Friday, September 16, 2011

11. september 2011





Í dag fórum við í Vetrarhöllina sem er örugglega stærsta höll og safn sem við höfum komið í. Það er leikur einn að villast þar og þrátt fyrir góðan vilja, þá vorum við flest búin að fá nóg eftir 2-3 tíma göngu um ganga og sali hallarinnar sem er full af alls konar listaverkum frá flestum löndum heims. Meira að segja er til einn hlutur þar frá Íslandi, en hann er víst reyndar orðinn svo illa farinn að hann er ekki lengur hafður til sýnis. Hinsvegar eru þarna nokkrar gullfallegar styttur eftir danska Skagfirðinginn Thorvaldsen sem kemst næst því að vera Íslendingur af þeim sem þarna eiga verk til sýnis.
Pétur Óli hafði allann tímann með sér innfæddan leiðsögumann (Kötu) sem talar ensku og þau skiptu hópnum oft í tvennt til að auðvelda aðgengi að því sem var í boði og til að við heyrðum betur til þeirra. Eftir þessa skoðunarferð í höllina var ekið að markaðnum sem stendur rétt við hina gullfallegu blóðkirkju og þar fórum við úr bílnum. Við kíktum bæði á markaðinn og kirkjuna en gengum síðan áleiðis að hótelinu okkar með viðkomu í stóra nýja verslunarhúsinu Galleri sem er eins og margar Kringlur að stærð. Þar keyptum við eitthvað smávegis af gjöfum og fengum okkur að borða á Fridays en röltum loks heim þessa 3 kílómetra sem eftir voru af verslunargötunni...

No comments: