Wednesday, May 14, 2025

Flestir árlegir farfuglar mættir í fjörðinn !

 Síðustu vikur hafa árlegir farfuglar streymt til okkar í fjörðinn og glatt okkur í góða veðrinu sem hefur verið hér óvenju mikið þetta vorið. Fyrst komu gæsirnar og Tjaldar og síðan aðrir árlegir sumargestir eins og Kríur, Spóar, Jaðrakanar, Maríuerlur o.s.frv.  Helsingjar, Margæsir og Rauðbrystingar eru líka komnir og margir farnir áfram til Grænlands.




Vinnuferð til HÚSAVÍKUR !

 Kiddi Óskars hringdi til okkar og lét vita að brotist hefði verið inn í torfgeymsluna við Hlíð á Húsavík.   Við ákváðum því að renna norður og reyna að bjarga málinu í 3ja sinn. Það tók Rúnar meira en hálfan dag að laga brotinn hurðakarminn og laga annað sem laga þurfti. Ég dundaði á meðan við að stinga upp þúsundir af fíflum á lóðinni og slá hana síðan. Nokkrir kunningar og vinir kíktu til okkar, m.a. Anna Ragg, Sturla Þorgríms og Kiddi sjálfur. En svo birtist Árni Bjössa Sör með hund í göngutúr og spjallaði við mig nokkra stund. Við kíktum svo til Jónda og Zakka kvöldið áður en við fórum aftur austur.           Á heimleiðinni skruppum við niður á Vopnafjörð og heilsuðum uppá Halla Má sem er þar í tímabundinni geymslu á heilsugæslunni þar. Á bakaleiðinni sáum við 2 hópa af hreindýrum (alls 35 dýr) og veðrið var svo gott, að hitinn var meira og minna 19 gráður á leiðinni og fór upp í 22 gráður á Héraði og víðar.




Friday, May 09, 2025

Sumaya Rós fermist í Noregi !

 Við skelltum okkur tímanlega til Noregs, til Jóhönnu og fjölskyldu, því einkadóttir hennar fermdist           3. maí og Siggi Birkir mætti líka, svo það var fullt hús þegar allir voru mættir.  Siva frænka bauðst til að hafa veisluna í þeirra STÓRA húsi, sem kom sér mjög vel og gekk ágætlega, en nóg var að gera við undirbúning dagana á undan. Auk þess var Sumaya að keppa í handbolta og hennar lið stóð uppi sem sigurvegari fáum dögum fyrir ferminguna. Við lögðum til ísl. flatbrauð með hangikjöti + r. silung og keyptum fermingartertu sem smakkaðist ágætlega :)