Monday, February 27, 2012

Góugleði á Húsavík :)





Síðastliðinn föstudagsmorgunn var veður svolítið vafasamt en eftir að hafa kannað veðurútlit og spár fyrir helgina, þá ákváðum við að renna norður til mömmu, því að vel stóð á hjá okkur. Við vorum komin inn í Jökuldal þegar sólin fór að skína og fengum síðan rjómablíðu alla leið norður. En ansi var hvítt um að litast á leiðinni, þó ekki væri miklu snjómagni fyrir að fara. Við færðum Hillu frænku brodd og fréttum hjá henni að Gulli frændi væri á spítalanum eftir slæma byltu og að það væri flensa að ganga á spítalanum, svo við frestuðum heimsókn til hans til laugardags. En komumst þá að því að hann og félagar hans í herberginu voru allir frískir, svo okkur var óhætt og allir hressir á neðri hæðinni hjá mömmu blessaðri sem orðin er afskaplega heyrnarlaus og út úr heiminum. Ég held hún hafi ekki þekkt okkur alveg strax, því miður, þó hún væri fljót að jafna sig á því.
Við færðum líka Sigrúnu vinkonu brodd og hún bauð okkur í kvöldmat á laugardaginn ásamt Óla Héðins mági hennar sem er að vinna í íbúðinni þeirra Huldu. Við áttum saman mjög notalegan kvöldverð og spjall og kíktum svo til Óla í íbúðina til að sjá hversu fínt hant var búin að gera WC-ið - allt flísalagt.
Veðurblíðan hélst alla helgina og eftir hádegið á sunnudaginn þegar við vorum búin að kveðja alla, þá kíktum við inn á ljósmyndasýningu í Safnahúsinu og ég átti erfitt með að rífa mig þaðan tímanlega til að komast austur í björtu, því við vorum hrædd um að hálka væri á leiðinni, en það reyndist óþarfa áhyggjur, því sólin hafði brætt hana nær alla og heimferðin gekk því mjög vel, sem betur fer.

1 comment:

Asdis Sig said...

Ég setti hér inn komment í gær, en sé að þau hafa ekki skilað sér, var bara að þakka fyrir skemmtilegar myndir.