Thursday, September 04, 2008

Skólinn byrjaður á ný



Jæja, þá er skólinn byrjaður þennan 3ja og síðasta vetur minn í Bókasafns og Upplýsingatækni náminu. Við erum bara 5 stelpurnar sem erum eftir af 9 stelpna hóp sem byrjaði saman fyrir 2 árum síðan. Ég held í vonina að þessi vetur verði sá léttasti, því að þessi fög sem við verðum með í vetur eru meira og minna tengd vinnu minni á Bókasafninu og ættu því að vera mér auðveldari en margt af því sem við höfum verið að læra s.l. 2 vetur. En þetta kemur væntanlega fljótt í ljós.
Í hvert sinn sem ég er í skólaferðum fyrir sunnan, þá gisti ég hjá sonum mínum í Hafnarfirði. Þeir eru ekki alltaf búnir að taka til hjá sér þegar ég birtist og nú síðast var öll íbúðin "á hvolfi" svo að mér næstum féllust hendur. Drengirnir höfðu verið með partý helgina á undan og voru ekki farnir að laga neitt til, þó liðin væri hálf vika. Ég byrjaði á að tína saman fullan ruslapoka af tómum gosdósum, flöskum og slíku og henti rusli, en fór síðan að vaska upp, því næstum allt leirtauið þeirra var óhreint og því orðið tímabært að byrja á uppvaskinu. Síðan tóku við þrif og þvottar sem eru fastir liðir þegar ég kem suður, því heimilisstörf eru ekki í uppáhaldi hjá drengjunum og reyndar mér ekki heldur, en ég hef bara lært að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt og heimilisstörf eru eitt af því... spurning hvenær sumir átta sig á þessari óhjákvæmilegur staðreynd...hehe...!

No comments: