Sunday, January 25, 2009

Þorrablót 2009 afstaðið





Laugardagskvöldið 24.jan.var hið árlega þorrablót Seyðfirðinga haldið með pompi og prakt að vanda. Maður verður aldrei fyrir vonbrigðum, því alltaf tekst hverri stjórn sem kosin er að gjöra góða veislu. Svo var einnig í þetta sinn. Það verður að segjast að mikill munur er síðan blótshaldið var flutt í stóra íþróttasalinn, því nóg er plássið þar, þó dansgólfið hefði mátt vera stærra. Heiðursgestir blótsins að þessu sinni voru hjónin Fríða Hallgrímsd. og Hörður Hjartarson sem bjuggu lengst af ævi hér í bænum, þó nú sé svo komið að þau séu að mestu brottflutt. Gert var grín að íbúum staðarins og var það gert á meinlausan hátt, svo enginn ætti að vera sár eftir.
Ótrúlega mikið var af brottfluttum Seyðfirðingum sem mættu, auk fjölda ókunnugra gesta, svo lá við að þessir aðkomnu gestir væru hátt í helmingur viðstaddra. Allir virtust skemmta sér hið besta, ekki síst unga kynslóðin sem greinilega kunni að meta nærveru Stjórnarinnar með Siggu Beinteins í fararbroddi að leika fyrir dansi, en hún fékk lítinn vinnufrið fyrir áköfum aðdáendum sem hálf drekktu henni í flassljósum myndavéla. Maturinn smakkaðist mjög vel og drykkju virtist í hóf stillt.
Að lokum má geta þess að Bogi Þór Arason frændi Rúnars er fimmtugur í dag og óskum við honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með daginn.

1 comment:

Anonymous said...

Heyrðu um þetta í fréttunum. Hér var líka haldið mega blót, en við fórum ekki í ár. Flottar myndir og greinilga mikið stuð. Kær kveðja austur.