mér fannst athyglisvert að sjá þarna risastór bókasöfn, annað þeirra (rauða byggingin) er háskólabókasafnið, en hitt (með hvítu súlunum) er Borgarbókasafnið sem ég reyndi að fá inngöngu í, þegar við áttum leið þar hjá fótgangandi, en þá var einmitt verið að loka því, svo ég sá mest lítið, því miður. Þessu eina kvöldi eyddum við í gönguferð um nágrennið, þar sem sjá mátti yfirþyrmandi auglýsingaflóð og mannfjöldinn á götunum var eins og síld í tunnu, svo við lá að maður fengi innilokunarkennd.... Við tókum síðan taxa tímanlega síðdegis út á flugvöll til að fljúga heim til Íslands um miðnætti og komum til Keflavíkur snemma að morgni eftir svefnlausa nótt og lögðum okkur því í nokkra tíma áður en næsti viðburður tók við :)

No comments: