Saturday, October 09, 2010

Bodrum og nágrenni





Fyrsta ferðin sem við fórum var bæjarferð innan Bodrum og nágrennis, þar sem við skoðuðum Péturskastalann sem blasti við okkur frá hótelinu og vindmylluhæðina sem er svolítið fjær en kastalinn. Kastalinn var byggður að hluta til úr hinu fræga grafhúsi Mausolusar konungs frá 4. öld fyrir Krist, sem áður var talið eitt af sjö undrum veraldar.
Svo var ekið um ýmsa hluta bæjarins og Þóra fararstjóri rakti söguna langt aftur í aldir. Sagði m.a. frá bjargvætti Tyrklands sem setti lög sem komu konum til góða, t.d. að bannað væri að þær gengju í búrkum og fjölkvæni var bannað, svo eitthvað sé nefnt. Tyrkir eru yfir 90% múslímar og því moskur víða um borgina, en turnar þeirra blasa hvarvetna við og hátalarakerfi er notað til að minna menn á daglegar bænastundir, sem ómuðu oft á dag, ef vel var að gáð.
Við fórum upp á aðra hæð í borginni þar sem byggt var mikið virki og djúpur sýkisskurður í kring á dögum Alexanders mikla að mig minnir. Aðeins hliðarinngangurinn í virið stendur ennþá að hluta til og minnir á forna tíma. Við skruppum á ávaxtamarkaðinn og fengum þar nýtíndar fíkjur, fengum okkur að borða á veitingastað við bátahöfnina og enduðum ferðina í stóru og flottu verslunarhúsi sem selur skartgripi af dýrustu gerð. Ég veit ekki til að neinn úr okkar hópi hafi verslað þar, enda varla von miðað við verðið á ódýrustu hlutunum.
Margt fleira áttum við eftir að skoða á eigin spýtur sem verður kannski lokafrásögn þessarra ferðaminninga...

No comments: