Monday, January 26, 2009

Þorrabragur 2009


Fyrir hvert þorrablót er sérstakur þorrabragur samin, sem nefndin syngur fyrir gesti. Textann má ávallt lesa í söngheftinu sem fylgir hverju sæti og ekki virðist neinn hörgull á góðum textum ár eftir ár. En því miður er höfunda ekki getið og er það miður. Ég ákvað að setja hér nýjasta þorratextann og auglýsi hér með eftir höfundi.

Þorrabragur 2009 (lag: Hann Mundi á sjóinn...)

Viðlag:
Lyftum glösum og skálum, já skál fyrir því,
sem skemmtilegt gerðist bænum hér í.

Við vonum að hér verði kæti í kvöld
er komum við saman með gleði við völd.
Svo borðum við allt sem á boðstólum er
og brennivín hafa víst flestir hjá sér.

Svo munum við reyna að minnast á það
sem markvert á árinu átti sér stað.
Þó sannleikur talinn sé sálnanna gull
að sjálfsögðu munum við ljúga ykkur full.

Í atvinnumálunum brjótum við blað
og brenglaða túrista löðum hér að.
Í Skaftfelli setjum upp sirkus og búð
og sýnum þar fólki hinn fullkomna trúð.

Og Alla hún túrista tekur í ferð
til að sýna þeim fjarðarins dásemdar mergð.
Ef keypt gæti hún Björn Roth og alla hans ætt,
alveg þá gætum við virkjunum hætt.

Í útflutningsmálunum hugsum við hátt
og horfum á myndlist í glugga og gátt.
Og seljum úr landi hvert einasta strik
þá Óli af kæti mun gef´okkur prik.

Á byrjuðu ári er brýnasta þörf
að bjartsýni ríki við leiki og störf.
Því skulum við svalla og syngja við raust
og sjá til að barneignum fjölgi í haust.

Við borðahaldið ætlum að enda með stæl
svo öll getum sveiflast í valsi og ræl.
Síðan við förum í tangó og tjútt
og tvistum og rokkum, já það verður fútt.

Og svo eftir allt þetta allsherjar geim
ánægð dauðþreytt þá förum við heim.
Þá hollast er hverjum að hugsa um sitt
og hoppa í rúmið og gera þar hitt.

Lyftum glösum og skálum, já skál fyrir því,
sem skemmtilegt gerðist bænum hér í.

No comments: