Sunday, January 11, 2009

Lokaönnin hafin o.fl...




Helgina 9.-12. jan. var ég stödd í Reykjavík og nágrenni í tilefni af því að síðasta skólaönnin mín var að hefjast. Við stöllurnar fimm ásamt kennara notuðum föstudaginn til að heimsækja Borgarbókasafnið í Kringlunni og fengum þar stórgóðar móttökur.
Það kom mér þægilega á óvart að uppgötva að þarna væri eitt af útibúum Borgarbókasafnsins staðsett og að þetta væri safnið sem áður var í Bústaðakirkju.
Húsnæðið er afar rúmgott og allur aðbúnaður fyrsta flokks. Nógur mannskapur virðist vera til að sinna öllum verkum, m.a. er ein manneskja í fullu starfi, bara við að sinna barnastarfinu á staðnum. Það er því greinilega enginn fjárskortur á þessu safni.
Við sáum þarna í fyrsta skipti sjálfsagreiðsluvél og fengum sýnikennslu á hana. Þetta er sniðugt tæki og engin leið að ætla að svindla sér út af safninu með bækur sem ekki hafa verið skráðar á viðkomandi, því þjófavarnartæki sér um að engin bók sem ekki er búið að lána skv. tölvukerfinu, komist úr húsinu án þess að afgreiðslufólkið verði þess vart.
Ég reyndi þetta á sjálfri mér, því forstöðukonan sem leiddi okkur um allt safnið og fræddi okkur um það, var áður en við mættum á staðinn, að afskrifa bækur sem lágu í haugum á vinnusvæði hennar. Mér leist ekkert á að þessum bókum yrði hent og bauð hún okkur þá að velja úr þær bækur sem vildum, ef við hefðum áhuga á einhverjum þeirra. Ég sá margar bækur sem safnið okkar á ekki og greip 2 nýjar bækur sem ég hafði ekki séð áður og fékk að taka þær með mér. Þær voru afskrifaðar vegna þess að síður í þeim höfðu blotnað og voru því ósléttar. EN þegar við kvöddum og fórum gegnum útgönguhliðið, þá vældi það á okkur svo að ég hrökk til baka með bækurnar, því þá hafði gleymst að afsegla þær, þó búið væri að afskrifa þær.
Síðan fórum við í heimsókn í einn af Bókabílum borgarinnar og höfðum mikið gaman af því. Þessi bíll var mjög vel búinn og það er alveg snilld að færa eldri borgurum, börnum og fleirum sem e.t.v. eiga ekki vel heimangengt, bækurnar heim í sitt hverfi. Það var ótrúlega gott bókaúrval í bílnum sem er stór og mikil rúta, eða álíka stór og strætisvagn.
Meðfylgjandi myndir sýna skólasystur mínar við sjálfsafgreiðsluborðið í safninu og í bókabílnum. En síðasta myndin er tekin hjá Hörpu mágkonu í Hafnarfirði á laugardags- kvöldið þegar við vorum að horfa á fyrstu undankeppni Evrovision, en þá komu Binna, Maggi og Stefán Ómar í heimsókn, því Binna er að fara í aðgerð (sem vonandi gengur vel) og þau því mætt suður af því tilefni. Við mauluðum konfekt, popp og fleira gott og vorum ekkert að flýta okkur í háttinn...
Það er svo spurning hvort að annað hvort laganna tveggja sem valin voru að þessu sinni verður framlag Íslands til keppninnar í ár(?) Þau virtust nefnilega bæði vel boðleg...

4 comments:

Bára Mjöll said...

Vá, en sniðugt þetta þjófavarnarkerfi hjá Borgarbókasafninu. Og svo verð ég að hrósa þér fyrir skemmtilegt blogg Solla mín - þú yrðir góður fréttaritari!

Bára Mjöll said...

En ég verð að vera ósammála þér varðandi lögin í undankeppni söngvakeppninnar, því mér fannst þau hreint ekkert sérstök... En keppnin er auðvitað bara rétt að byrja og ekki öll nótt úti enn.

Anonymous said...

Skemmtileg færsla, þetta hefur aldeilis verið gaman hjá ykkur. Bækur eru gullmolar það er víst og satt, maður les aldrei of margar bækur. Kveðja austur.

Anonymous said...

Hér á bæ var lítil hrifning af undankeppni söngvakeppninnar og finnst okkur lögin sem voru valin áfram ekki líkleg til stórræða. En svo á eftir að koma í ljós hvort betri lög verða næstu 3 keppniskvöld.
Kveðja, Jóhanna Björg og co