Monday, September 15, 2008

Kartöfluuppskeran 2008



Jæja, þá erum við Rúnar búin að fara enn eina ferð norður til Húsavíkur að heimsækja mömmu og komum ýmsu fleiru í verk. Didda systir kom líka norður og við þrjú tókum upp allar kartöflurnar sem ég potaði niður í vor og uppskeran var alveg ÓTRÚLEG... ég held ég hafi aldrei á ævi minni séð jafn stórar kartöflur, þær eru einfaldlega OF STÓRAR ! Meðfylgjandi mynd sýnir alls ekki rétt stærðarhlutföll en gefur þó hugmynd.
Mér líst nú ekkert á svona "stórgripi" af þessari tegund, en einhvern veginn verðum við samt að nota þessa "risa" og vonandi smakkast þeir bara vel.
Við systur fórum líka í berjamó og það virðist alls staðar vera nóg af berjum, því við mokuðum upp í 3 fötur á stuttum tíma. Berjabrekkurnar eru hreinlega "teppalagðar" með berjum.
Mamma skrapp meira að segja með okkur út í mó og tíndi svolítið uppí sig og hefur vonandi haft gott af því.
Við systur skruppum líka á glernámskeið hjá Sigrúnu vinkonu á Þórðarstöðum. Það var mjög gaman og við hlökkum til að sjá hvernig gripirnir okkar líta út þegar við mætum næst norður, því þá verður búið að brenna þá.
Veðrið var yndislegt alla helgina og fínn þurrkur til að þurrka kartöflurnar, svo á betra varð ekki kosið og ég er sannarlega þakklát fyrir þessa einstöku veðurblíðu, eftir eitt lengsta þokusumar sem ég man eftir hér austanlands...
Ég hef verið að kveðast á við eina skólasystur frá Húsavík og eftirfarandi fyrripart sendi ég henni nú síðast og fékk viðeigandi botn neðanvið frá henni...
Verði ykkur að góðu;

Berjabláar þúfur breiða sig um brekkur,
blundar í mér löngun, þangað fara hlýt.
Haustar senn og lyngið í bólið sitt nú sekkur.
er snjórinn dembist ofan og jörðin verður hvít.

No comments: