Tuesday, May 26, 2009

Dýralíf fjarðarins er líflegt núna...




Dýralífið hér í firðinum hefur verið óvenju líflegt undanfarið. Aragrúi fugla er kominn og sestur hér að til að verpa, hvalir hafa séðst hér undanfarna daga í firðinum og virðast í vaðandi átu, enda má líka sjá kríuhópa í vaðandi síli við fjörurnar og alls staðar er iðandi líf hvert sem litið er.
Í gærkvöld fórum við Rúnar að leita að kríueggjum, því ég var beðin um að fylgjast með varpinu í sumar og tilkynna fyrstu eggin, fjölda þeirra o.s.frv...
Satt best að segja þá fundum við mikið fleiri kríur og egg en við reiknuðum með og það sem meira er, við fundum fjölmörg hettumáfshreiður á sama stað. En hettumáfar eru nú ekki í uppáhaldi hjá okkur, því þeir hafa verið iðnir við að éta egg og unga og því ákváðum við að taka nokkur egg frá þeim og kanna hvort þau væru ennþá æt.
Svo reyndist vera og þakka ég fyrir tækifærið að fá að smakka þau aftur eftir áratugi, því ég ólst upp við það sem barn að tína egg undan hettumáfum og borða þau, ásamt kríueggjum sem eru einhver bestu egg sem ég fæ, þá sjaldan ég smakka þau.

Í glaða sól snemma í morgun skruppum við síðan á sjó til að líta á hvalinn sem við sáum blása hér í firðinum í gærkvöld. Þetta var meðalstór hnúfubakur, það við best gátum séð. Hann var hinn rólegasti til að byrja með og mér tókst að taka nokkrar myndir af honum örfáa metra frá bátnum. En síðan forðaði hann sér, hefur líklega talið það öruggara eða e.t.v. hefur ætið í sjónum freistað hans, svo við snérum heim á leið. Meðfylgjandi eru myndir frá þessum náttúrulegu viðburðum sem við fengum heiður af að njóta.... gjörið svo vel :)

Nýjar og gamlar minningar...




Útskriftarhelgina mína vildi svo til að Bergþór sonur minn átti afmæli.
Í tilefni af þessum tímamótum ákváðum við fjölskyldan að borða saman og fórum við Rúnar og strákarnir til Keflavíkur og áttum þar góðar stundir með Jóhönnu og fjölskyldu. Við það tækifæri kíktum við upp á "völl" þar sem tengdasonur okkar Mo er farinn að vinna í eldhúsinu í nýju DeTox fyrirtæki Jónínu Ben.
Það hittist svo vel á að opnunarhátíðin stóð yfir og hittum við þar Jónínu sjálfa, en hún er gamall kunningi frá Húsavík, enda bekkjarsystir bróður míns. Fjölskylda hennar hafði einnig mætt á staðinn og hitti ég þar Benna föður hennar sem ég kynntist vel þegar ég vann hjá honum í Hrunabúð, sællar minningar á unglingsárum. Benni var alltaf hress og líflegur félagi og mikill tónlistarmaður. Því miður skeði það nýlega að hann missti heyrn á öðru eyra og er ekki ennþá búin að venjast þessum missi. Hinsvegar hefur Jónína misst mörg kíló sem ég býst ekki við að hún sakni, því hún lítur mikið betur út núna en síðast þegar við sáumst. Ég fékk leyfi til að taka mynd af þeim feðginum og fylgir hún hér með.

Sunday, May 24, 2009

Útskriftin afstaðin - HÚRRA !!!



Í gær 23. maí 2009 útskrifuðumst við 4 skólasystur af 9 sem hófum saman nám í Bókasafns og upplýsingatækni fyrir 3 árum. Ein af okkur mætti þó ekki á útskriftina og við söknuðum hennar heilmikið. En sárabót var að hitta kennarann okkar hana Báru Jónu sem var með okkur í allan vetur og hún sagði okkur góðar fréttir, hún á von á barni í haust - LOKSINS - svo það ríkti mikil gleði meðal okkar fyrir hennar hönd.
Við höfum ákveðið að halda sambandinu eins góðu og kostur er og hittast helst árlega ef færi gefast. Það er ómetanlegt að eignast góða félaga víða um land sem deilt hafa með manni súru og sætu og við hjálpast að eftir þörfum í þessa þrjá vetur sem við vorum að puða í þessu sjálfsnámi, því varla er hægt að kalla það annað...
Við erum allar mjög ánægðar að þessum áfanga sé lokið og hlökkum til að takast á við ný verkefni og æfa okkur í því sem við höfum lært.
Við samgleðjumst líka öllum öðrum útskriftarnemum fyrr og síðar, því vissulega er gott fyrir alla að ljúka námi, þó stundum sé það söknuði blandið. Sem dæmi má nefna að við vorum í hópi rúmlega 200 útskriftarnema frá Borgarholtsskóla í þetta sinn og víða var verið að útskrifa nemendur vítt og breitt um landið á þessum tíma.
Myndirnar sýna allann hópinn við myndatöku í skólanum eftir útskriftina...

Tuesday, May 19, 2009

Sigling með Adam og Japsy



Við fréttum það í gærkvöldi(18. maí)að hvalur hefði skemmt bæjarbúum hér í firðinum. Við misstum af þeirri skemmtun en ákváðum hinsvegar að drífa okkur í sjóferð í morgun með Adam litla ömmu og afastrákinn okkar sem er hjá okkur í heimsókn og buðum Japsy Jacobs að koma með okkur, því hún átti inni loforð um slíka ferð hjá Rúnari. Veðrið var bara nokkuð gott, þó ekki skini sól og enginn sæist hvalurinn. Rúnar renndi færi í sjó og náði 2 þorskum, annar fékk frelsi en hinn ætlaði Adam að borða alveg sjálfur:)
Japsy var auðvitað hin kátasta, frelsinu fegin eftir miklar áhyggjur og kvíða undanfarnar vikur vegna vandræða varðandi atvinnu og dvalarleyfi hennar hér á landi, sem nú er loksins komið í lag út þetta ár, Guði sé lof !
Það var einmitt Rúnar sem hófst handa með góðri aðstoð fleiri heimamanna að safna undirskriftum henni til handa, sem vafalaust hrintu af stað miklum stuðningi við hana og það réttlætismál að hún fái að vera hér áfram eins og hún óskar.
Vonum að svo verði...
Að lokum verð ég að geta þess, að Adam vildi endilega fá að taka mynd á vélina mína og ég stillti honum upp og sýndi hvernig hann ætti að gera og bað hann að taka mynd af Japsy, sem hann og gerði býsna vel, því myndin sú fylgir hér með :)

Kórferð til Reykjavíkur




Síðastliðna helgi 16.-17. maí brá kirkjukór Seyðisfjarðar undir sig betri fætinum og skrapp í heimsókn til höfuðborgarinnar í þeim tilgangi að syngja í messu í Grafarvogskirkju og á Seyðfirðinga samkomu á eftir.
Í stuttu máli sagt, þá gekk allt eins og í sögu,fyrir messu buðu Theodór Blöndal og Björg okkur heim í notalegt spjall, þar sem setið var í sólinni utan dyra og notið léttra veitinga. Messan tókst síðan vel með þrjá presta við þjónustu og tvöfaldan kirkjukór við sönginn. Seyðfirðingar fjölmenntu í messuna og á skemmtunina sem var að aflokinni messu, svo talið var að um 200 manns væru mættir. Síðan sáu nokkrir brottfluttir Seyðfirðingar um kaffi fyrir viðstadda og kórinn söng nokkur af lögum Steins Stefánssonar við góðar undirtektir, en loks skemmtu fyrrverandi meðlimir Þokkabótar/Einsdæmis viðstöddum með spili og söng. Allir virtust skemmta sér hið besta og mikið var gaman að hitta alla þessa brottfluttu fv. bæjarbúa sem maður hefur ekki séð árum saman, marga hverja.
Það sem gerði ferðina enn ánægjulegri var kannski líka sú staðreynd að veðrið var alveg yndislegt, sól og blíða alla helgina auk þess sem kórinn snæddi saman ánægjulegan kvöldverð á laugardags-kvöldinu um leið og horft var á Evrovision-söngvakeppnina sem var svo eins hagstæð fyrir okkur Íslendinga eins og hægt var. Allir voru því óvenju glaðir. Semsagt góð helgi !

Monday, May 04, 2009

HERFUGL á Seyðisfirði


Ólafur Örn Pétursson hringdi í mig og sagði mér frá HERFUGLI á Seyðisfirði, þegar ég var nýlögð af stað frá Húsavík, áleiðis til Seyðisfjarðar í gær. Hann sagði að þeir Freyr Andrésson og fleiri hefðu séð og greint hann, enda fuglinn stór og engum öðrum fuglum líkur, en hann er sjaldséður flækingur hér á landi.
Unnur Óskarsdóttir hringdi líka í mig þegar ég var nýkomin heim og hafði séð hann líka og ætlaði að mynda hann, en auðvitað flaug hann á braut á meðan hún sótti myndavélina.
Ég hef séð herfugla af og til erlendis og tók meðfylgjandi mynd af einum slíkum við þjóðminjasafnið í Cairo í Egyptalandi fyrir 3 árum, en þar gengu þeir um á meðal íbúa borgarinnar, rétt eins og þrestir og starar spóka sig hér á meðal okkar Íslendinga í borg og bæ.
Þrátt fyrir nokkra leit í gær, fann ég hann ekki og þarf að fara núna í smá leiðangur í von um að ná mynd af honum til að senda á hóp fuglaáhugamanna sem ávallt fá tilkynningar frá mér, þegar flækingar eru hér á ferð.
Það er líka gaman að sjá svona fallega og óvenjulega gesti, þeir krydda hversdagsleikann...

Helgarfrí norðan heiða...




Það kom sér vel að 1. maí var á föstudegi, þá fékk maður langa fríhelgi og ég notaði tækifærið og skrapp í heimsókn norður til mömmu. Ég var heppin með veður eins og oftast á þessum ferðum mínum norður og við mamma skruppum á rúntinn eins og við erum vanar, þó náttúran sé lítið augnayndi enn sem komið er. Húsavíkurfjall og heiðarnar í kring eru ennþá ansi hvítar af snjó, en niðri í bæ er orðið autt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ég tók.
Ég undirbjó útsæðið því kartöflugarðurinn er orðinn auður og ég ætla að pota niður í hann eftir tæpan mánuð ef ég mögulega get. Ég fann nokkrar gamlar myndir heima í Hlíð og var svo heppin að fá góða hjálp frá Valda frænda mínum sem þekkti alla á þeim. Ég skrapp líka í heimsóknir til vina og ættingja, m.a. til Önnu Mæju sem var með barnabörnin í heimsókn. Emelíana sem er elst ömmubarna hennar æfir fimleika sem greinilega bera góðan árangur, því daman lék sér að því að fara í spitt og spígat, brú og stóð á höndum. Mig langaði alltaf til að geta þetta sem barn, en tókst illa upp, enda ekki í viðeigandi þjálfun. Það eina sem ég gat gert skammlaust á þessu sviði var að standa á haus ;)