Monday, April 17, 2006

Nílarsiglingin

Eftir að við komum um borð í hótelferjuna Anni, var yndislega notalegt að sitja uppi á sóldekki meðan sólin hneig til viðar og njóta hlýrrar golu sem myndaðist þegar skipið seig rólega niður fljótið í átt til Kom Ombo sem var fyrsti viðkomustaðurinn. Þá vorum við kynnt fyrir 2 ferðafélögum, þeim Jill og Söru sem urðu okkur samferða það sem eftir var ferðarinnar á vegum Egypt On Line. Jill var að koma í 4 sinn til landsins og alltaf jafn heilluð af fornri sögu faraóanna. Við höfum grun um að hún hafi vitað jafn mikið eða meira en fararstjórinn okkar og var hann þó vel að sér. Hún fræddi okkur um ýmislegt forvitnilegt og segja má að hún hafi á vissan hátt tekið stjórnina svolítið í sínar hendur. Hún fékk fararstjórann til að samþykkja smá breytingar á nokkrum ferðum sem kostuðu ekkert, en urðu til þess að við nýttum tímann betur og gátum séð og gert fleira en til stóð. Hún valdi líka í samráði við hann hvaða konunga-og-drottningagrafir við fengjum að sjá, en skv. reglum fá ferðamenn aðeins að velja 3 grafir í hvorum dal til að skoða. Þau vissu hvaða grafir voru fallegastar og áhugaverðastar, voru raunar alveg sammála um það, svo að allt var þetta í mesta bróðerni. Síðan bættust í okkar hóp (Ramses-group) ung indversk hjón sem fylgdu okkur í hluta af þeim ferðum sem við fórum og voru okkur samferða á skipinu. Frá Kom Ombo fórum við í skreyttum hestvögnum að tignarlegu musteri Edfu, það er tileinkað fálkaguðinum Hórusi. Þar standa meira en 2 m háar fálkastyttur við innganginn. Fyrstu viðbrögðin við öllum þessum gríðarlega stóru og háu súlum, styttum og skreytingum eru mögnuð. Maður hefur það sterklega á tilfinningunni að þeir sem byggt hafi slík mannvirki, hljóti að hafa verið risar að vexti, hvorki meira né minna. Svo gríðarlega yfirþyrmandi eru þessar byggingar. Um kvöldið var þjóðlegur dans um borð og til þess ætlast að menn mættu í viðeigandi búningum sem þeir nefna Galabiya. Við fórum því á stúfana, keyptum búninga og mættum á tilsettum tíma. Tókum svo þátt í dansi og skemmtan fram á nótt, (án áfengis). Eftir notalega siglingu og sólbað daginn eftir, á leiðinni til Luxor, var farið í gegnum skipastiga sem greinilega var þannig útbúinn að hann virkjaði vatnsaflið um leið og því var hleypt í gegn. Sniðugt hjá þeim.... Það var mjög athyglisvert að fylgjast með mannlífinu á bökkum fljótsins. Víðast hvar er ræktað land meðfram fljótinu aðeins nokkur hundruð metrar á breidd, því að oftar en ekki tóku við gróðurlausar sandhæðir eða lág fjöll. Maður sér því alla byggðina og mannlífið við árbakkana meðan flotið er framhjá. Bændur og búalið hafði hvarvetna reist sólskýli úr bambus og öðrum gróðri til að skýla sér og skepnum sínum í sólarhitanum yfir hádaginn. Fólk var þarna við vinnu sína á ökrunum eða að ferma báta af sykurreyr eða öðrum afurðum sem voru á leið á markað. Aragrúi báta og skipa af öllum stærðum og gerðum flaut framhjá, ýmist upp eða niður fljótið. Að sögn Ahmeds fararstjóra eru um 450 stór hótelskip á siglingu með ferðafólk þessa leið á milli Aswan og Luxor. Seglbátar gátu hinsvegar aðeins siglt hluta úr degi, meðan golan entist, annars var yfirleitt logn bæði kvölds og morguns. Við sáum því oft dráttarbáta, hvern með margar skútur í togi. Morgnarnir eru líka besti tíminn til að fara í loftbelg, en það er vinsælt meðal ferðamanna. Okkar félagar fóru í eina slíka ( öll nema Jill) og höfðu mjög gaman af. Ætli við prófum það ekki bara í næstu ferð...(?) Við komuna til Luxor að kvöldi dags var ákveðið að fá sér gönguferð yfir í stóra musterið og skoða það uppljómað af ljóskösturum. Það verður að segjast eins og er, að það var jafnvel ennþá frábærara en að degi til og sá plús fylgdi, að hitinn var þá alveg mátulegur. En yfir hádaginn var eiginlega ekki hægt að láta sólina skína á bert hörund, mann sveið undan því. Rúnar sólbrann á herðum nokkuð hressilega fyrsta daginn. Við héldum okkur því sem mest í skuggum, hvar sem þá var að finna og urðum lítið sólbrún. Í Luxor var margt að skoða, við kíktum líka í verslanir og nutum þess að slappa af á milli ferða, því þarna varð áð í 3 daga. Við fórum m.a. til Karnak að skoða musterin þar, heimsóttum dali konunga og drottninga eins og ég nefndi hér í upphafi. Þar skoðuðum við m.a. grafhýsi hins unga faraós Tutankamons, sem varð heimsfrægur þegar Howard Carter fann ósnerta gröf hans árið 1922. Í þessari litlu gröf, sem var sú lang minnsta þeirra sem við skoðuðum, var ótrúlegt magn af verðmætum dýrgripum sem við síðar fengum að sjá á þjóðminjasafninu í Cairo. Það er því ekki hægt að ímynda sér hvílík auðæfi hljóta að hafa verið fólgin í öllum hinum stóru gröfunum sem búið var að ræna í gegnum aldirnar... við hefðum sko viljað sjá það og erum ekki ein um það...! Óvænt uppákoma varð þegar rafmagnið fór á meðan við vorum stödd niður í einni gröfinni ásamt fjölda fólks. Hvílíkt svarta myrkur, vaaá.. ég bjóst við ópum og hljóðum en ekkert slíkt gerðist. Allir héldu ró sinni, enda ekkert hægt að fara eða gera nema bíða. Sumir höfðu verið forsjálir og voru með vasaljós á sér (m.a. Jill og Sara en ég gleymdi mínu um borð í skipinu). Menn drógu þau upp og lýstu okkur þessar fáu mínútur sem liðu þar til ljósin kviknuðu á ný. Ekki fundum við til neinna ónota eða hræðslu, það er eins og andar hinna framliðnu hafi fyrir löngu síðan sætt sig við þennan mikla átroðning ferðamanna á staðinn, bjóði þá jafnvel velkomna... hver veit...(?) Annar ógleymanlegur atburður skeði þarna í hitanum í konungadalnum. Við sátum undir sólskýli og biðum eftir vagninum sem átti að flytja okkur aftur niður á veg. Þá sé ég hvar einn af hermönnunum lá sofandi með höfuðið á hríðskotabyssunni sinni. Ég smelli mynd af honum og hélt það væri í lagi. En annar hermaður sá til mín, vakti félaga sinn og lét hann vita hvað ég hafði gert. Nú var fararstjóri okkar sóttur og miklar umræður hófust. Loks spurði hann mig hvort ég hefði tekið mynd af honum sofandi og hvort ég gæti ekki þurrkað hana út. Ég játaði hvoru tveggja en var ekki fús að eyða þessari fínu mynd að ástæðulausu. Ég reyndi því að prútta við þá. Óskaði eftir að fá að sjá eina af gröfunum sem Jill hafði sagt mér að væri sú áhugaverðasta af öllum, en einmitt þennan dag var hún lokuð. Þetta var samþykkt, bara ef ég þurrkaði myndina út. Ég hlýddi því í stað þess að svindla og auðvitað var ég svikin um leið og myndin var horfin, eins og ég raunar mátti eiga von á. Achmed sagði okkur á leiðinni heim að hermennirnir hefðu orðið hræddir, þetta væri alvarlegt mál og það væri í raun harðbannað að taka myndir af hermönnum, þó ekkert væri gert í því við eðlilegar aðstæður. Í þessari sömu ferð var dauðamusteri Hatshepsuit drottningar einnig skoðað. Hún var eina konan sem lét krýna sig sem faraó og var víst hinn mesti skörungur. En fáar myndir eru til af henni, því að reiður bróðursonur hennar sem tók við völdum á eftir henni, hataði hana víst svo mikið að hann reyndi að afmá allar myndir af henni, þar sem hann náði til. Þó eru til nokkrar myndir og ég komst að því hvers vegna bæði fararstjórinn okkar og einn bílstjórinn kölluðu mig alltaf þessu drottningarnafni, ég líkist henni víst þó nokkuð! Við grafarsvæðið er lítið og fátæklegt þorp sem nú er verið að tæma, því stjórnvöld vilja íbúana á brott. Fólk á þessu svæði hefur lengi stundað leit að gröfum og hirt allt úr þeim sem einhvers virði er. Koma á í veg fyrir slíkt í framtíðinni. En alabastursverksmiðja og verslun með vörur hennar sem er á svæðinu fær væntanlega að vera, því hún sér mörgum fyrir vinnu og selur varning sem ferðmenn kaupa alltaf eitthvað af við komuna þangað. Einu má ég ekki gleyma, en það er blessaður herbergisþjónninn okkar hann Abdulla. Hann hafði einstaklega gaman af því að gleðja okkur með skemmtilegum uppákomum. Fyrsta daginn hafði hann útbúið stóran krókódíl úr teppum og handklæðum og setti á gólfið í klefann okkar. Þetta var vel gert hjá honum og þrælsniðugt. Við gáfum honum mjög ríflegt þjórfé að launum. Á hverjum degi útbjó hann svo eitthvað nýtt fyrirbæri úr handklæðum og skreytti herbergið, m.a. með hjarta úr handklæðum og setti lifandi blóm í vasa o.s.frv.. Myndir eru í albúminu Nílarsigling á https://www.flickr.com/photos/sollasig54/
 Þegar hann kvaddi okkur kom hann með fullan poka af smágjöfum. Líklega voru þetta hlutir sem gestir hafa skilið eftir eða gleymt á herbergjunum við brottför. Auk þess var hann með kryddpoka handa tengdasyni okkar, sem hann vissi að var egypskur kokkur. Hann vildi að hann kenndi mér að nota egypska kryddið. Við kunnum ekki við að afþakka þetta, en þessi miklu vinahót voru næstum of mikil. Við fengum því heimilisfang hans og lofuðum að senda honum eitthvað að heiman, því hann var svo hrifinn af Íslandi og vissi greinilega svolítið um land og þjóð. Ég hef nú reynt að standa við loforðið, því ég var að senda honum pakka, hann á það skilið blessaður karlinn með sitt ljúfa bros og löngun til að gleðja fólk eftir 24 ára þjónustu á þessu sama skipi, geri aðrir betur... Eitt að lokum áður en ég slæ botninn í þessa frásögn, það er að segja aðeins frá matnum sem við fengum. Hann var alveg ágætur og vel eldaður. Mest brasað kinda, kálfa og kjúklingakjöt, en einnig fiskréttir af og til. Við þorðum ekki að borða neitt hrátt grænmeti eða annað vafasamt af ótta við salmonellu. Þrátt fyrir þessar og aðrar varúðarráðstafanir af okkar hálfu, fengum við í magann, en sluppum ótrúlega vel með því að nota Imodium daglega og drekka alla daga nóg af flöskuvatni bragðbættu með ávaxtasafa eða koníaki sem við tókum með í ferðina til maga-sótthreinsunar ;-) Rúnar taldi að bakteríur af skítugum peningaseðlum hefðu auðveldlega getað verið sökudólgurinn, því vissulega vorum við ekki alltaf nýbúin að þvo okkur um hendur þegar við fengum okkur að borða. Án gríns, þá er það slæmt mál að passa ekki vel uppá þessa hluti og eins gott að taka þetta alvarlega í næstu ferð og þakka fyrir að ekki fór verr að þessu sinni. Allt er gott þegar endirinn er góður.........

No comments: