Sunday, June 22, 2008

Sumarsólstöður




Við sumarsólstöður ár hvert er gott tilefni til að njóta íslenskrar náttúru og vera eins mikið úti og veður og tími manns leyfir.
Í gær 21.júní var ágætt veður til útiveru þó sólin léti bíða eftir sér fram yfir hádegi. Mild hafgola var það eina sem bærði hár á höfði það sem eftir lifði dags.

Þær systur Elín Hrefna og Sigrún Klara Hannesdætur eru staddar hér í bænum þriðja sumarið í röð en Sigrún er núna að safna efni um Seyðfirskar konur og hef ég reynt að vera henni til aðstoðar við öflun gagna eftir því sem kostur er.
Við fórum út í Skálanes í fyrrasumar og í gær var ákveðið að fara þangað aftur og núna í sólstöðukaffi og líta á þær breytingar sem orðnar eru frá því í fyrra, en búið er að byggja stórfínan veitinga-sólskála við húsið og lagfæra það á ýmsan hátt, m.a. er komið stórfínt svefnloft á háaloftið og svalir og neyðarútgangur af efri hæðinni. Margt fólk var þar við vinnu og mikið um að vera, en okkur var tekið vel og fengum við kakó og kökur og máttum skoða okkur um að vild. Við gengum síðan út í bjargið og Sigrún hitti að lokum erlenda konu sem hún vissi að var stödd þarna og hafði áhuga á að hitta, en þær eru báðar menntaðar á sama sviði. Ferðin fram og til baka gekk vel, þó ég sé frekar rög að aka yfir vatnsmiklar ár og brölta eftir illfærum vegi sem reyndar er verið að lagfæra og vonandi verður hann betri næsta sumar, því auðvitað förum við þangað "á sama tíma að ári" eins og við ræddum um.
Við höfum skipst á að skreppa í mat hver til annarrar og það er mikið búið að spjalla og hlæja í góðum félagsskap með vinkonum þeirra og fleirum.

Annars er það orðin árleg venja hér á Seyðisfirði að gönguklúbburinn stendur fyrir sólstöðugöngu hér í firðinum. Að þessu sinni var ákveðið að ganga upp með sunnanverðri Fjarðará alveg upp að minnismerki Þorbjörns Arnoddssonar og skoða í leiðinni alla fallegu fossana sem munu vera tæplega 20 á þeirri leið.
Veður var gott, s.s. logn, þó sólin væri auðvitað sest hér niðri í dalnum, enda ekki lagt af stað fyrr en kl. 20:00
Um 30 manns þrömmuðu saman þessa fallegu leið og gekk það vel, þrátt fyrir að síðasta spölin væru sumir orðnir þreyttir, því klifra þurfti upp smá klettabelti sem reyndist býsna strembið. Síðan tók við rútuferð niður að golfvelli, en þaðan var gengið upp á "Skaga" í fylgd Jóa Sveinbjörns sem bættist þar í hópinn ásamt nokkrum fleiri Seyðifirðingum sem ekki gengu upp heiðina. Jói sagði auðvitað stríðsárasögur og sýndi okkur hvar helstu braggahverfin voru, varðstöðvar o.fl.
Þeir sem óskuðu gátu síðan farið beint í miðnæturverð (kjötsúpu) í Skaftfell, en ég hafði ekki lyst á því undir svefninn og kaus frekar að komast heim og fara í heitt bað um miðnættið og teygði vel til að fá ekki strengi....

No comments: