Sunday, April 20, 2008

Flækingar á ferð


Eftir óvenju langan og þreytandi vetur virðist farið að grilla í vorið handan við hornið. Þó hefur snjórinn lítið hopað í blíðunni síðustu daga og snjótittlingar og rjúpur eru hér enn í hópum í bænum, því snjór hylur enn alla jörð og hvergi æti að fá nema hjá mannfólkinu í bænum.
En undanfarnar vikur hafa farfuglarnir birst hver af öðrum hér á landinu hvíta og kalda. Þeir eru fyrstu vorboðarnir í hugum okkar og sjálfsagt að taka vel á móti þeim með því að bera út æti við þeirra hæfi. Daglega í nokkrar vikur, hef ég mulið niður gróf brauð í fullt vaskafat og skorið niður rauð epli og fest á trjágreinar, sérstaklega handa þröstunum sem fá ekkert betra.
Af og til birtast óvenjulegir og sjaldséðir gestir sem gleðja augu og huga. Einn slíkur birtist hér í morgun, GRÆNFINKA, mjög falleg, sem hefur haldið til í garðinum hjá Önnu og Hjálmari síðustu daga. Mér tókst að ná mynd af henni, þó ekki sé hún nógu góð. En til fróðleiks fær hún að fljóta hér með, því það
er ekki á hverjum degi sem slíkir fuglar sjást hér á landi.

1 comment:

Anonymous said...

Við hér í Danmörku söknum þess að hafa ekki fengið neinn snjó í vetur. Ég hefur alltaf fundist gaman þegar mikið snjóar. Vona samt að þessu fari að linna hjá ykkur. Við erum farin að taka fram stuttbuxur og sandala hér í Kaupmannahöfn :)

Kv EK