Thursday, January 01, 2009

Áramótin 2008-2009




GLLEÐILEGT NÝÁR OG ÞAKKA YKKUR ÖLLUM FYRIR GAMLA ÁRIÐ !!!
Gamlalársdegi eyddum við heima hjá okkur ásamt Sigga, Bergþóri og Hilmi sem verður hjá okkur um áramótin. Síðasti kvöldverður ársins var svínaskorpusteik sem bragðaðist svo vel að "margur fékk mettan kvið" eins og Jón frá Bægisá sagði í einu af kvæðum sínum, en einmitt þessi ljóðlína er lausn á krossgátu sem við Rúnar vorum að glíma við. Jólamyndagátur blaðanna fóru hinsvegar framhjá okkur að þessu sinni og þótti okkur það miður, því þær hafa verið ómissandi tilbreyting á jólahátíðum.
Við kíktum í kirkjugarðinn sem var óvenju fallega uppljómaður, enda var veður eins og best verður á kosið, blankalogn og hitastig kringum frostmark.
Á brennuna fórum við líka og bæjarstjóranum varð tíðrætt um kreppuástand þjóðarinnar og kom með nokkuð skýrar og auðskildar lausnir á þeim vanda fyrir velflesta. Brennan sjálf leit á tímabili út eins og brennandi HOF frá Austurlöndum, eins og greina má ef myndin sem fylgir er vel skoðuð....!
Eftir áramótaskaupið sem mér fannst óvenju óspennandi miðað við síðustu ár, þá fórum við með rjóma+súkkulaðibollur og ostabakka upp í Botnahlíð til Kristrúnar og Birgis, en þar safnast stórfjölskyldan saman um hver áramót og skýtur upp rakettum og borðar yfir sig af sætindum þegar nýja árið gengur í garð. Að þessu sinni vorum við venju fremur fáliðuð, því Binna var á næturvakt og fleiri fjarstaddir sem venjulega mæta.
Bæjarbúar virtust ekki auralausari en undanfarin ár, því nóg var um glæsilegar flugeldasýningar.
Nýársdagur rann svo upp bjartur og kyrr, svo ég óskaði þess að árið yrði jafn friðsælt og fallegt og veðrið gaf til kynna. Við "gamla settið" fórum því út í hjólreiðatúr og eftirlitsferð út í Gullver og liðkuðum lata og þreytta útlimi áður en fyrsta kvöldmáltíð ársins hæfist með tilheyrandi ofáti... verði öllum að góðu !

1 comment:

Anonymous said...

Ótrúleg myndin af brennunni !!
GLEÐILEGT ÁR.