Friday, October 08, 2010

Tyrkneskt bað...og nudd !



Eitt af því sem okkur var ráðlagt að prófa var að fara í Tyrkneskt bað og nudd.
Við höfðum auðvitað ekkert á móti því, en þegar til kom, þá reyndist það mikið dýrara en okkur hafði verið sagt og ég var að hugsa um að hætta við allt saman, en Rúnar vildi að við prófuðum þetta og eftirfarandi lýsing passar við þá meðferð sem við fengum.
Fyrst fórum við í sundfötum inn í gufubað og sátum þar um stund, þar til svitinn lak af okkur. Þá vorum við drifin inn í klefa þar sem fínt salt þakti allt gólfið. Við áttum að velta okkur uppúr saltinu og gerðum það auðvitað. Þaðan var farið með okkur inn í baðklefa, þar sem yfir okkur var hellt volgu og köldu vatni til skiptis, en inn á milli vorum við nudduð með grófum hönskum og einhverju efni eins og sandi sem átti að hreinsa allar dauðar húðfrumur af líkamanum. Að lokum fengum við svo létt sápunudd áður en við vorum skoluð og send í afslöppun, þar sem við biðum býsna lengi þar til ung stúlka setti á okkur leirmaska sem þurfti síðan að standa á andlitum okkar annan eins tíma og við höfðum beðið. Loks vorum við svo send inn í nuddklefa þar sem við fengum nuddmeðferð sem líktist að sumu leyti öðru nuddi sem við höfum prófað hingað til. Þó var þar einn stór munur þar á, þ.e. nuddarinn sem var karlmaður var ansi nærgöngull, meira en ég kærði mig um, þó ég léti kjurt liggja. En ég komst svo að því eftirá að fleiri konur höfðu lent í því sama og þær töluðu við fararstjórann um þetta sem fór lengra með málið, sem endaði víst á því að einn starfsmaður a.m.k. missti vinnuna af þessum sökum.
Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt, þar sem múslímar kæra sig ekki um að aðrir karlmenn sjái of mikið af þeirra konum, hvað þá að þeir snerti þær hálf naktar. En það er auðvelt að dæma aðra og hægt að skaða fólk með slíku, svo ég hef reynt að taka því sem að höndum ber án þess að gera mikið mál úr því....þó stundum verði maður að segja sína meiningu :)

No comments: