Wednesday, January 28, 2009

ÞAÐ KREPPIR AÐ...



Ég hef ekki lagt í vana minn að gera mikið veður út af þjóðmálum eða bæjarmálum yfirleitt, en nú er mér orðið nóg boðið og get ekki á mér setið að segja eitthvað um málið, því áhyggjur af stöðu mála eru farnar að halda fyrir mér vöku og er þá mikið sagt. Það er ekki nóg með að kreppuástand þjóðarinnar hafi áhrif á hvert heimili á landinu, heldur hefur verið siður margra þeirra fjarstöddu yfirvalda sem einhverju fá ráðið varðandi fyrirtæki og stofnanir hér í bæ, að reyta af okkur allar þær "fjaðrir" sem þeir geta og um leið að fækka hér störfum og starfstækifærum sem eru þó alltof fá nú þegar og þannig hefur það oftast verið s.l. áratugi.
Síðustu misseri hafa opnunartímar verslana og banka orðið færri en venjan er og var það t.d. mjög slæmt þegar Landsbankinn hætti að hafa opið fyrir hádegi, ekki síst vegna álagsins sem er þar á vissum tímum, sérstaklega yfir sumartímann þegar þúsundir ferðamanna koma hér í gegn með Norrænu, en það er eins og ekki hafi verið gert ráð fyrir því. Og nú ætla stjórnvöld að bæta gráu ofan á svart með því að flytja póstinn inn í Landsbankann og loka pósthúsinu okkar. Þeir eru búnir að segja upp starfsfólkinu og sýna því enga virðingu þrátt fyrir áratuga störf hjá stofnuninni.
Ekki vitum við hvar koma á póstinum fyrir í bankanum, því ekki er sjáanlegt neitt pláss fyrir hann þar og ekki ætla þeir heldur að ráða neinn auka starfskraft til að sinna póstinum, þó enginn sem fyrir er í bankanum hafi þekkingu á póstmálunum og nóg virðist líka vera þar fyrir af verkefnum þó pósturinn bætist ekki við.
Þetta þýðir að biðraðirnar í bankanum lengjast enn meira en verið hefur og þjónustan versnar fram úr hófi, sérstaklega á álagstímum, ef þessi áætlun nær fram að ganga.
Ég og fleiri bæjarbúar viljum því gera eitthvað í málinu, t.d. leggja fram undirskriftalista og láta fjölmiðla vita af þessu. En við bíðum eftir tillögum frá bæjarráði sem er víst að funda um þessa áætlun. Væntanlega verður tekið af skarið og ákveðið að mótmæla þessum ósköpum á einn eða annan hátt. Um þetta munum við íbúar Seyðisfjarðar vafalaust öll standa saman sem einn maður og berjast fyrir möguleikum okkar til að búa hér áfram óáreittir með þau fáu störf sem enn eru þó hér.
Verðum við ekki að treysta á að ný ríkisstjórn horfi á málið með okkar augum svo að þessum stjórnendum sem lögðu á ráðin um breytingar takist ekki að eyðileggja búsetuskilyrði okkar hér, með því að kippa frá okkur öllum þeim "fjöðrum" sem við höfum til að þrauka hér á hjara veraldar...?

1 comment:

Anonymous said...

Þú þyrftir að láta birta þennan góða pistil í bæjarblaðinu hjá ykkur. Skemmtilegur þorrabragurinn hér á undan :):) kær kveðja