Thursday, December 22, 2005

Jólastressið mælt og vegið...!

Heil og sæl !
Loksins, loksins … nú er orðið ansi langt síðan ég sat við skriftir síðast. Aðalástæðan er sú að “bloggið” er aftarlega í forgangsröðinni en einnig 3ja vikna netsambandsleysi sem óhjákvæmilega hafði sitt að segja. Reyndar var ég búin að skrifa nokkuð langa romsu í fyrrakvöld um jólastress og fleira, en svo slysalega vildi til, að öll herlegheitin hurfu út í veður og vind (í bókstaflegri merkingu) því um leið og ég smellti á hnappinn til að vista skrifin, þá fraus sambandið. Ég hafði ekki verið nógu forsjál að vista afrit fyrst, enda ekki þurft þess áður og glataði þar með þessari kvöldvinnu. Aftur settist ég niður í gærkvöld og gerði heiðarlega tilraun til að endurtaka leikinn í styttri útgáfu, en allt fór á sömu leið, mér og nærstöddum til mikillar furðu. En að þessu sinni átti ég þó eftirfarandi afrit:


"Að þessu sinni ákvað ég að láta ekki hið alræmda jólastress ná tökum á mér og liður í því var að sleppa öllum smákökubakstri. Keypti nokkrar sortir af slysavarnakonum og í KHB, það var fljótgert og kemur í sama stað niður. Nokkrar tertur voru þó settar í ofninn og að sjálfsögðu var laufabrauðið steikt, enda er það jafn ómissandi á okkar heimili á jólunum og hangikjötið. Ég hélt líka fyrri venju, að versla meirihluta jólagjafanna í sumarfríinu og var búin að ganga frá þeim um miðjan nóvember. Þessi siður hefur lengi létt mér jólaundirbúninginn og gert mér fært að slappa af við jólakortagerð sem tekur vissulega sinn tíma, en er að mínum dómi svo skemmtilegt föndur, að það er nánast ómissandi í einhverjum mæli. Satt að segja finnst mér aðventan vera sá tími sem við ættum að njóta sem mest, m.a. með því að gera það sem okkur langar til að gera, hvort sem það er að föndra, létta okkur upp með því að fara út að borða, skoða í búðir, taka þátt í þeim uppákomum sem standa til boða eða gera hvað annað sem okkur dettur í hug.
Ég vona að við eigum öll gleðilega jólahátíð fyrir höndum og óska þess að komandi ár verði okkur öllum farsælt. Megi jólastressið víkja fyrir þeim kærleika og ró sem við viljum að einkenni friðarhátíð frelsarans". GLEÐILEG JÓL

No comments: