Saturday, June 07, 2008

Kvennahlaup og geitungar



Í morgun, laugardaginn 7. júní stundvíslega kl. 11, lögðu rúmlega 70 konur af stað í kvennahlaupið hér á Seyðisfirði. Veður var ágætt, að vísu sólarlaust, en aðeins hæg gola og um 14 stiga hiti. Það er nú ekkert til að kvarta yfir.
Ekki er ég viss um aldur elstu og yngstu þátttakenda, en ég veit að ein sú yngsta er að halda uppá 2ja ára afmælið sitt og ein sú elsta er 79 ára. Og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þá skörtuðum við allar fallega fjólubláum bolum, hvort sem við notum þá nú aftur eður ei. Nú þegar á ég orðið nokkuð litskrúðugt safn af kvennahlaupsbolum og líklega verða allir "verðlauna- eða- minningapeningar" kvennahlaupsins orðnir að safni áður en mörg ár líða.
Sjálfsagt tek ég mig til einn daginn og sendi alla bolina til Rauða Krossins í von um að einhver hafi þörf fyrir allar þessar ónotuðu flíkur. Sjálfsagt hafa margir fatalitlir einstaklingar fengið slíkar flíkur frá Íslendingum, a.m.k. hef ég séð myndir af fólki af erlendu þjóðerni í slíkum bolum, þeir virðast rata víða, því ég hef séð fólk í Asíu m.a. Nepal, Afríku, S-Ameríku og víðar í slíkum bolum og hafði gaman af.

Já, svo er það garðurinn...
Eins og gefur að skilja á þessum árstíma, eru störfin í garðinum býsna mörg. Ég hef því verið meira og minna að "moldvarpast" undanfarið í mínum garði og langar að gera svo margt þar til lagfæringar. En það eru oft svo mikil stórmál sem mig langar að framkvæma að lítið verður úr aðgerðum. M.a. núna langar mig að láta grafa upp alla víðirunnanna á lóðamörkunum og setja þar niður rifs í staðinn. Sem betur fer eru nágrannarnir Anna og Guðni, þessu sammála, svo að vonandi komum við þessu í verk í sumar og helst fyrr en síðar.
Eitt af því sem hefur verið að þvælast fyrir mér í garðinum s.l. vikur eru stórir og pattaralegir geitungar, sem hljóta að eiga sér bústað hér á svæðinu. Mér líst ekki vel á það, því undanfarin ár hafa þeir verið iðnir við að byggja sér bú hér á lóðinni og oft erfitt að finna þau og eyða þeim. Sjá meðf. mynd frá sumrinu 2006 sem þeir gerðu undir garðskúrnum okkar.
Ég veit ekki hvort er verra að hafa þessar flugur eða fjallakóngulærnar í kringum sig, svei mér þá. Sem betur fer hefur lítið borið á kóngulónum, enda er ég alveg miskunnarlaus við þær ef ég sé þær á húsinu, en geitungana þori ég ekki að reita til reiði, þó ég sé alltaf að reyna að finna heimili þeirra, sem enn hefur ekki tekist, því miður. En þegar það tekst þá reikna ég með að minn maður taki að sér að fjarlægja "hús og íbúa" svo fljótt sem auðið verður...ehem...þar með er það afgreitt...og engin miskunn...!

No comments: