Saturday, May 12, 2012

Farfuglar streyma til landsins

Þegar farfuglarnir byrja að streyma til landsins, þá finnst manni vorið vera alveg á næstu grösum. Tjaldurinn var fyrstur að vanda og lét heldur betur heyrast í sér hér við Fjarðarána. Svo komu skógarþrestir, gæsirnar og straumendur og síðan öll fuglafánan sem sækir til okkar á hverju vori, stelkar, hrossagaukar, spóar, lóur, jaðrakanar og smáfuglar eins og maríuerlan og nú síðast kom krían, en hún er sannkallaður sumarboði og maður væntir betra veðurs eftir að hún er mætt :) Ég var svo heppin að heyra í fyrsta hrossagauknum í suðvestri og fyrsta maríuerlan sýndi mér hægri hliðina á sér, sem skv. gamalli þjóðtrú segir að þýði vestanáttir í sumar. Ég lifi því í voninni að fá gott sumar og ætla nú að sannreyna hvort hægt sé að treysta á svona gamla þjóðtrú hehe :) En vetrarfuglarnir okkar heyja líka harða baráttu og smyrlar og fálki hafa séð til þess að dúfum, rjúpum og öðrum fuglum hefur fækkað hér þó nokkuð, enda hafa þeir fært sig upp á skaftið og eru farnir að veiða hér inni á milli húsa í bænum og óhræddir við mannfólkið sem vitanlega gerir þeim ekki mein og það virðast þeir vita... Það er samt leitt að horfa uppá þessa lífsbaráttu, rétt eins og mér finnst ekki gaman að þurfa að veiða okkur til matar, þó ég kunni bæði að meta fisk og villibráð. Ég kýs samt að borða eins mikið af ávöxtum og grænfóðri eins og ég hef lyst á en lofa hinu að fljóta með í hófi...

No comments: