Monday, November 07, 2022

Le Mirage næsti gististaður í eyðimörkinni !

 Eftir að við yfirgáfum Bagatelle, ókum við langa leið út í aðra eyðimörk sem umkringd er fjallgarði og þar í miðri auðninni sáum við kastala, Le Mirage sem var næsti gististaður okkar. Þar dvöldum við 2 nætur og upplifðum bæði frið og gleði yfir öllu sem við sáum og upplifðum, sannarlega öðruvísi dagar. Þaðan fórum við í gönguferð upp á háa sandöldu, þar sem mikið var um bjöllur og eðlur sem urðu á vegi okkar, auk allra ferðamannanna sem voru á staðnum. Gengum svo niður á ævagamlan þurran vatnsbotn sem nefnist "saltpanna", þar sem hátt í þúsund ára gömul dauð tré standa ennþá. Við sáum líka þyrnirunna með stórum gaddakúlum sem fullar eru af vatni og koma sér vel fyrir dýrin í vatnsskorti. Á leiðinni kíktum við niður í gamalt árgljúfur sem nú er skraufaþurrt !  Það má segja landsmönnum til hróss að þeir hafa lagt háar girðingar meðfram öllum helstu vegum landsins, svo stóru dýrin geti ekki þvælst yfir á vegina, sér og öðrum til skaða !  Alls staðar er furðu mikið af fuglum, sem ég mun taka fyrir síðar hér á blogginu 😂










No comments: