Friday, September 16, 2011

Fróðleiksför til St. Pétursborgar




Síðastliðinn föstudag fórum við Rúnar ásamt 30 öðrum farþegum með Icelandair til Helsinki í Finnlandi og þaðan með rútu til St. Pétursborgar í Rússlandi. Það var Pétur Óli Pétursson fararstjóri sem tók á móti okkur og stjórnaði röggsamlega öllum okkar ferðum næstu dagana. Hann hefur greinilega mikla skipulagshæfileika sem koma sér vel gegn rússneska skrifræðinu. Hann er líka ótrúlega sögufróður og áhugasamur um menningu Rússlands og Finnlands og óspar á upplýsingar um land og þjóð. Við gistum á ágætu hóteli (Moscow)sem byggt var fyrir ólympíuleikana og er það vel staðsett, svo flestar helstu byggingar og verslanir borgarinnar eru í göngufæri þaðan. Flestir ferðalangarnir fóru í allar skoðunarferðir sem í boði voru svo að hópurinn hristist vel saman og allir skemmtu sér hið besta. Margt kom á óvart og erfitt að velja og hafna hvað sé mest í frásögur færandi, en líklega þó það, að Rússar eru örugglega núna betur settir fjárhagslega en þeir hafa verið áður og sést það best á fatnaði, bílaeign og öllum þeim miklu framkvæmdum sem eru í gangi hjá þeim, eins og viðgerðir gamalla bygginga, gríðarmiklar samgöngubætur og ótal margt fleira sem sjá má á förnum vegi. Ég er að hugsa um að setja hér inn nokkrar myndir úr ferðinni og skrifa viðeigandi texta með þeim. Þetta verða því trúlega nokkrar stakar færslur. Meðfylgjandi myndir eru í fyrsta lagi af okkur og 3 samferðakonum okkar sem við vorum mest með þessa dagana, svo er það Pétur Óli og spilaklúbburinn og síðast en ekki síst mestur hluti hópsins sem var meira og minna saman á ferðinni flesta dagana...

No comments: