Sunday, January 04, 2009

Tímamót - 55 ára




Veðurblíðan þessa 4 daga sem af eru árinu hefur verið einstök og gefur vonandi tóninn um gott framhald en verður ekki lognið á undan storminum.
Um hádegi í gær tókum við Rúnar þá skyndiákvörðun að renna norður til Húsavíkur í heimsókn til mömmu, því spáin var góð og við bæði í fríi og óbundin. Auk þess er 55. afmælisdagurinn minn í dag (4.jan) og mér fannst ágætt að halda uppá hann með því að skreppa að heiman fyrst að svona vel stóð á, því mér hálf leiðist að fara ein yfir fjöllin að vetri til, enda oft meiri og minni hálka á leiðinni.
Þegar ég var fyrir norðan fyrir 3 vikum (13.des) þá var líka rjómablíða og ég tók fullt af "bleikum" myndum á Húsavík en þá var alhvít jörð og aðrir litir en núna, því núna var jörð auð og sólin sem remdist við að skína á hluta bæjarins breytti dimmunni í dökkbláan bjarma sem var mjög ólíkur bleika bjarmanum um daginn. Ég set hér sýnishorn til samanburðar sem tekin eru í sitt hvorri ferðinni og að auki ein mynd af dúllunni henni mömmu, sem finnst orðið svo gott að kúra og hugsa um gamla og góða daga, því nú hefur hún ekkert hlutverk lengur eins og hún segir sjálf og getur leyft sér að vera löt og hvíla sig þegar henni hentar.

1 comment:

Anonymous said...

Frábærar myndir af víkinni og gaman að sjá mömmu þína, alltaf sjálfri sér lík blessunin. Kær kveðja