Monday, November 09, 2009

Sjaldan er ein báran stök...




Gömul orðtæki eins og "Sjaldan er ein báran stök" og "Enginn ræður sínum næturstað" eiga svo sannarlega við enn í dag, því óvænt atvik geta á augnabliki breytt öllum áformum, svo við fáum ekkert að gert og verðum að sætta okkur við það.
Við Rúnar fórum norður í heimsókn til mömmu s.l. föstudag 6.nóv. og áttum þar yndislega daga með ættingjum og vinum. Vorum m.a.boðin í veislu til Sigrúnar og Hauks á föstud.kvöldið og þau jafn hress og venjulega, þó skuggi veikinda vofi þar yfir.
Veður var ótrúlega gott, sérstaklega í gær, glaða sól og blíða og snjólaust eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, ef undan eru skilin Kinnarfjöllin.
Rúnar notaði því blíðuna og skrapp til rjúpna og náði í jólamatinn handa okkur tveimur, en það kostaði reyndar sitt, því hann hefur átt vanda til að fá hjartsláttaróreglu þegar hann erfiðar og svitnar mikið og það skeði einmitt í þetta sinn. Töflur sem hann var vanur að grípa til, passa ekki lengur við þessum ónotum, svo hann sá fram á að leita læknis er heim kæmi...
Síðdegis á sunnudag kvöddum við okkar fólk fyrir norðan og héldum heim á leið.
Á Möðrudalsöræfum ókum við fram á bíl sem runnið hafið útaf veginum og lá á hliðinni en eftir athugun komumst við að því að enginn hafði slasast alvarlega, sem betur fer og við vorum ekki þau einu sem mætt vorum á vettvang, svo við gátum haldið áfram ferð okkar og fórum rólega, þar sem hálkan var greinilega hættuleg.
Þegar við áttum eftir fáa kílómetra í Egilsstaði, tók bíllinn upp á því að "deyja" svo algjörlega, að ekkert var hægt að gera. Við urðum að ræsa út gamlan og góðan fv. nágranna sem býr þarna skammt frá og kom hann og dró bílinn á verkstæði á Egilsst. þar sem við fengum að skilja hann eftir til viðgerðar.
En við urðum að ræsa fleiri út, því Binna frænka Rúnars var drifin af stað frá Seyðisfirði til að sækja okkur yfir heiðina og gekk það fljótt og vel, þökk sé Binnu.
Við fengum að vita það snemma í morgun að tímakeðjan hefði farið í bílnum og óvíst hvort öll kurl séu þar með komin til grafar, en vonum það besta...
Síðan dreif Rúnar sig til læknis og var sendur með hraði á Norðfjörð í rannsókn... og ég sit hér eftir, bíllaus og veit ekki hvernig ég get sótt minn mann þegar honum verður sleppt út aftur, en ég geri ráð fyrir því láni að fá hann aftur heilan heim...
og reyni að taka þessu með ró, enda ekkert annað í stöðunni finnst mér !
Ég þakka bara fyrir að bíllinn okkar gafst ekki upp lengst uppi á fjöllum í gærkvöld, þá hefðum við verið illa sett. Ég lít bara á þetta sem lán í óláni og tek því sem koma skal, en vonin og bænin eru sterkustu vopnin sem við eigum og því um að gera að nota þau óspart jafnt fyrir okkur sjálf sem aðra :)

1 comment:

Asdís Sig. said...

Ja hérna, elsku Solla mín, aldeilis nóg í gangi hjá ykkur núna, vona að það séu betri fréttir af Rúnari þínum í dag. Þú sendir mér kannski línu. Fallegar myndir að "heiman" kær kveðja