Monday, May 08, 2006

Sinn er hver siðurinn...

Það rifjast upp eitt og annað úr ferð okkar til Egyptalands, sem er þess vert að segja frá, fyrst og fremst til gamans, því oft eru skemmtilega ólíkir siðirnir á milli landa.
Við tókum þátt í fjölskyldumáltíð sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. En það sem vakti athygli mína í upphafi var það, að húsmóðirin hafði raðað dagblöðum yfir allt matborðið og lagði síðan á það og bauð okkur að gjöra svo vel. Síðan skammtaði hún ríflega með berum höndum á hvern disk og sagði okkur að vera ófeimin við að nota fingurna, við þyrftum ekki að nota hnífapörin þó þau væru sett á borðið.
Síðan var beinum og rusli hent á dagblöðin, svo að nóg pláss væri á diskunum meðan borðað var. Að aflokinni máltíðinni var blöðunum og ruslinu safnað saman og eftir stóð borðið jafn hreint og það var áður. Þarna voru gömlu blöðin greinilega nýtt til að létta húsmóðurstörfin og ekkert óþarfa vesen eða pjatt.
Ég verð að viðurkenna að ég kunni ekki við að taka mynd af borðinu svona, en hefði kannski átt að gera það, sennilega hefði enginn móðgast (?)
Annað var það sem kom okkur spánskt fyrir sjónir, en það voru siðir þeir sem viðhafðir eru á almenningssalernum. Við innganginn á flesta slíka staði stóð gæslukona/maður með klósettrúllu í hendi. Um leið og maður birtist, þá var undið ofan af rúllunni með því að vefja 2-3 hringi uppá hina hendina, síðan rifið frá og manni var rétt það sem af var rifið, eða svona u.þ.b. 6 bútar af rúllunni. Meira fékk maður ekki, nema byðja sérstaklega um það og enginn pappír var inni á sjálfum WC. Að sjálfsögðu var viðkomandi manneskja ekki með neina hlífðarhanska á sér. Eftir að maður hafði sinnt sínum þörfum og þvegið hendurnar, þá var manni aftur rétt álíka magn af WC pappír, en síðan var til þess ætlast að maður greiddi einhverja upphæð fyrir þjónustuna. Það gat því verið nauðsynlegt að hafa ætíð pakka af bréfþurrkum á sér, ef í nauðirnar ræki. Það verður hinsvegar að segjast eins og er, að öll salerni sem við þurftum að nota voru þrifaleg, þó gömul væru og jafnvel brotnar setur eða annað í ólagi. Þetta hefði sannarlega getað verið miklu verra.
Vegna þess hve algengt er að þurfa að gefa þjórfé fyrir alla skapaða hluti, þá varð maður að gæta þess að hafa alltaf á sér smápeninga, en það var hægara sagt en gert, því ekki var möguleiki á að fá slíkt í bönkum og það virtist oftast erfitt að fá menn til að skipta stærri seðlum. Við vorum því í sífelldum vandræðum útaf þjórfénu og gáfum því oft meira en við þurftum eða hreinlega urðum að sleppa því ef illa stóð á og fengum þá jafnvel illt auga fyrir vikið. Við höfðum með okkur svolítið af 1 dollara seðlum og einnig fáeinar Evrur sem björguðu okkur í byrjun, en sannarlega hefðum við viljað vera betur byrgt og munum huga að því í næstu ferð.
Margir halda að matur á þessum slóðum sé mjög kryddaður og sterkur, en við urðum þess aldrei vör, heldur þvert á móti var flest frekar bragðlítið og mikið soðið eða steikt. Það sterkasta sem ég bragðaði var pitsa með mjög bragðsterkri sósu, sem líklega hefur verið “hot” þó ekki hafi verið beðið um slíkt, því mig sveið í tunguna strax eftir fyrsta bitann.
Við heimkomuna var Rúnari færð meðfylgjandi teikning af honum sjálfum í hlutverki Faraós með hin ómissandi verkfæri vélstjórans í höndum....
Læt þessa upprifjun nægja að sinni. Hittumst heil....!