Friday, September 16, 2011

Síðasti dagurinn í Pétursborg









Engar skipulagðar ferðir voru þennan síðasta dag okkur í borginni og notuðum við hann til að rölta um miðborgina og fara í siglingu um sýkin sem eru um alla borgina, enda er hún sögð byggð á 42 eyjum í óshólmum árinnar og var því mjög erfitt byggingarsvæði.
Þetta var svalasti dagurinn í borginni og um kvöldið vorum við orðin nokkuð þreytt eftir margra kílómetra rölt allan daginn.
En það var margt og mikið sem vakti athygli okkar og aðeins hægt að stikla á stóru í frásögum af því. En íbúar borgarinnar virðast almennt vel klæddir, snyrtilegir og vel haldnir, auk þess sem alls staðar var mikið af fólki í verslunum og nóg af vörum af öllu tagi. Það virðist því vera upp runninn gósentími á þessum slóðum og aðeins fáir betlarar voru sýnilegir á almannafæri.
Allar götur voru líka mjög hreinar og fólk á ferðinni við að sópa upp smá rusli og ekki sáum við tyggigúmmí- klessur á gangstéttum og götum eins og hér heima, en í staðinn voru næstum allir með sígarettur í höndum og það er sannarlega ekki til fyrirmyndar....
Eitt var líka mjög áberandi, það var allt kvenfólkið sem gekk um á skelfilega háum hælum, ekki líkt því sem við erum vön hér heima. Ég fann eiginlega til með þeim að rembast við að ganga á þessum "stultum" og gat ekki stillt mig um að laumast til að taka myndir af fáeinum slíkum skóm á förnum vegi :)

No comments: